Ómar Friðriksson
omfr@mbl.is
Mun færri gengu í hjúskap á seinasta ári en á árunum þar á undan. Tæplega 660 færri hjónavígslur fóru fram í fyrra en á árinu 2019 samkvæmt tölum sem fengust hjá Þjóðskrá Íslands í gær.
Mörg pör þurftu að fresta fyrirhuguðu brúðkaupi vegna faraldurs kórónuveirunnar og samkomutakmarkana. Alls fóru fram 3.480 hjónavígslur í fyrra samanborið við 4.136 á árinu á undan. Hjónavígslum í kirkjum þjóðkirkjunnar fækkaði úr 1.636 á árinu 2019 í 1.490 á seinasta ári. Hjónavígslum hjá sýslumanni fækkaði líka nokkuð. Þær voru 1.383 á árinu 2019 en 1.276 fóru fram í fyrra.
Hrun í komum erlendra ferðamanna birtist einnig í þessum tölum því mun færri útlend pör voru gefin saman hér á landi í fyrra eða 248 samanborið við 615 hjónavígslur erlendra ríkisborgara á árinu 2019. Hjónavígslum í skráðum trúfélögum utan þjóðkirkjunnar fækkaði í fyrra frá árinu á undan og voru 462 en 502 á árinu 2019.
Nú virðist hins vegar gæta aukinnar bjartsýni á að brátt sjái fyrir endann á faraldrinum og fjöldatakmörkunum svo hægt verði að halda brúðkaup þegar líður á árið og næsta sumar. Að sögn sr. Guðrúnar Karls Helgudóttur sóknarprests í Grafarvogskirkju hefur lifnað yfir þessu og mörg pör hafa hug á kirkjubrúðkaupi í sumar. „Fólk er mikið að bóka núna fyrir sumarið en það er líka töluvert mikið búið að bóka á árinu 2022 því sumir vilja hafa vaðið fyrir neðan sig og bíða. Ég hugsa að það hafi ekki oft verið bókað eins mikið með svona löngum fyrirvara eins og núna er fyrir árið 2022,“ segir hún.
Töluvert var um að pör þyrftu að fresta fyrirhuguðum brúðkaupum sl. vor og í byrjun sumars. Svo þegar í ljós kom síðsumars að ástandið vegna faraldursins héldi áfram gripu margir til þess ráðs að fresta stóru brúðkaupsathöfninni en halda í staðinn litla athöfn í kirkjunni með fjölskyldu og nánustu vinum. Ætla síðan að bjóða gestum aftur til kirkju í sumar og halda þá blessunarathöfn og stóra veislu svo fleiri gestir fái að upplifa athöfnina með þeim í kirkjunni. Hún segir að mikill meirihluti hafi ákveðið að halda sig við brúðkaupsdaginn og ætli sér svo að vera með stærri athöfn síðar þegar búið verður að aflétta fjöldatakmörkunum.
Laufey Böðvarsdóttir, kirkjuhaldari í Dómkirkjunni, segir að margir hafi þurft að flytja til dagsetningar hjónavígslna í kirkjunni í fyrra en margir hafi verið í sambandi við kirkjuna og ætli því ekki að hætta við fyrirhugað brúðkaup, sem sé mjög ánægjulegt. Sumir hafi líka ákveðið að láta faraldurinn ekki stoppa sig og gengið í hjónaband þótt ekki mættu vera nema tíu gestir að hámarki við athöfnina í kirkjunni en ætli sér svo að halda veisluna síðar. Þessi fámennu brúðkaup hafi verið mjög fallegar athafnir. Að sögn hennar er töluvert um bókanir fyrir brúðkaup í Dómkirkjunni á þessu ári og líka 2022 en þó ekki jafn mikið og bókað var fyrir síðasta ár.