Örn Sigurðsson
Örn Sigurðsson
Eftir Örn Sigurðsson: "Til verða a.m.k. 40.000 núllbílar: Bílar sem hverfa úr bókhaldinu því engin þörf er fyrir þá. Enginn saknar þeirra, þeir menga ekkert og kosta ekkert."

Hafið er lokaferli einnar afdrifaríkustu breytingar á aðalskipulagi Reykjavíkur nokkru sinni. Borgaryfirvöld halda því hins vegar ranglega fram að á ferðinni sé minni háttar aðlögun að svæðisskipulagi höfuðborgarsvæðisins (HBS) og þar með að áætlun Samtaka sveitarfélaga á HBS um borgarlínu, einhverri alverstu skipulagshugmynd allra tíma.

Lengi var ljóst að í uppsiglingu væri róttæk skipulagsbreyting, sem jafngilti í raun nýrri skipulagsáætlun. Samtök um betri byggð (BB) hafa ítrekað krafist þess að staldrað verði við og efnt til almenns samráðs við kjósendur í Reykjavík líkt og skipulagslög mæla fyrir um, ekki samráð um yfirbragð og áferð heldur um innsta kjarnann og forsendurnar.

Borgaryfirvöld hafa reynt að halda leyndu raunverulegu eðli breytingarinnar og nú er henni laumað úr reykfylltum bakherbergjum fram hjá kjósendum í Reykjavík sem „Reykjavík 2040 – Nýr viðauki við Aðalskipulag Reykjavíkur 2010-2030“ án nokkurs samráðs, aðeins einu ári fyrir borgarstjórnarkosningar 2022. Þessi „nýi viðauki“ markar algera kúvendingu í skipulagi höfuðborgarinnar.

Í kjölfar fyrsta svæðisskipulags HBS árið 2000 varð mikil íbúafjölgun, stjórnlaus útþensla byggðar og splundrun þjónustu í Kraganum (HaGaKóMo) en stöðnun og hlutfallsleg fækkun íbúa í Reykjavík þar sem vantar um 12.000 íbúa miðað við landsmeðaltal sl. 20 ár.

Með aðlögun AR 2040 að nýju svæðisskipulagi HBS er gefið í og vörðuð leið að enn róttækari fjölgun íbúa, áframhaldandi stjórnlausri útþenslu byggðar í Kraganum og aukinni splundrun þjónustu á HBS. Orsakavaldurinn er áætlunin um borgarlínu. Hún krefst þess að lunginn af 15-20 árgöngum nýrra borgarbúa allt til ársins 2040 setjist að meðfram þremur leiðum borgarlínu frá Vesturbæ Reykjavíkur út til ystu afkima HBS í Mosfellsbæ, Kópavogi og Hafnarfirði.

Við skoðun sést að borgarlína er kjarni í víðtæku samsæri gegn höfuðborginni. Samsærið má rekja til forkólfa Akureyringa og samherja þeirra, til ríkisvalds og Alþingis og ekki síst til forkólfa í sveitarstjórnum í Kraganum. Tilgangur samsærismanna er að hindra að ný miðborg rísi í Vatnsmýri. Að þess í stað festist þar í sessi varanlega auðn, sem tryggi einkum tvennt; syðri brúarsporð loftbrúarinnar til Akureyrar annars vegar og hins vegar skjól fyrir forkólfa í Kraganum til áframhaldandi stjórnlausrar útþenslu byggðar á HBS.

Samsærið verður dýrkeypt Reykvíkingum, borgarsamfélaginu og þjóðarhag. Flugvöllurinn í Vatnsmýri er festur í sessi til ársins 2040 eða í þann tíma, sem tekur að koma borgarlínu á koppinn. Höfuðborgarbúar sitja uppi með varanlega auðn og fá ekki nýju miðborgina, sem skyldi koma í Vatnsmýri eftir síðari heimsstyrjöld. Vítahringur bílasamfélagsins herðir tökin m.a. með aukinni mengun, tímasóun, útblæstri, lakari lýðheilsu, rýrari lífskjörum og viðvarandi landflótta svo eitthvað sé nefnt.

Því augljóslega er ný miðborg í Vatnsmýri langbesti skipulagsvalkostur borgarbúa. Hér verður þó ekki tíundað allt það hagræði, sem af honum leiðir, aðeins nefnd jákvæð áhrif á samgöngur og afleiddan samfélagsábata.

Borgarlína mun dreifa byggð og þjónustu. Þörf fyrir hefðbundinn akstur verður meiri en áður með tilheyrandi mengun, útblæstri og sóun. Hvorki strætó né borgarlína komast þangað sem flestir borgarbúar þurfa að komast í margþættum daglegum erindum sínum á gríðarlegu flæmi tættrar byggðar með óreiðukennda innviði og splundraða þjónustu. Á sama tíma festir borgarlína í sessi varanlega auðn í Vatnsmýri.

Athygli vekur að allar þrjár leiðir borgarlínu eiga sér upphaf og endi við Gamla miðbæinn í Reykjavík þar sem lítið annað er að sækja en umframstörf, aðstöðu fyrir erlenda ferðamenn og flugvöll, flugvöll sem borgarlína hefur þá fest í sessi í stað nýrrar miðborgar.

Það þarf varla snilling til að skilja að ekki er heil brú í áformum um borgarlínu, sem mun að mestu aka galtómum vögnum utan háannatíma líkt og strætó gerir nú, þ.e.a.s. í a.m.k. 12 klst. hvern virkan dag. Á sama tíma verða langflestir borgarbúar að þeysa á einkabílum um svæðið þvert og endilangt í leit að lífsnauðsynjum og þjónustu.

Bent hefur verið á gallaðar forsendur, áætlanir, kostnaðarmat og greiningar aðstandenda borgarlínu, að áhrif á akstur séu stórlega ofmetin og kostnaður vanmetinn. Að enginn rekstrargrunnur sé fyrir hendi og stórfellt tap sé óumflýjanlegt. En af framansögðu sést að tjónið af áhrifum borgarlínu á skipulag og framtíðarþróun byggðar og borgarsamfélags er margfalt meira en það getur mest orðið af borgarlínu sem misheppnaðri samgöngulausn.

Ný miðborg í Vatnsmýri leiðir til aukinna lífsgæða, m.a. til bættrar lýðheilsu, minni aksturs, minni útblásturs og mengunar. Tugþúsundir miðborgarbúa taka yfir umframstörfin, daglegur akstur inn að morgni og út að kvöldi minnkar eða hverfur. Aukið rými skapast í gatnakerfinu fyrir hefðbundnar almannasamgöngur og til verða a.m.k. 40 þúsund núllbílar. Það eru bílar sem hverfa úr bókhaldinu vegna þess að engin þörf er lengur fyrir þá. Enginn saknar þeirra, þeir menga ekkert og kosta ekkert.

Höfundur er arkitekt, í framkvæmdastjórn Samtaka um betri byggð (BB). arkorn@simnet.is

Höf.: Örn Sigurðsson