Guðmundur Magnússon fæddist í Reykjavík 11. ágúst 1936. Hann andaðist 16. janúar 2021. Útför Guðmundar fór fram 26. janúar 2021.

Einn af þeim kennurum sem ég hafði í Hagaskóla þau tvö ár sem ég var þar var teiknikennarinn Guðmundur Magnússon. Þegar ég sagði móður minni hver ætti að kenna mér teikningu kannaðist hún strax við hann, sagði hann vera Austfirðing líkt og hún og sagðist þekkja vel föður hans sem var skyldur henni í föðurætt.

Guðmundur var fljótur að finna áhuga okkar nemenda og studdi vel við hann. Hann bauð okkur sem mestan áhugann höfðum á teikningu og málun m.a. upp á kennslu í meðferð og notkun olíulita. Hann fór líka með okkur niður á Ægisíðuna, þar sem hann lét okkur teikna skúrana. Eins lét hann okkur teikna og mála húsin í kringum skólann, eins og Hagaborg og kirkjuna, bara með því að horfa á byggingarnar út um gluggann. Hann bæði kenndi okkur og treysti okkur til að teikna og mála við hvaða aðstæður sem var, og hefur sennilega ætlast til þess að við gætum nýtt okkur það t.d. á ferðalögum, ef út í það væri farið.

Einhvern tíma vildi ég vita, hvernig maður færi að því að búa til auglýsingu. Hann sagði mér það. Allar hans útskýringar voru mjög skýrar og ljósar. Hann var ævinlega hvetjandi og uppörvandi í kennslu sinni. Þannig eiga líka góðir kennarar að vera, enda virtist hann vera fæddur kennari. Sumir eru þannig.

Hvenær sem við hittumst á förnum vegi, eftir að ég hætti grunnskólanáminu í Hagaskóla, þá tókum við tal saman, enda þótti honum vænt um að geta fylgst með gömlum nemendum, og þegar hann heyrði að ég var að teikna og mála í frístundum mínum, þá var hann hvetjandi að vanda og gaf mér góð ráð. Einhvern tíma minntist ég á það við hann að við værum skyld og hann kannaðist við það.

Á háskólaárum mínum hitti ég hann svo á förnum vegi á háskólalóðinni og þar sagði hann mér að hann væri í landfræðinámi. Það fannst mér gaman að heyra, enda fannst mér að sú grein ætti svo vel við hann líkt og leiðsögumannsstarfið sem hann sagðist gegna.

Síðasta skiptið, sem ég hitti hann, var fyrir allnokkrum árum í Bókabúð Vesturbæjar á Hagamelnum, meðan hún var og hét, og tókum þá að vanda tal saman.

Þá sagðist hann vera að búa til málverk heima hjá sér og við töluðum um myndlistina, enda sagðist ég alltaf vera eitthvað að teikna og mála öðru hverju, sem honum leist vel á. Hann sagði mér líka margar sögur úr starfi teiknikennarans, eftir að ég var farin úr Hagaskóla, sem gaman var að hlusta á, sumar bráðfyndnar að auki, enda fengum við nemendur hans snemma að kynnast kímnigáfu hans og frásagnarhæfni. Nú verður þetta minningin ein.

Þegar ég nú kveð hann hinstu kveðju er mér efst í huga einlægt þakklæti fyrir góða kennslu og ráðleggingar, svo og góða viðkynningu gegnum árin, um leið og ég bið honum allrar blessunar Guðs, þar sem hann er nú og votta aðstandendum öllum innilega samúð.

Blessuð sé minning Guðmundar Magnússonar.

Guðbjörg Snót Jónsdóttir