Ágúst Ingi Jónsson
aij@mbl.is
Bálskýli í Haukadal brann til kaldra kola síðastliðinn fimmtudag. Skýlið sem var reist árið 2017 var stórt og stæðilegt og stóð í Hákonarlundi í Haukadalsskógi.
„Fyrst og fremst erum við þakklát fyrir ekki hafi orðið slys á fólki við svona stóran bruna en um talsvert tjón er að ræða og kostnaðurinn við byggingu svona skýlis hleypur á milljónum,“ segir Trausti Jóhannsson, skógarvörður á Suðurlandi. „Mikil mildi er að eldurinn hafi ekki dreifst víðar en veður var hagstætt, raki í jörðu og vindur hægur. Skýlið stendur úti í miðjum skógi og hæglega hefði eldur getað læst sig í skóginn og valdið gríðarlegu tjóni.“
Talið er að atvikið hafi orðið síðastliðið fimmtudagskvöld en engin tilkynning barst um brunann og urðu starfsmenn Skógræktarinnar varir við hann þegar þeir voru í eftirliti um svæðið daginn eftir, þá var enn glóð í stólpum skýlisins. Að sögn Trausta hefur enginn gefið sig fram varðandi málið en lögreglunni á Selfossi var tilkynnt um brunann strax þegar starfsmenn Skógræktarinnar urðu varir við tjónið.