Sautján Hlynur Bæringsson var stigahæstur Stjörnumanna og býr sig hér undir að skora körfu fyrir þá í leiknum gegn ÍR-ingum.
Sautján Hlynur Bæringsson var stigahæstur Stjörnumanna og býr sig hér undir að skora körfu fyrir þá í leiknum gegn ÍR-ingum. — Morgunblaðið/Árni Sæberg
Körfuboltinn Víðir Sigurðsson vs@mbl.is KR-ingar gáfu til kynna í gærkvöld að þeir ætluðu að vera með í baráttunni um fjögur efstu sætin í úrvalsdeild karla í körfubolta í vetur þrátt fyrir erfiða byrjun ríkjandi meistara á Íslandsmótinu.

Körfuboltinn

Víðir Sigurðsson

vs@mbl.is

KR-ingar gáfu til kynna í gærkvöld að þeir ætluðu að vera með í baráttunni um fjögur efstu sætin í úrvalsdeild karla í körfubolta í vetur þrátt fyrir erfiða byrjun ríkjandi meistara á Íslandsmótinu.

Til þess urðu þeir að fá eitthvað út úr erfiðum útileik gegn Grindvíkingum og þeir sóttu þangað dýrmæt stig með allsannfærandi sigri, 95:83.

Vesturbæingar voru yfir nær allan tímann. Staðan í hálfleik var 44:41 þeim í hag og þeir náðu að halda fjögurra til tíu stiga forskoti allan síðari hálfleikinn.

Tyler Sabin og Matthías Orri Sigurðarson voru í lykilhlutverkum en Sabin skoraði 27 stig og Matthías 22. Brandon Nazione lét vel að sér kveða í varnarleiknum og tók 16 fráköst en hann og Jakob Örn Sigurðarson skoruðu 12 stig hvor.

Kristinn Pálsson skoraði 19 stig fyrir Grindvíkinga og eistneski framherjinn Joonas Järveläinen skoraði 17 stig. Björgvin Hafþór Ríkharðsson var með 13 stig og 9 fráköst.

Sjö sigrar Stjörnunnar

Stjörnumenn virðast líklegastir til að fylgja Keflvíkingum eftir í baráttunni um efsta sætið og þeir unnu sinn sjöunda sigur í níu leikjum með því að leggja ÍR-inga í Garðabæ, 95:87.

Þótt Garðbæingar næðu um tíma átján stiga forystu tókst þeim ekki að hrista Breiðhyltinga af sér. ÍR minnkaði muninn í fimm stig undir lokin en komst ekki nær. ÍR er með 10 stig eins og KR og Grindavík og ljóst að baráttan um heimaleikjaréttinn í úrslitakeppninni verður gríðarlega hörð.

Hlynur Bæringsson skoraði 17 stig fyrir Stjörnuna, Alexander Lindqvist 16, Ægir Þór Steinarsson 15, Mirza Sarajlija 14 og Gunnar Ólafsson 12. Breiddin er góð hjá Garðabæjarliðinu og ekki er verra að það sé búið að endurheimta Tómas Þórð Hilmarsson. Collin Pryor skoraði 22 stig fyrir ÍR, Everage Richardson 19 og Evan Singletary 17.