[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Rúnar Hartmann Vilbergsson fæddist 9. febrúar 1951 á Sjúkrahúsinu á Ísafirði og ólst upp í Pólgötunni og síðar í Hafnarstræti á Ísafirði.

Rúnar Hartmann Vilbergsson fæddist 9. febrúar 1951 á Sjúkrahúsinu á Ísafirði og ólst upp í Pólgötunni og síðar í Hafnarstræti á Ísafirði. „Nóg var að starfa í frelsi æskuáranna og voru smíðaðir ófáir prammarnir og bátshornin sem farið var á um allar fjörur og jafnvel lagt í glæfraferðir sem enduðu yfirleitt vel þó stundum væri teflt á tæpasta vað,“ segir Rúnar. „Dúfnaveiði var einnig vinsæl og tilheyrandi kofasmíði. Allt var þetta smíðað meira og minna úr efniviði sem rekið hafði á fjörur eða fengið að láni þar sem fullorðna fólkið stóð í sínum framkvæmdum. Leiksvæðið var eyrin og reyndar allur Skutulsfjörðurinn frá fjöru til fjalls. Á sumrin naut ég þess einnig oft að vera hjá ömmu og afa á Flateyri í góðu yfirlæti en þar var heill ævintýraheimur heimur út af fyrir sig.

Ég átti því láni að fagna að dvelja nokkur sumur í sveit, fyrst hjá Ásgeiri Guðmundssyni í Æðey í Ísafjarðardjúpi við dúntekju, fjósamennsku og heyskap og síðar í Alviðru í Dýrafirði hjá hjónunum Helga Árnasyni og Jónu Kristjánsdóttur.“ Frá unglingsaldri stundaði Rúnar ýmis störf, s.s. verslunarstörf, byggingarvinnu, fiskvinnslu, húsgagnalökkun og vinnu á ljósmyndastofu.

Skólaganga Rúnars hófst í Inguskóla hjá Ingu Magnúsdóttur á Ísafirði, sem var undirbúningur 6 ára barna fyrir barnaskólann. Að loknu námi við barnaskólann og síðan gagnfræðaskólann á Ísafirði lá leiðin til Reykjavíkur þar sem Rúnar hóf um tvítugsaldurinn nám í fagottleik hjá Sigurði Markússyni ásamt tónmenntakennaranámi við Tónlistarskólann í Reykjavík. Þaðan lauk hann tónmenntakennaraprófi 1976 og einleikaraprófi 1979. Rúnar stundaði framhaldsnám í fagottleik hjá Joep Terwey við Sweelinck Conservatorium í Amsterdam á árunum 1980-1983.

Að námi loknu tók við leikur með ýmsum hljómsveitum og hljóðfærahópum, s.s. Sinfóníuhljómsveit Íslands, hljómsveit Íslensku óperunnar, Kammersveit Reykjavíkur, Íslensku hljómsveitinni, hljómsveitum kóra Hallgrímskirkju og Kórs Langholtskirkju ásamt kennslustörfum m.a. við Tónlistarskólann í Garðabæ og Tónskóla Sigursveins. Rúnar varð fastráðinn við Sinfóníuhljómsveit Íslands árið 1988.

Um fermingu fór Rúnar að leika á trommur með ýmsum hljómsveitum, m.a. skólahljómsveitinni Hlykkjum í gagnfræðaskólanum á Ísafirði. Síðan tóku við ein hljómsveitin af annarri; Sexmenn, Leones, Jana, Öx og BG og Inginbjörg en með þeirri hljómsveit spilaði hann í a.m.k. sjö sumur og fjármagnaði með því tónlistarnámið að mestu. Rúnar lék með Þursaflokknum frá 1978 á fagott og slagverk. Hann hefur leikið á fjölda hljóðritana, hljómplatna og diska. „Ég hef verið svo heppinn að kynnast frábærum músíkköntum í gegnum tíðina og fengið að spila alls konar tegundir af músík með danshljómsveitum, Þursunum, Sinfóníunni, kammerhópum, í óperunni o.fl. o.fl. Ég er mjög þakklátur fyrir það.“

Rúnar hefur sinnt ýmsum félagsstörfum á vegum Félags íslenskra hljómlistarmanna og Starfsmannafélags Sinfóníuhljómsveitar Íslands ásamt varaformennsku í Tónlistarbandalagi Íslands.

Helstu áhugamál Rúnars eru músíkin, ljósmyndun og að vera úti í náttúrunni. „Ég fór aftur að spila á trommurnar þegar ég fór á eftirlaun og hef undanfarin ár verið að spila með félögum mínum að vestan. Þó ég hafi búið í Reykjavík í meira en hálfa öld þá upplifi ég mig enn sem Ísfirðing og mér hlýnar alltaf um hjartaræturnar þegar ég kem vestur.“

Fjölskylda

Eiginkona Rúnars er Tamila Gámez Garcell, f. 27.8. 1974, kennari í Melaskóla. Þau búa á Sólvallagötu í Vesturbæ Reykjavíkur. Foreldrar hennar eru Angel B. Gámez Leyva, f. 29.7. 1951, logsuðumaður, búsettur í Holguin á Kúbu og Mayra Garcell Buedo, f. 7.9.1951, húsmóðir í Holguin. Þau eru skilin. Fyrri eiginkona Rúnars er Inga Rósa S. Joensen, f. 18.6. 1953, leikskólakennari.

Börn Rúnars eru 1) Ylfa Mist, f. 31.3. 1974, sjúkraliði, búsett í Bolungarvík, eiginmaður hennar er Haraldur Ringsted rafeindavirki; 2) Guðný, f. 18.11. 1980, myndlistarkona og skólastjóri á Drangsnesi; 3) Vilberg Samúel Rúnarsson Gámez, f. 8.5. 2007. Barnabörn eru Björgúlfur Egill Pálsson, f. 9.11. 1994; Birnir Ringsted, f. 31.7. 2001; Baldur Hrafn Ringsted, f. 3.3. 2004 og Kári Markússon, f. 26.5. 2008.

Systkini Rúnars eru Sara J. Vilbergsdóttir, f. 2.8. 1956, myndlistarkona í Reykjavík; Bryndís Vilbergsdóttir, f. 8.7. 1959, sérfræðingur í hljóð- og myndsafni Landsbókasafnsins, búsett í Hafnarfirði; Svanhildur Vilbergsdóttir, f. 12.10. 1964, myndlistarkona og kennari í Reykjavík.

Foreldrar Rúnars: Hjónin Vilberg V. Vilbergsson, f. 26.5. 1930, hárskeri og tónlistarmaður, og Guðný Magnúsdóttir, f. 17.3. 1929, d. 3.2. 2017, húsmóðir. Vilberg býr á Ísafirði þar sem þau Guðný bjuggu öll sín búskaparár.