Ingvar Tryggvason
Ingvar Tryggvason
Eftir Ingvar Tryggvason: "Vegna þeirrar tilvistarkreppu sem flugvöllurinn hefur verið í er ásýnd og ástand bygginganna eins og raun ber vitni. Þar er fyrst og fremst um að kenna langvarandi óvissu um framtíð vallarins."

Þrátt fyrir að vera eitt af mikilvægustu samgöngumannvirkjum þjóðarinnar hefur Reykjavíkurflugvöllur verið þrætuepli um langa hríð. Á Alþingi er til meðferðar þingsályktunartillaga um þjóðaratkvæðagreiðslu um framtíð Reykjavíkurflugvallar. Öryggisnefnd Félags íslenskra atvinnuflugmanna sendi umsögn þar sem gerð var grein fyrir þeirri afstöðu nefndarinnar að flugvöllinn þurfi að láta í friði á meðan hann er í rekstri. Áréttað var að ærið tilefni væri til þess að halda þessa þjóðaratkvæðagreiðslu, því borgarstjórn Reykjavíkur hefur unnið að því áum saman að leggja flugvöllinn niður, flugbraut fyrir flugbraut. Ýmsar kannanir hafa verið gerðar síðustu ár sem hafa leitt hug landsmanna í ljós, en þjóðaratkvæðagreiðsla hefur töluvert þyngra vægi og er líklegri til að koma borgaryfirvöldum í skilning um þá gríðarmiklu almannahagsmuni sem fólgnir eru í Reykjavíkurflugvelli.

Sú tilvistarkreppa sem Reykjavíkurflugvöllur hefur verið í síðustu áratugi hefur valdið stöðnun, haldið aftur af hagræðingu á staðsetningu fjölbreyttrar starfsemi innan flugvallargirðingar, haldið aftur af öllum úrbótum á ásýnd vallarins og ekki síst úrbótum í þágu flugöryggis. Reykjavíkurborg hefur borið fyrir sig skipulagsvald og hafnað beiðnum um stórar sem smáar breytingar á vellinum. Það eru vissulega til dæmi um það að samfélög hafa lagt niður gamla flugvelli en þá hefur fyrst nýr flugvöllur verið byggður og starfsemi komið á legg þar, áður en þeim gamla er lokað. Það er með öllu óábyrgt að slíta flugvöll í sundur, flugbraut fyrir flugbraut, eða þrengja svo að honum að starfsemin torveldist, eins og borgaryfirvöld vinna að. Á Reykjavíkurflugvelli er mjög fjölbreytt starfsemi sem þyrfti að finna stað á öðrum og/eða nýjum flugvelli, áður en Reykjavíkurflugvelli yrði mögulega lokað.

Miðstöð sjúkraflugs er á Akureyri, það er, miðstöð læknisfræðilegrar þjónustu sjúkraflugs í landinu. En það breytir ekki þeirri staðreynd að eina fullbúna hátæknisjúkrahúsið sem þjóðin hefur bolmagn til að reka er í Reykjavík og þangað þarf fólk að komast fljótt og örugglega. Burðarásinn í sjúkraflugi á Íslandi er Beechcraft King Air-skrúfuþotan, hraðfleyg vél búin jafnþrýsti- og afísingarbúnaði sem auðveldlega má fljúga yfir hálendi Íslands í nánast öllum veðrum. Þyrlur munu aldrei geta leyst öll þau verkefni sem skrúfuþota ræður við. Þó svo að íbúar landsbyggðarinnar þurfi sannarlega að reiða sig meira á sjúkraflugið, þá verður að hafa það hugfast að sjúkraflugið snýst ekki um landsbyggðina vs. höfuðborgarsvæðið. Íbúi höfuðborgarsvæðisins getur lent í lífsháska úti á landi og þurft að reiða sig á sjúkraflug eins og dæmin sanna. Viðfangsefnið er því meiriháttar öryggismál sem varðar alla íbúa landsins og vandséð hvaða hagsmunir trompa þessa almannahagsmuni.

Flugdeild Landhelgisgæslunnar (LHG) hefur aðstöðu á Reykjavíkurflugvelli en reglulega koma fram hugmyndir um að flytja starfsemina til Keflavíkurflugvallar. Sú aðstaða sem Landhelgisgæslan býr við á Reykjavíkurflugvelli er raunar bráðabirgðahúsnæði og er íslenskum stjórnvöldum til skammar satt best að segja. Þegar tölfræði útkalla LHG er yfirfarin kemur í ljós að helstu þjónustusvæði LHG eru fyrir austan Reykjavík og norð- og suð-austur af Reykjavík en einungis 10% útkalla eru suður frá Reykjarvíkurflugvelli. Af þessu leiðir að viðbragðstími LHG myndi lengjast fyrir hvern fluglegg þ.e. frá Keflavík að útkallsstað um u.þ.b. 10 mínútur sem er flugtíminn frá Keflavík til Reykjavíkur. ÖFÍA hefur vakið athygli á að þegar einungis ein viðveruvakt er til staðar leggur sú vakt ekki af stað, t.d. í verkefni út á sjó, fyrr en bakvakt er komin á starfsstöð og tryggt að viðveruvaktin hafi þann stuðning sem nauðsynlegur er þegar lagt er af stað í áhættusöm verkefni. Ef starfsemi flugdeildar LHG yrði flutt þyrfti einfaldlega að stórefla þyrlusveitina.

Reykjavíkurflugvöllur gegnir mjög mikilvægu hlutverki sem varaflugvöllur á Íslandi og hefur reynst vel sem slíkur fyrir vélar upp að stærðum á borð við Airbus A320 og Boeing 757. Þegar Keflavíkurflugvöllur lokast gegna flugvellirnir í Reykjavík, á Egilsstöðum og Akureyri þýðingarmiklu hlutverki sem varaflugvellir. Á Reykjavíkurflugvelli eru flugbrautir stuttar og veðurfar stundum svipað og í Keflavík. Flugvellirnir á Akureyri og Egilsstöðum eru hins vegar á öðrum veðursvæðum en hafa mjög ólíka flugtæknilega eiginleika. Það er sérstaklega skortur á flugvélastæðum sem takmarkar notkunarmöguleika þeirra sem varaflugvellir.

Fjölmargir starfshópar hafa verið skipaðir í gegnum tíðina til að fjalla um framtíð Reykjavíkurflugvallar og mikil greiningarvinna liggur fyrir. Í skýrslu samráðsnefndar samgönguráðuneytisins og Reykjavíkurborgar frá árinu 2007 segir á bls. 23 að innanlandsflug verði ekki flutt til Keflavíkurflugvallar öðruvísi en að varaflugvöllur verði byggður á Suðvesturlandi. Um þetta orsakasamhengi hefur ríkt ríkur skilningur á meðal þeirra sem fjallað hafa um þetta viðfangsefni.

Í skýrslu Þorgeirs Pálssonar um „Hlutverk Reykjavíkurflugvallar í öryggiskerfi landsins“ frá ágúst 2017 segir meðal annars í niðurstöðum: „Reykjavíkurflugvöllur hefur sem aðalflugvöllur innanlandsflugs í landinu um langt árabil gegnt veigamiklu hlutverki við að tryggja öryggi og velferð samfélagsins í víðtækum skilningi. Þannig hafa landsmenn getað treyst á að leit og björgun og hvers konar bjargir gætu borist á skömmum tíma með flugi frá höfuðborginni hvert á land sem er þegar óvænta og ógnvekjandi atburði hefur borið að höndum. Nægir í því sambandi að nefna snjóflóðin á Súðavík í janúar árið 1995 og á Flateyri í október sama ár, þegar á fjórða tug manna lést og margir slösuðust í þessum válegu atburðum. Þegar slíkar hamfarir verða eru flutningar í lofti með öflugum þyrlum og flugvélum afar mikilvægir til að flytja bjargir á vettvang. Einnig treysta landsmenn því að komast með sjúkraflugi á Landspítalann með forgangshraða hvenær sem þörf krefur.“

Reykjavíkurborg hefur kynnt áform um nokkuð háreista byggð í Skerjafirði. Isavia kallaði eftir rannsókn á áhrifum nýrrar byggðar í Skerjafirði á vindafar og ókyrrð á flugvellinum frá Hollensku flug- og geimferðastofnuninni (NLR). Í skýrslu NLR kemur fram að þótt áformaðar nýbyggingar rísi ekki upp í hindranaflöt flugbrauta er ekki þar með sagt að öllum öryggiskröfum sé fullnægt. Þær byggingar munu valda ókyrrð, geta haft mjög truflandi áhrif og jafnvel skapað hættu. Ókyrrð veldur óþægindum og eykur líkur á fráhvarfsflugi. Niðurstaða rannsókna NLR er sú að hættan af fyrirhugaðri byggð sé ekki óviðunandi en kalli engu síður á mildunarráðstafanir. Niðurstöður NLR munu nýtast flugrekendum, þá sérstaklega þeim sem sinna sjúkraflugi við að gera vindrós með viðmiðum og takmörkunum, komi til þess að þessi byggð rísi í Skerjafirði.

Að byggja nýtt íbúðahverfi svo nærri flugvelli má líkja við það að byggja landfyllingu við innsiglingu hafnar í fullum rekstri, landfyllingu sem lokar ekki beint höfninni en getur samt haft mjög truflandi áhrif á innsiglinguna. Það myndi líklega aldrei gerast á Íslandi að sveitarfélag færi þannig að ráði sínu. Þessi byggingaráform í Skerjafirði samræmast ekki samkomulagi um rannsóknir á möguleikum á byggingu nýs flugvallar í Hvassahrauni, undirrituðu af samgönguráðherra og borgarstjóra 28. nóvember 2019, en þar segir í 5. grein: „Aðilar eru sammála um að tryggt verði rekstraröryggi á Reykjavíkurflugvelli meðan á undirbúningi og gerð nýs flugvallar stendur, þar með talið eðlilegt viðhald og endurnýjun mannvirkja í samræmi við ákvæði gildandi samgönguáætlunar Alþingis.“

Nýtt íbúðahverfi sem hefur truflandi áhrif á starfsemi flugvallarins samræmist ekki þessum texta.

Öll umræða um Reykjavíkurflugvöll snertir skipulagsmál sveitarfélaga. Um þetta viðfangsefni gilda skipulagslög nr. 123/2010. Orðið skipulagsvald kemur ekki fyrir í lögunum og er raunar ekki til í lagasafni Alþingis.

Samkvæmt 3. grein skipulagslaga fer ráðherra með yfirstjórn skipulagsmála með Skipulagsstofnun sér til aðstoðar. Ríkið starfrækir Skipulagsstofnun sem er m.a. ætlað að aðstoða sveitarfélög og leiðbeina þeim við gerð skipulagsáætlana. Samkvæmt lögunum er lögð skipulagsskylda á sveitarfélög og þeim ætlað að gera svæðis-, aðal- og deiliskipulag. Er þá hið óskilgreinda skipulagsvald tekið eða veitt?

Það þykir sjálfsagt og eðlilegt að sveitarfélög taki sér skipulagsvald yfir svæðum sem þjóna fyrst og fremst íbúum viðkomandi sveitarfélags. Þannig er augljóst að Reykjavíkurborg taki sér skipulagsvald yfir Skeifunni og Hljómskálagarðinum. Reykjavíkurflugvöllur er hins vegar samgöngumannvirki sem þjónar öllum íbúum landsins.

Langflest Evrópulönd hafa þann háttinn á að skipulagsmál flugvalla eru á hendi fylkis eða ríkisins. Að mati ÖFÍA er því ástæða til að skoða kosti þess að ríkið færi með skipulagsvald yfir þeim flugvöllum á Íslandi sem gætu talist samfélagslega mikilvægir.

Það er mjög skiljanlegt að fólk sjái ofsjónum yfir því hvað Reykjavíkurflugvöllur tekur mikið pláss. Reykjavíkurflugvöllur var upphaflega hannaður sem herflugvöllur þar sem byggingum var dreift um í hernaðarlegum tilgangi. Vegna þeirrar tilvistarkreppu sem flugvöllurinn hefur verið í er ásýnd og ástand bygginganna eins og raun ber vitni. Þar er fyrst og fremst um að kenna langvarandi óvissu um framtíð vallarins. Hvað sem skipulagsskyldu eða valdi líður verður Isavia sem rekstraraðili Reykjavíkurflugvallar að hafa svigrúm til að gera einfaldar breytingar á vellinum, í þágu flugöryggis og skilvirkni, á meðan hann er í notkun.

Höfundur er formaður öryggisnefndar FÍA.

Höf.: Ingvar Tryggvason