Mótmæli í Jangon Mótmælandi sýnir stuðning sinn við Aung San Suu Kyi.
Mótmæli í Jangon Mótmælandi sýnir stuðning sinn við Aung San Suu Kyi. — AFP
Stefán Gunnar Sveinsson sgs@mbl.is Áætlað er að hundruð þúsunda hafi tekið þátt í mótmælum í öllum helstu borgum Búrma, einnig þekkt sem Mjanmar, gegn herforingjastjórninni í gær.

Stefán Gunnar Sveinsson

sgs@mbl.is

Áætlað er að hundruð þúsunda hafi tekið þátt í mótmælum í öllum helstu borgum Búrma, einnig þekkt sem Mjanmar, gegn herforingjastjórninni í gær. Þá lögðu margir niður störf í mótmælaskyni, en stuðningsmenn Aung San Suu Kyi, leiðtoga stjórnarflokksins NLD, kölluðu eftir því að allsherjarverkfall hæfist um allt land í gær.

Var þetta þriðji dagurinn í röð sem fjöldamótmæli spretta upp gegn valdaráni hersins, og brugðu stjórnvöld í Jangon og Mandalay, tveimur stærstu borgum landsins, á það ráð að lýsa yfir herlögum og útgöngubanni á kvöldin vegna mótmælanna. Varaði herinn jafnframt við frekari mótmælum.

Óeirðalögregla var víða kölluð til vegna mótmælanna, og beitti hún vatnsfallbyssum til að reyna að leysa þau upp í Naypyidaw, höfuðborg Búrma. Þá birti ríkissjónvarp landsins yfirlýsingu um að öll andstaða við herforingjastjórnina væri ólögleg og gaf til kynna að mögulega yrði beitt hörku til að kveða mótmælin niður.

Verður „öðruvísi“ í þetta sinn

Min Aung Hlaing, yfirmaður herforingastjórnarinnar, reyndi að réttlæta gjörðir sínar í sjónvarpsávarpi, og hélt því fram að yfirráð hersins yrðu „öðruvísi“ en þau voru milli 1962 og 2011, þegar herinn stýrði landinu harðri hendi í 49 ár.

Endurtók hann fullyrðingar þess efnis að þingkosningarnar í nóvember hefðu verið plagaðar af kosningasvikum og að herinn hefði verið í fullum rétti til að bregðast við þeim. Hét Hlaing því að þegar „verkefnum neyðarástandsins“ væri lokið yrði boðað til frjálsra og lýðræðislegra kosninga samkvæmt stjórnarskrá landsins, og að sigurvegari þeirra myndi taka við völdum.

Þá hét Hlaing því einnig að flóttamenn úr röðum róhingja myndu fá að snúa aftur til heimila sinna í Rakhín-héraði, og að létt yrði á sóttvarnaaðgerðum sem settar hafa verið á vegna heimsfaraldursins.

Samviskuföngum verði sleppt

Frans páfi ávarpaði í gær samkomu erlendra erindreka í Páfagarði og harmaði þar valdaránið, en páfi nýtti einnig messu sína á sunnudaginn til þess að lýsa yfir samstöðu sinni með búrmísku þjóðinni.

Sagðist páfinn vonast til þess að leiðtogum stjórnarflokksins og öðrum samviskuföngum yrði sleppt úr haldi svo fljótt sem auðið yrði og að viðræður yrðu teknar upp til að leysa úr málum.

Bretar og Evrópusambandið ákváðu svo í gær að krefjast umræðu í mannréttindaráði Sameinuðu þjóðanna um valdaránið, og er stefnt að því að hún fari fram á fimmtudag.