Drangeyjarfélagið mótmælir því að rannsóknir Náttúrustofu Suðurlands (NS) verði notaðar við veiðistjórnun og telur að þar ráði önnur sjónarmið en vísindaleg rök.

Drangeyjarfélagið mótmælir því að rannsóknir Náttúrustofu Suðurlands (NS) verði notaðar við veiðistjórnun og telur að þar ráði önnur sjónarmið en vísindaleg rök. Ráðleggingar NS miði við að meta lundastofninn á landsvísu en taki ekkert tillit til viðkomu stofnsins á einstaka svæðum.

Þetta kemur fram í umsögn félagsins um frumvarp um vernd, velferð og veiðar á villtum fuglum og villtum spendýrum. Drangeyjarfélagið hefur það að markmiði að halda við gömlum veiðiaðferðum og þeirri aldagömlu hefð að síga eftir eggjum og veiða fugl í Drangey.

Frá því að NS hóf vöktun á lundastofninum í Drangey hafa félagsmenn Drangeyjarfélagsins fylgst vel með niðurstöðum stofnunarinnar hvað Drangey varðar og annars staðar. „Allt frá upphafi rannsókna stofnunarinnar hefur ábúð og uppkoma unga verið með miklum ágætum í Drangey og raunar fyrir Norðurlandi öllu. Þetta má sjá í nýlegri skýrslu Náttúrustofu Suðurlands,“ segir í umsögninni. Félagið segir að NS virðist byggja tillögu sína um veiðibann á því að lunda hafi farið fækkandi á Íslandi. Drangeyjarfélagið kveðst ekki draga í efa að lundavarp hafi misfarist í Vestmannaeyjum undanfarin ár. „Hins vegar er það skoðun okkar að það eitt og sér eigi ekki að leiða til þess að veiðibann verði sett á um land allt og alls ekki þar sem stofninn er í vexti,“ segir í umsögninni. Þeir segja það vera samdóma álit veiðimanna og þeirra sem þekkja til í Drangey að lunda hafi fjölgað mikið og stöðugt hafi fjölgað í stofninum. Þá hafi lundastofninn í Málmey vaxið „með undraverðum hraða“ síðustu 30 ár eða svo. „Fullvíst má telja að þar sé að finna tugþúsundir lunda en þeirra er í engu getið í skýrslu nefndrar stofnunar.“

Drangeyjarfélagið segir að undanfarin ár hafi verið rekinn áróður á opinberum vettvangi um að friða beri lundann og allan svartfugl fyrir veiðum. Þar fari Fuglavernd fremst í flokki. Drangeyjarfélaginu þykir skjóta skökku við að sá sem stýrir lundarannsóknum fyrir NS og á samkvæmt frumvarpinu að veita veiðiráðgjöf sitji einnig í stjórn Fuglaverndar. gudni@mbl.is