Það kom upp snúin staða á sveitasetrinu á laugardagskvöldið. Við hjónin ætluðum þá, eins og við erum vön, að stilla á Helga Björns í Sjónvarpi Símans en næturgesturinn, sex ára gamall sonarsonur okkar, botnaði hvorki upp né niður í þeirri forgangsröðun enda væri viðureign Manchester United og Everton í ensku deildinni að hefjast á sama tíma á Símanum sport.
Ekki þurfti að dekstra afann til að skipta yfir á leikinn en ömmunni þótti það á hinn bóginn afleit hugmynd. Niðurstaðan varð því sú að Helgi hélt velli á skjánum en drengurinn horfði á leikinn í iPadinum sínum. Um það var samið að hann myndi hnippa í afann um leið og drægi til tíðinda – sem gerðist býsna oft enda lauk leiknum með 3:3-jafntefli. Milli þess sem hann gólaði „þeir voru að skora“ renndi sá stutti blaðlaust yfir leikmannahóp Arsenal, sem hann þekkir eins og lófann á sér, með númerum og öllu tilheyrandi.
Allir sofnuðu sælir og glaðir og ungi maðurinn vaknaði stundvíslega klukkan 7:58 á sunnudagsmorgninum með spurningu á vörum: „Afi, hvenær byrjar næsti leikur?“ Ég þurfti að hryggja hann með þeim upplýsingum að það væri ekki fyrr en í hádeginu. Það þótti honum aumt og með ólíkindum; að menn gætu ekki byrjað fyrr að spyrna.
Orri Páll Ormarsson