Jónas Elíasson
Jónas Elíasson
Eftir Jónas Elíasson: "Fróðlegar og skemmtilegar greinar Þórhalls Heimissonar um Egyptaland og Biblíuna eru í anda þeirra fræða að Biblían sé nokkuð rétt, sögulega séð."

Biblían er sögulega rétt, þetta er hin klassíska kenning. Auðvitað hefur sitthvað komið í ljós í fornleifarannsóknum sem er ekki alveg í samræmi við Biblíuna, aðallega Gamla testamentið, en það er frekar lítilfjörlegt. Vandamálið í biblíulegum fornleifarannsóknum er ekki að þar séu að finnast heimildir í andstöðu við Biblíuna. Vandamálið er það sem ekki finnst. T.d. finnast nánast engar heimildir um þá merku konunga Sál, Davíð og Salómon. Þetta er að mörgu leyti skiljanlegt, en til að skilja það þarf að líta aðeins betur á trúna.

Menn hallast helst að því í dag að eingyðistrúin sé uppruninn í hæðardrögum Júdeu um 1500 f.Kr. Merkar fornleifar, t.d. bókasöfn á leirtöflum, sem fundust í Sýrlandi í rústum borganna Ebla, Mari, Ugarit og Alalakh benda á þetta.

Með eingyðistrúnni verður ein mesta siðbót sem heimurinn hefur upplifað. Áður ríkti heiðinn siður með allri sinni bannhelgi, hefndarskyldu og óútreiknanlegum goðum í eilífri innbyrðis baráttu. Í stað óttavalds blóðhefnda kom einn Guð sem gerði sáttmála við sitt fólk og setti því lög. Þetta voru hin mósaísku lög, þau byggja á endurgjaldslögum (Lex Talionis) Hammurabis, konungs í Babýlon, þannig var komið á réttarkerfi sem leysti blóðhefndina af hólmi. Margir konungar í Egyptalandi og Mesópótamíu höfðu reynt þetta áður en þeirra kerfi hurfu með þeim sjálfum, en núna tókst það undir stjórn hins almáttuga Guðs Jahve. Trúardómstólar hans sáu um að framfylgja lögunum.

Þessi breyting verður þegar þjóðir eru að hverfa frá hjarðlífi og byrja að lifa af akuryrkju. Í slíku samfélagi er blóðhefnd ónothæf sem réttarvörslukerfi. En til þess að lögin næðu fótfestu þurfti harðar aðgerðir. Lýsingar Gamla testamentisins á ýmsum refsingum sem beitt var eru hrikalegar. Þarna fæðist öflugt trúarvald, úr því eru abrahamísk trúarbrögð sprottin, gyðingatrú, kristni og íslam.

Trúin sjálf eins og við þekkjum hana í dag af miskunnsemi Guðs, réttlæti hans og huggun kemur ekki fyrr en um þúsund árum seinna. En að upphaf trúarinnar er trúarlegt vald, einkum dómsvald trúarríkisins, skýrir ýmislegt sem fólk á erfitt með að skilja í dag.

Hebrear búa ekki við konungsvald í upphafi, heldur dómaravald, sem hefur aðsetur í griðaborgum, arfleifð þessa kerfis eru kirkjugriðin. Þetta kerfi á ekki rætur í Egyptalandi. Þar ríkti einvaldur faraó með embættismenn skriftlærðra presta, herstjóra og landaðals. Það er þetta kerfi sem verður ríkjandi í Evrópu fyrir tilstuðlan Rómverja, efnahagsmáttur rómverska keisararíkisins byggðist á Egyptalandi, þar var kornforðabúr Rómverja. Valdakerfi Evrópu með herstjóra sem var konungur af Guðs náð, og embættismenn og landaðall undir honum, er arfleifð egypsku faróanna. En Hebrear sluppu ekki til frambúðar. Seinna kusu þeir konung og koma sér upp fastaher til landvarna og notuðu til þess sameiningarafl trúarinnar.

Sameiningaraflið var svo sterkt, að enginn ættbálkur gat vikist undan því, það kostaði stríð. Lítill vafi er á því, að Lincoln Bandaríkjaforseti hefur sótt styrk í þessar sögur Gamla testamentisins þegar hann ákvað að hefja borgarastríðið í Bandaríkjunum á sínum tíma.

En trúarvaldið var fyrst og fremst um dómsvald. Trúarkerfið sjálft, síðar kirkjan, vopnast aldrei. Gamla testamentið er lögbók trúarvaldsins og skrifað sem slíkt. Því er ætlað að birta dómafordæmi úr sögunni, lögbækur þessa tíma voru ekki safn réttarheimilda, heldur dómafordæmi. Þessi hefð heldur áfram í kristni, fyrir tilstuðlan lögspekinga kirkjunnar. Endahnútinn reka kristnir konungar Evrópu. Afleiðing þessa er hinn kristni siður sem öll Evrópa og Ameríka býr við, jafnvel þeir sem telja sig til annarra trúarbragða. Mikil undirstaða þessa siðar er fyrirgefningarkenning kristninnar. Misindismönnum skal fyrirgefið þegar þeir hafa tekið út réttláta refsingu. Þannig er trúarvaldið gamla undirstaða nútímasiðmenningar.

Það er fróðlegt og skemmtilegt að velta vöngum yfir gildi Biblíunnar sem sögulegrar heimildar. En hún er dómafordæmi, ekki mannkynssaga. Því geta nöfnin verið skálduð – og því ekki finnanleg á fornminjum - beinlínis í þeim tilgangi að forðast deilur um hverjir væru beinir afkomendur og erfingjar hinna fornu konunga og æðstupresta. Einn sáttmálinn við drottin var að konungurinn skyldi vera af ættbálki Júda, en æðsti presturinn Leví, lengra var ekki gengið.

En sé horft fram hjá þessu er í sjálfu sér ekkert því til fyrirstöðu að trúin hafi komið til Júdeu með Hebreum frá Egyptalandi og ekkert að því að halda því fram. Þórhallur minnist þar á Akhenaton (Iknaton), en með honum verður bylting í egypskri list. Vildi Iknaton ekki gömlu listamennina? Ef svo er hafa Hebrear staðið honum til boða. Þarna urðu til listaverk svo ótrúleg að heimurinn hefur ekki séð annað eins hvorki fyrr né síðar. Frægust er gullgríma sonar Iknatons Tutankamons, en fegurst er styttan af konu hans Nefertiti, hún ber af í slíkum mæli að aðrar frægar fyrirsætur eins og Mona Lisa geta pakkað saman. Voru hebreskir listamenn þarna að verki? Hver veit? En sé svo er skiljanlegt að þeim var hent út.

Höfundur er prófessor. jonaseliassonhi@gmail.com

Höf.: Jónas Elíasson