Sigurður Jónsson
Sigurður Jónsson
Eftir Sigurð Jónsson: "Viljum við þannig kerfi að sá tekjulægri þurfi að missa megnið af sínum greiðslum frá Tryggingastofnun ríkisins?"

Margir skrifa og ræða um eldri borgara sem einsleitan hóp. Málflutningurinn er þannig að kjör allra eldri borgara séu eins. Auðvitað er þetta fráleitt. Tekjur eldri borgara eru eins misjafnar og annarra í þjóðfélaginu. Sem betur fer er fjöldi eldri borgara sem hafa ágætis tekjur úr sínum lífeyrissjóði og njóta þeirra kjarabóta sem fást á vinnumarkaði.

Skattalækkanir ríkisstjórnarinnar um síðustu áramót koma t.d. eldri borgurum jafnmikið til góða og öðrum í þjóðfélaginu.

Aftur á móti er alltof stór hópur eftirlaunafólks sem býr við verulega léleg kjör. Það á að vera takmark okkar að bæta hag þessara einstaklinga í stað þeirra sem búa við góð kjör.

Tekjulægri refsað fyrir að vinna

Margir eldri borgarar hafa getu til og áhuga á að vinna og afla sér þannig smá aukatekna. Það hlýtur að vera af hinu góða. Það sem er fáránlegt er að hjá þeim sem byggir sínar tekjur á greiðslum frá Tryggingastofnun ríkisins og að hluta frá lífeyrissjóði skerðast tekjurnar við það að vinna.

Tökum dæmi um tvo einstaklinga. Einstaklingur A fær rúmar 300 þús. kr. á mánuði frá Tryggingastofnun og lífeyrissjóði. Samkvæmt núverandi reglum má hann vinna fyrir 100 þús. kr. á mánuði án þess að greiðslur skerðist frá TR. Seinni 100 þús. krónurnar sem hann vinnur sér inn skerða svo greiðslur frá TR um 45%, þannig að hann heldur aðeins eftir um 20 þús. krónum, eftir skerðingar og skatt. Þetta er óréttlátt.

Tekjuhærri sæta ekki skerðingum

Skoðum nú einstakling B, sem hefur 600 þús. krónur á mánuði úr sínum lífeyrissjóði. Hann fær ekkert frá TR þar sem hann fer yfir tekjumörkin.

Þessi einstaklingur fær sér einnig vinnu og fær 200 þús. kr. á mánuði. Hans aukatekjur skerðast ekki heldur greiðir hann venjulegan skatt eins og allir aðrir launþegar.

Viljum við virkilega hafa þannig kerfi að sá tekjulægri þurfi að missa megnið af sínum greiðslum frá TR vegna sinnar vinnu?

Að sjálfsögðu eiga allir eldri borgarar sem geta og vilja vinna að borga skatt en ekki sæta skerðingum á greiðslu frá TR.

Eðlilegt að Tryggingastofnun bæti hag þeirra lægst launuðu

Kosningar til Alþingis fara fram í haust. Stjórnmálaflokkarnir þurfa á næstunni að leggja fram sín stefnumál. Það verður athyglisvert að fylgjast með hverju verður lofað.

Ég tel að rétta stefnan sé að höfuðáherslan verði á að bæta hag þeirra lægst launuðu meðal eldri borgara. Það er skynsamlegt að setja þak á greiðslur frá Tryggingastofnun ríkisins. Þeir einstaklingar meðal eldri borgara sem hafa háar mánaðargreiðslur þurfa ekki á stuðningi að halda frá Tryggingastofnun. Við eigum að nota fjármunina til að bæta hag þeirra sem á þurfa að halda.

Taka þingmenn og frambjóðendur undir þetta sjónarmið mitt?

Höfundur er eldri borgari.

Höf.: Sigurð Jónsson