Sumir segjast hafa ríkari réttlætiskennd en náunginn. Þá gæti verið rétt að taka stóran sveig hjá þeim

Það var frægt í kosningabaráttunni í Bandaríkjunum á síðasta ári að Biden núverandi forseti varð að biðjast afsökunar á ýmsum ummælum sínum, misalvarlegum þó, og sama gilti auðvitað um fyrrverandi forseta, sem var ekki alltaf viljugur til þess.

Í hörðum slag, þar sem menn hafa mikla yfirferð og eru stanslaust mataðir á upplýsingum sem ráðgjafagerið telur líklegt að geti orðið efst á baugi næstu klukkustundirnar eða svo, er slysahættan mikil.

Biden var reyndar þekktari fyrir mistök og misminni en hinn og eins að endurtaka fullyrðingar sem hann hafði margoft sætt leiðréttingum á, enda verið áratugum saman í hringekju stjórnmálanna, á meðan hinn var nánast nýgræðingur þar.

En það flækti einnig stöðuna fyrir þann sem hafði verið lengi að þegar tími og smekkur var kominn í umbreytingarham. Reiði braust út í fyrsta sinn þegar Biden hélt því brattur fram að sá blökkumaður sem ekki léti sitt atkvæði falla á sig og aðra demókrata væri í raun og veru ekki blökkumaður! Áratugum saman hafði Biden átt hlátur og klapp víst þegar þessi yfirlýsing kom. En á árinu 2020 vakti hún reiði, pú og hróp, og sögð niðurlægjandi fyrir blökkumenn, sem hún var og hafði reyndar alltaf verið.

Biden baðst afsökunar að ráðum „vitringa“ sinna en fullyrt var að hann sæi ekkert athugavert við orð sín, enda notað þau reglubundið áratugum saman með „góðum árangri“. En auðvitað báru þau virðingarleysið með sér þegar á það hafði verið bent. En þó er fjarri því að vera víst að Biden hafi meint þau illa. Jafnvel þvert á móti. Hann hafði að þessu leyti misst af þessum tiltekna strætisvagni og því orðið á eftir breytingum í rétta átt. Sama gildir um svo margt annað í tilverunni.

Sá maður sem hefur einurð til að líta um öxl til sjálfs sín „í góðra vina hópi“, hlæja með eða segja sjálfur hluti sem aðrir hlógu dátt að um samkynhneigt fólk og gjarnan þá látið eins og um rósamál væri að tefla, því það þótti enn „fyndnara“. Fáir slíkra myndu gerast sekir um slíkt núna. Ekki vegna þess að það tal sé fellt undir bannhelgi tíðarandans. Ástæðan er miklu fremur sú að slíkt er algjörlega hætt að vera fyndið án þess að nokkur hafi gert kröfu um það. Það dró ský frá sólu að þessu leyti. Sá sem telur sér trú um annað situr berrassaður eftir í nýliðinni fortíð og kemst hvorki lönd né strönd.

Í tilgerðartali nútímans er vaxandi belgingur um ótæka „orðræðu“ sem sífellt fleira tekur til og eru gerðar tilraunir til að kæfa allt slíkt með hótunum og hrópum, og jafnvel veifað svipu refsivalds yfir höfðum manna eða töngum til að brennimerkja. Eins og jafnan gengur þetta tilbúna réttlæti sífellt lengra og nú nálgast markið þar sem „orðræða“ sem góða fólkinu hugnast ekki og tryllist jafnvel yfir sé í raun ekki annað en annarra manna skoðanir sem beri að útrýma. Þá styttist í að aðgerðirnar verði orðnar miklu verri en aðeins gagnslausar.

Dæmið um fyndnina sem fauk út í buskann kom ekki til vegna þess að löghlýðnir menn gættu sín betur í umræðu á almannafæri. Ef svo væri þrifist „fyndnin“ enn víða á bak við byrgða glugga.

Fyrirbærið varð óvænt fyrir geisla frá eins konar upplýsingaöld sem átti leið framhjá og það rofaði til. Þeir sem ljósið náði ekki til sátu eftir með falleinkunn í fyndni. Sú var allt í einu ekki lengur þar og hafði sennilega aldrei verið þar.