Brak Hurð skall nærri hælum er fremsti hluti hreyfilkápunnar og annað smábrak hrapaði niður á einbýlishússlóð í Broomfield skammt frá Denver. Á svipuðum tíma rigndi braki einnig niður í Hollandi.
Brak Hurð skall nærri hælum er fremsti hluti hreyfilkápunnar og annað smábrak hrapaði niður á einbýlishússlóð í Broomfield skammt frá Denver. Á svipuðum tíma rigndi braki einnig niður í Hollandi. — AFP
Ágúst Ásgeirsson agas@mbl.

Ágúst Ásgeirsson

agas@mbl.is

Víðtækt flugbann var í gær og fyrradag sett á Boeing-777-flugvélar í framhaldi af því að annar hreyfillinn á einni þotu United Airlines af þessari gerð sprakk í tætlur skömmu eftir flugtak í Denver í Colorado-ríki í Bandaríkjunum á laugardag. Nær bannið til B-777 með Pratt & Whitney-hreyfla en flugmönnum United-þotunnar tókst að snúa við og lenda aftur heilu og höldnu í Denver án þess að nokkurn sakaði um borð.

Mælti Boeing með banni við flugi 777-flugvéla um heim allan með hina tilteknu hreyfla. Náði það til samtals 128 flugvéla United í Bandaríkjunum, ANA og JAL í Japan og Asiana Airlines í Suður-Kóreu. Yfirvöld í viðkomandi löndum lögðu einnig blátt bann við notkun flugvélanna þar til rannsókn væri lokið á ástæðum þess að kviknaði í hreyflinum og hann sprakk. Í myndbandi sem tekið var innan úr þotunni mátti sjá loga í hægri hreyflinum sem vaggaði á vængfestingunum. Um borð voru 231 farþegi og 10 manna áhöfn.

Vélarhlífin rifnaði af og féll til jarðar í borgarhlutanum Broomfield ásamt frekara braki úr þotunni. Stærsta stykkið skall til jarðar aðeins tveimur til þremur metrum frá útihurð íbúðarhúss. Brak dreifðist einnig yfir íþróttavöll en enginn varð fyrir hrapandi flugvélarhlutum, að sögn lögreglu.

Farþegar United-þotunnar, flugs United 328, skýrðu frá „mikilli sprengingu“ skömmu eftir flugtak. „Þotan tók að hristast ofsalega og lækkaði flugið hratt,“ sagði farþegi að nafni David Delucia. Hann bætti við að þau hjónin hefðu stungið seðlaveskjum sínum í vasann svo kennsl mætti bera á þau færist flugvélin, sem var á leið frá Denver til Honolulu á Havaí-eyjum.

Í framhaldi af óhappinu hefur bandaríska flugmálastjórnin (FAA) fyrirskipað aukaskoðun á öllum Boeing 777-þotum með Pratt & Whitney 4000-hreyflana áður en þær verða teknar í notkun aftur. „Við skoðuðum öll fáanleg gögn úr flugvélinni í framhaldi af atvikinu,“ sagði forstjóri FAA, Steve Dickson. „Á grundvelli fyrstu upplýsinga höfum við ákveðið að tíminn milli flughæfisskoðana á blásarablöðum þotuhreyflanna skuli styttur en hol hreyfilblöðin er ekki að finna í neinum öðrum flugvélum sem Boeing smíðar.

Bann til bráðabirgða á þotuhreyflana

Áformaður var fundur FAA með vélarframleiðandanum og Boeing í gær. Frumniðurstöður athugunar samgönguöryggisstofnunar Bandaríkjanna (NTSB) á hreyflinum eftir lendingu voru að mestar skemmdir hefðu orðið af völdum tveggja hreyfilblaða sem brotnuðu af og stungust í skrokk þotunnar. Hafi búktjónið verið óverulegt.

Bretar ákváðu í gær að banna í lofthelgi sinni allt flug Boeing 777-flugvéla með sömu þotuhreyfla og flugvélin sem þurfti að snúa aftur til Denver. Samgönguráðherrann Grant Shapps sagði bráðabirgðabannið ná til Pratt & Whitney 4000-112-hreyfla. Kvaðst hann myndu vinna náið með breska loftferðaeftirlitinu vegna málsins. Bresk flugfélög eiga hvorki né reka flugvélar með viðkomandi hreyfli. United Airlines er eina bandaríska flugfélagið sem hefur B-777-þotuna í rekstri.

Öllum Boeing-777-þotum með Pratt & Whitney-hreyfla ber að forðast lofthelgi Japans með öllu þar til annað verður ákveðið. Þetta á við um flugtak, lendingu og flug yfir landinu. Hefur japanska stjórnin samþykkt að flugfélögin JAL og ANA hætti ótímabundið notkun þessara flugvélartegunda sinna.

Í nýliðnum desember neyddist 777-þota frá JAL til að snúa aftur og lenda á Naha-flugvelli vegna ótilgreindrar bilunar í vinstra hreyfli. Hún var jafngömul þotunni sem hreyfillinn sprakk í sl. laugardag eða 26 ára. Árið 2018 brotnaði hægri hreyfill United Airlines-þotu af sömu gerð rétt fyrir lendingu í Honolulu. Var það niðurstaða NTSB að sprunga eftir endilöngu hreyfilblaði hefði orsakað bilunina.

Hið dramatíska flug United-þotunnar er nýtt áfall fyrir stærstu flugvélasmiðju heims. 737 MAX-þotur hennar voru kyrrsettar frá mars 2019 eftir að 346 manns fórust í tveimur slysum með stuttu millibili; með þotum Lion Air í Asíu 2019 og þotu Ethiopian Airlines árið eftir. Niðurstaða rannsakenda var að gallaður stjórnbúnaður, svonefndur MCAS-búnaður, hefði valdið slysunum. Varð Boeing að lagfæra það frá grunni og umskrifa þjálfunarbækur flugmanna.

737 MAX sló í gegn hjá flugfélögum og seldist hraðar en nokkur önnur þota Boeing þar til flugbannið var sett á hana, en því var nýlega aflétt. Með kórónuveirufaraldrinum hrundi eftirspurn eftir flugvélum og afpöntuðu félög hundruð MAX-véla.

Yfirvöld í Hollandi sögðust í gær vera að rannsaka hreyfileld í Boeing 747-400-flutningaþotu sem lét braki rigna niður yfir lítinn bæ, Meerssen, í Hollandi á svipuðum tíma sl. laugardag og hreyfill United-flugvélarinnar eyðilagðist í eldi. Hollenska þotan var nýfarin í loftið á Maastricht-Aachen-flugvellinum skammt frá Meerssen í suðurhluta Hollands er atvikið átti sér stað. Slösuðust tveir menn er þeir urðu fyrir fallandi braki úr þotunni sem var á leið til New York með vörur og lyf. Notar 747-400-þotan smærri útgáfu af Pratt & Whitney-hreyflinum sem var í B-777-þotunni í Denver.