Uppskera á helstu káltegundum, öðrum en hvítkáli, jókst á síðasta ári. Framleiðsla á rauðkáli meira en fimmfaldaðist og voru um 70% rauðkálsins sem borið var fram með steikum um jól og áramót innlend framleiðsla.

Uppskera á helstu káltegundum, öðrum en hvítkáli, jókst á síðasta ári. Framleiðsla á rauðkáli meira en fimmfaldaðist og voru um 70% rauðkálsins sem borið var fram með steikum um jól og áramót innlend framleiðsla.

„Tíðarfarið skiptir mestu máli um það hvernig tekst til í ræktuninni. Ræktun á rauðkáli tókst vel þetta árið. Við sáðum einnig í heldur meira land,“ segir Sigrún H. Pálsdóttir, eigandi Garðyrkjustöðvar Sigrúnar á Flúðum, sem er öflug í ræktun á káli. Eftirspurn eftir rauðkáli er mest í desember og reyna bændur eftir fremsta megni að anna eftirspurninni.

Uppskera margfaldast

Á sama tíma og innlend framleiðsla jókst, eins og sjá má á meðfylgjandi grafi, dróst innflutningur heldur saman þannig að hlutdeild innlenda grænmetisins jókst á milli ára. Framleiðsla á spergilkáli (brokkólí) hefur margfaldast á síðustu árum. Aukningin hélt áfram á nýliðnu ári. Þá þrefaldaðist framleiðsla á kínakáli. Hins vegar minnkaði uppskera á hvítkáli. Sigrún segir að illgresi hafi leikið hvítkálsakra hennar grátt síðastliðið sumar og telur hún að það sé ástæðan fyrir samdrætti í uppskeru í heildina.

Þrátt fyrir aukningu í framleiðslu ýmissa káltegunda er meirihluti afurðanna enn fluttur inn. Það sama á við um helstu tegundir salats. Hins vegar er markaðshlutdeild íslenskra sveppa að aukast.

Telur Sigrún að garðyrkjubændur reyni áfram að standa sig og nýta eftirspurnina sem mest, sérstaklega í hvítkáli og öðrum þeim afurðum sem hafa mikið geymsluþol. Hins vegar séu blómkál, spergilkál og jafnvel kínakál árstíðabundin vara sem ekki hafi mikið geymsluþol. „Ég vona að við fáum gott ræktunarár og hvítkálið verði lengur í búðum næsta vetur,“ segir Sigrún.

Ágæt kornuppskera

Ágætlega áraði einnig fyrir ræktun á kartöflum, rófum, gulrótum og korni. Þó er framleiðsla minni en var á metárinu 2019.

Bændur og tilraunastjórar voru í haust bjartsýnir á uppskeru á korni. Talið var að uppskeran yrði jöfn og góð um allt land. Það hefur að nokkru gengið eftir en þó ná uppskerutölur ekki sömu hæðum og á árinu á undan, samkvæmt bráðabirgðatölum Hagstofu Íslands. helgi@mbl.is