Jón Ólafur Skarphéðinsson fæddist í Reykjavík 15. september 1956. Hann lést á líknardeild Landspítalans í Kópavogi 11. febrúar 2021.
Foreldrar hans eru Halla Oddný Jónsdóttir, f. 14. júní 1935, og Skarphéðinn Bjarnason, f. 21. febrúar 1927, d. 10. september 2006. Yngri sonur þeirra er Friðgeir Bjarni, f. 1960. Fyrri eiginkona hans var Margret Hallgrímsson, f. 1953, d. 2015. Seinni eiginkona Friðgeirs Bjarna er Sigrún Rafnsdóttir, f. 1960. Halla Oddný og Skarphéðinn skildu. Seinni kona Skarphéðins var Sigríður Karlsdóttir vaktstjóri, f. 17. september 1944, d. 23. janúar 2018. Synir þeirra eru Karl, f. 1968, eiginkona Sara Gylfadóttir, Hjálmar, f. 1969, eiginkona Elín Ólafsdóttir, og Óskar Bjarni, f. 1980, eiginkona Dóra Bergrún Ólafsdóttir.
Eiginkona Jóns Ólafs er Hólmfríður Jónsdóttir, f. 4. ágúst 1959, og giftust þau 24. apríl 2004 eftir 23 ára sambúð. Foreldrar Hólmfríðar voru Margrét Pétursdóttir Jónsson, f. 1928, d. 2004, og Jón Gestsson, f. 1924, d. 1961.
Jón Ólafur og Hólmfríður eignuðust þrjú börn: Jón Börk, f. 24. janúar 1983, d. 16. júní 2001, Unu Björk, f. 20. maí 1991, og Ásu Karen, f. 16. maí 1994.
Jón Ólafur ólst upp í Hlíðunum og gekk í Hlíðaskóla og Gagnfræðaskóla Austurbæjar. Hann lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum við Hamrahlíð 1976 og BS-prófi í líffræði frá Háskóla Íslands árið 1979. Samhliða náminu stundaði hann rannsóknir undir leiðsögn Jóhanns Axelssonar og kenndi lífeðlisfræði við Háskóla Íslands. Hann flutti síðan út til Svíþjóðar 1983 ásamt konu sinni og syni og hóf þar doktorsnám sem fjallaði um áhrif ósjálfráða taugakerfisins og ýmissa lyfja á stjórn blóðflæðis. Hann varði doktorsritgerð sína við Gautaborgarháskóla árið 1988 og var ráðinn lektor við hjúkrunarfræðideild Háskóla Íslands sama ár. Frá 1995 starfaði hann sem prófessor í lífeðlisfræði og kenndi við flestar deildir heilbrigðisvísindasviðs. Hann stundaði jafnframt fjölbreyttar rannsóknir á sviði lífeðlisfræða. Hann tók virkan þátt í félagsmálum og sat m.a. í háskólaráði.
Jón Ólafur var í sveit sem barn, fyrir norðan og sunnan, og var mikill náttúruunnandi. Fyrir nokkrum árum festi hann ásamt öðru góðu fólki kaup á landi í Borgarfirði. Jón Ólafur naut þess að fara í fluguveiði. Hann var félagi í Ármönnum – félagi um stangveiði og sat um tíma í stjórn þess.
Jón Ólafur var mikill áhugamaður um tónlist en blúsinn var í uppáhaldi og var hann tíður gestur á Blúshátíð í Reykjavík.
Útför hans fer fram frá Fossvogskirkju 23. febrúar 2021 klukkan 13. Vegna sóttvarna verður gestum boðið, en athöfninni verður streymt á, stytt slóð:
og má nálgast virkan hlekk á: https://www.mbl.is/andlat
Góður drengur er fallinn frá. Jónsi frændi, eins og hann var jafnan kallaður í fjölskyldunni, var einstakur mannkostamaður. Hann var öðlingur, hlýr og hjálpsamur, náttúruunnandi og dýravinur. Hann var rólyndur, en hrókur alls fagnaðar á góðra vina fundi.
Við frændurnir vorum alltaf perluvinir og áttum saman margar góðar stundir.
Nú hefur sláttumaðurinn slyngi höggvið stórt skarð í fjölskylduna. Jón Ólafur lést á líknardeild LHS eftir erfiða og hetjulega baráttu við illvígt krabbamein.
Stóra sorgin í lífi hans var sonarmissirinn. Jón Börkur einkasonur hans lést í kjölfar flugslyss í Skerjafirði sumarið 2000. Þá sýndi Jón Ólafur vel hvílíkan mann hann hafði að geyma. Yfirveguð barátta hans fyrir sannleikanum og réttlætinu var aðdáunarverð.
Orð mega sín lítils. Elsku Hófý og dætur: Megi góður Guð styrkja ykkur í sorginni.
Óli Hilmar Briem.
Á námsárunum eftir stúdentsprófið leigðum við Jónsi saman í tvo vetur. Fyrri veturinn deildum við íbúð með vinum okkar, Gísla Víkingssyni og Ingólfi Guðnasyni, meðal annarra. Þeir Jónsi og Gilli voru þá á öðru ári í líffræði við Háskóla Íslands. Það var oft gaman að hlusta á þá spjalla um námið. „Lífið er efnahvarf,“ er setning sem situr eftir í minninu frá þessum vetri. Þeir áttu báðir eftir að verða merkilegir vísindamenn, hvor á sínu sviði líffræðinnar. Það er því ánægjulegt að rifja upp samræður þeirra sem ungra manna sem voru rétt að byrja að feta leið sína í lífinu.
Eftir árshlé þar sem ég dvaldi erlendis leigðum við Jónsi aftur saman, nú með Þór bróður, Jóhönnu Þórhalls vinkonu, Völundi Óskars og Guðbjörgu, eiginkonu minni. Þá var Jónsi útskrifaður, farinn að vinna við rannsóknir og kenna við háskólann. Hann var þegar orðinn metnaðarfullur vísindamaður, ekki nema tuttugu og þriggja ára. Við hin vorum að fást við ólíka hluti, en nutum þess að hlusta á Jónsa segja frá rannsóknunum sem hann tók þátt í, meðal annars á margvíslegum undrum sléttra vöðva. Einhvern tímann þennan vetur tók hann heim með sér af tilraunastofunni tvær hvítar mýs sem urðu þar með hluti af heimilisfólkinu. Hann hafði gaman af þessum dýrum og það var eftirminnilegt hvað hann umgekkst þau af mikilli virðingu og væntumþykju.
Oft tók maður eftir því að konur voru spenntar fyrir Jónsa, enda var hann bæði stórmyndarlegur og séntilmaður. Þegar líða tók á þennan seinni vetur fór ung og fögur mær með flauelsbrún augu að venja komur sínar á heimili okkar. Það var Hófí. Þótt hún væri vinkona okkar allra átti hún sérstakt erindi við Jónsa. Tókst með þeim ást sem varði ævina á enda.
Árin liðu og stundum var langt milli endurfunda. En sambandið hélst og það var alltaf gott að hitta Jónsa, finna vináttuna og hlýjuna sem streymdu frá honum. Ég votta Hófí, dætrunum Unu Björk og Ásu Karen, móður Jónsa, bræðrum og fjölskyldum þeirra mína dýpstu samúð. Eftir lifir minningin um traustan og góðan mann.
Torfi H. Tulinius.
Jónsi var góður veiðifélagi. Hann kunni að njóta þess að vera úti í náttúrunni og hafði unun af veiðiskap og skipti þá ekki öllu þótt fiskurinn væri tregur til að taka. Hann kunni einnig manna best að kætast í góðra vina hópi og það var oft glatt á hjalla í veiðihúsinu að afloknum veiðidegi.
Jónsi var skarpgreindur og skemmtilegur. Hann hafði sterkar skoðanir og var ekkert að fela þær, stundum á hlutum sem enginn annar hafði skoðanir á. Hann vildi ræða málin og brjóta til mergjar. Hans sjónarhorn var oft allt annað en annarra, enda hafði Jónsi bakgrunn í vísindum og þankagangur hans bar þess glöggt vitni. Honum var alveg sama þótt ekki væru allir eða jafnvel enginn honum sammála.
Í vor mun einn veiðimann vanta í Vatnsdalshópinn.
Hans verður sárt saknað.
Fjölskyldu Jónsa og ástvinum sendum við okkar innilegustu samúðarkveðjur.
Fyrir hönd veiðifélaga úr Vatnsdalsá,
Ingólfur Eldjárn og Sveinn Agnarsson.
Þór Eysteinsson.
Þarna tókum við Jónsi okkar fyrstu skref sem kennarar, ýmist í fyrirlestrum eða endalausum verklegum æfingum um tilbrigði raflífeðlisfræðinnar. Þessar æfingar gátu staðið í 10 tíma, enda minnast fornir nemendur þeirra enn. Það þurfti oft að leysa úr tæknilegum bráðavanda, eða hjálpast að við að finna skýringu á undarlegri útkomu, áratugum fyrir tíma gúglsins. Við svona aðstæður myndast traust og væntumþykja sem endast ævina út.
Hjá okkur Jónsa bættust við ferðir í góðum hópi austur á Hérað og vestur til Kanada, að leita skýringa á misjöfnu heilsufari Íslendinga og frændfólks þeirra vestan hafs. Ekkert vinnueftirlit hefði náð utan um þessar tarnir – og hvað þá aðbúnaðinn! Við sváfum í flatsæng svo vikum skiptir – stelpurnar venjulega inni í kústaskáp. En okkur fannst þetta fínt – og enn styrktust böndin.
Við hlæjum enn að því, að það var ekki hægt að láta Jónsa taka hjartalínurit eða mæla blóðþrýsting hjá ungum stúlkum, hann var svo goðumlíkur og fagur að þær mældust allar með háþrýsting og aukaslög. Um leið og ég tók við mælingunum urðu allar heilbrigðar.
Svo kom hlé á samvinnunni meðan við vorum erlendis við nám, en einn góðan veðurdag hófst nýr kafli, þegar við vorum bæði komin með stöðu við Hjúkrunarfræðideild, og enn gátum við gengið hvort í annars störf. Jónsi er einhver alhjálpsamasti vinur sem ég hef átt. Það var sama hvað ég leitaði til hans með, hann leysti málið umsvifalaust. Og miklu meira: hann tók af mér öll leiðinlegustu verkin – eins og að reikna út einkunnir sem samanstanda af mörgum þáttum sem vega mismikið. „Láttu mig um þetta Guðrún mín – ég er enga stund að því.“ Þegar ég fór í rannsóknarleyfi bætti hann minni kennslu á sig, og hafði þó miklu meira en nóg að gera. Hafði alltaf tíma til að útskýra flókna hluti á sinn íhugula og stillilega hátt. Bóngóður og ósérhlífinn vinur í raun.
Gegnum þessa áratugi dýpkaði vinátta okkar svo að hann varð mér sem bróðir. Væntumþykja okkar umvefur stelpurnar hans, Hófí, Ásu Karen og Unu, móður og aðra ástvini sem aftur þurfa að takast á við svo mikinn missi. Blessun fylgi minningunum um feðgana fallegu, Jón Börk og Jón Ólaf, sem fóru svo alltof snemma.
Guðrún Pétursdóttir.
Jónsi fór í framhaldsnám til Gautaborgar. Þar vann hann á rannsóknarstofu í lífeðlisfræði, þar sem áhersla var lögð á rannsóknir á stjórn hjarta og æðakerfis. Jónsi og hans fjölskylda nutu dvalarinnar í Svíþjóð. Hann mat mikils hið faglega umhverfi og eftir að hann kom til Íslands hélt hann góðum tengslum við fyrrverandi samstarfsmenn á rannsóknarstofunni.
Þegar heim var komið að doktorsnámi loknu setti Jónsi upp eigin rannsóknarstofu á Lífeðlisfræðistofnun HÍ. Þar hélt hann áfram rannsóknum á sama sviði og hann hafði unnið við í Svíþjóð. Hann var mjög fingrafimur við aðgerðir á tilraunadýrum, eins og að þræða slöngur í grannar æðar og erta taugar og skrá frá þeim. Einnig var hann alltaf reiðubúinn til að leiðbeina nemendum og samstarfsmönnum við þessar aðgerðir. Við eigum góðar minningar frá þeim tíma þegar við unnum saman að verkefni um stjórn fæðutöku og líkamsþyngdar. Þar nutum við færni Jónsa við lyfjagjöf í heilahol.
Jónsi kenndi aðallega nemum í hjúkrunarfræði og læknisfræði, og lagði sig einnig allan fram við að leiðbeina nemum í framhaldsnámi. Hann hafði áhuga á tölvum og var alltaf reiðubúinn að miðla þekkingu sinni á því sviði til samstarfsmanna. Hann átti frumkvæði að tölvuvæðingu verklegrar kennslu í lífeðlisfræði. Ennfremur hafði hann áhuga á tölfræði og var reiðubúinn að aðstoða okkur við hana. Hann sinnti stjórnun við Háskóla Íslands af mikilli alúð. Hann var forstöðumaður Lífeðlisfræðistofnunarinnar um árabil, tók virkan þátt í stjórnunarstörfum í hjúkrunarfræðideild og sat um tíma sem fulltrúi Félags háskólakennara í háskólaráði. Jónsi hafði ákveðnar skoðanir og var tilbúinn að verja þær, hvort heldur þær voru faglegs eðlis eða um málefni líðandi stundar.
Við minnumst góðra samverustunda með Jónsa og fjölskyldu. Ekki síst í tengslum við að Jón Börkur og Hrund dóttir okkar voru saman í sveit hjá Önnu Birnu og Sigga í Varmahlíð undir Eyjafjöllum í tvö sumur. Eftirminnilegar eru veiðiferðir í Holtsós á sumarkvöldum þar sem hefðbundnum eyfellskum veiðiaðferðum var beitt. Það var mikið áfall fyrir fjölskyldu Jónsa þegar Jón Börkur féll frá í kjölfar flugslysins í Skerjafirði árið 2000. Við komum til með að sakna þess að hitta ekki lengur Jónsa með hundinn sinn á göngu með Ægisíðunni og spjalla við hann. Oftar en ekki barst talið að Hófi og dætrum þeirra sem hann var mjög stoltur af.
Við, dætur okkar og þeirra fjölskyldur vottum Hófí, Unu Björk, Ásu Karen og öðrum aðstandendum okkar dýpstu samúð .
Guðrún og Logi.
Jónsi mátti eins og aðrir þola ýmsar raunir í lífinu, en sú langstærsta var auðvitað flugslysið hræðilega í Skerjafirði þegar sonurinn Jón Börkur var hrifinn brott í blóma lífsins. Slíkt áfall fyrir fjölskyldu er ómögulegt fyrir utanaðkomandi að gera að fullu sér í hugarlund, en slysið ásamt löngum eftirmálum þess höfðu ævilöng, djúpstæð áhrif á Jón. Þrátt fyrir þungar raunir á köflum væru það hrein öfugmæli að lýsa Jónsa sem blúsuðum karakter, en hann var hins vegar blúsmaður af guðs náð. Við gengum saman gegnum ýmsar tónlistarstefnur, poppið og síðan þungarokkið á unglingsárunum, progrokk, jass o.fl. á menntaskólaárunum, en síðan varð blúsáhuginn hæstráðandi hjá Jónsa. Eins og flest annað á þeim bænum var blúsinn tekinn föstum tökum og var Jón ekki spar á að leyfa félögunum að njóta með sér, í tóndæmum og frásögnum, ýmiss konar jaðarþekkingu sem hann hafið grafið upp á því sviði. Og tóndæmin voru ekki leikin af neinni hógværð, hvort sem var í veiðitúrum eða heima hjá honum, því Jón var græjukarl fram í fingurgóma. Síðustu tóndæmin, ásamt tilheyrandi fróðleiksmolum um nýjasta nýtt í tæknimálum sem við Gunni fengum að njóta frá Jónsa, komu úr splunkunýju tæki í stofunni heima hjá honum fyrir örfáum vikum.
Jón valdi lífeðlisfræði sem sérgrein innan líffræðinnar, og þar var ekki síður farið í dýptina af mikilli ákefð, sem skilaði sér fljótt og vel í doktorsprófi, prófessorsstöðu og síðan farsælum starfsferli. Jónsi var mikill veiðimaður og náttúruunnandi. Kannski hafa sumardvalirnar í nálægð við sandana miklu á Suðurlandi ýtt undir mikinn áhuga hans á landgræðslu, og Jónsi tók þar harða afstöðu með vinkonu sinni lúpínunni. En hann skilur líka eftir sig alvöru vinkonur sem hann elskaði út af lífinu, Hófí, dæturnar Unu Björk og Ásu Karen og móður sína Höllu. Skarðið stóra sem höggvið er í vinahópinn okkar strákanna bliknar í samanburði við þann mikla harm sem kveðinn er að þessum konum í lífi Jóns Ólafs Skarphéðinssonar og bræðrum hans fjórum.
Gísli Arnór Víkingsson.
Þú varst svo margt; stór, flókinn, traustur, ósérhlífinn. Sjálfselskur en samt ást- og skilningsríkur við óvæntustu skilyrði. Stemningsmaður. Sterkur en samt veikur á svellinu. Óhræddur og upplitsdjarfur. Særandi en stundum svo yndislegur vinur að ég hefði tekið utan um hálsinn á þér ef ég næði upp. Tók utan um brjóstkassann í staðinn. Nema þegar þú mundir að beygja þig á móti. Sem þú áttir raunar oft erfitt með út af bakinu. Það var gjaldið fyrir að vera stór, og bera þungt höfuð.
Með fáum nákomnum hef ég varið meiri tíma en þér í mínum frístundum. Með fjölskyldum, MH-vinunum, þínum vinahópi, eða mínum eftir atvikum. Oftar en ekki í veiði. Margoft hefur þú verið eins og fjórði bróðir okkar bræðra þriggja. Sjálfur sagðist þú vera stærsti bróðirinn, sem var óumdeilt. Eða þá myndarlegasti bróðirinn, sem var umdeilt.
Þið Hófí fóruð til útlanda og þú lærðir þína lífeðlisfræði. Þar til þú vissir næstum allt um næstum ekki neitt, svo ég vitni í þig sjálfan. Aldrei heimsóttum við Ásdís ykkur Hófí þar. En þegar þú komst heim eftir sjö ár tókum við upp þráðinn á sama stað og við skildum hann eftir. Það var eins og hefði einungis liðið vika.
Þú varðst doktor frá HÍ 32 ára og prófessor nokkrum árum síðar. Fyrstur í vinahópnum af þremur doktorum og tveimur prófessorum. Fáir hafa orðið doktorar yngri en þú, trúi ég.
Þú hafðir nánast alla hjúkrunarfræði- og marga líf-, matvæla-, læknis- og tannlæknisfræðinema þessa lands í læri í áratugi. Þ.á m. allar þrjár dætur mínar. Þær hugsa til þín með miklum hlýhug og fannst þú frábær kennari sem hvatti nemendur sína til að hugsa sjálfstætt, rökrétt og gagnrýnið. Engan Trumpisma, takk.
En þetta var bara vinnan þín.
Stelpurnar þekktu þig líka persónulega og muna hve klár, hnyttinn, hvetjandi og fræðandi þú gast verið. Semsé góður kennari í húð og hár. Vita skaltu að þeim þykir vænt um þig.
Þú áttir líka til að bresta í miklar fræðilegar pælingalangferðir við lágstemmdan blúsundirleik þegar við vorum úti að aka á vegum landsins. Á leið á veiðislóð eða á gangi milli veiðistaða. Það var alltaf stutt í kennarann í þér.
Ásdís man að þú tókst að þér að hjálpa henni og Hófí að búa sig undir stærðfræðipróf í MH. Ásdís náði. Hófí náði líka – í þig. Alla vega stóð hún við hlið þér og studdi við bakið á þér, í blíðu og stríðu í gegnum lífið uns yfir lauk. Kennarinn aftur. Örlagavaldur.
Þín verður sárt saknað kæri vinur. Það verður ekkert eins. Við Ásdís og restin af Hoffsfjölskyldunni hugsum hlýtt til ykkar; Hófí, Una, Ása, Halla og Baddi. Sendum ykkur af alefli okkar bestu strauma.
Gunnar Oddur Rósarsson.
Jón Ólafur og kona hans Hólmfríður urðu fyrir því skelfilega áfalli að missa son sinn Jón Börk árið 2001 í kjölfar flugslyss í Skerjafirði. Við í hjúkrunarfræðideildinni fylgdumst náið með framvindu Jóns Barkar það tæpa ár sem hann lifði eftir slysið en Jón Ólafur ræddi við okkur reglulega um líðan sonar síns, aðbúnað hans, hjúkrun sem hann fékk og eigin líðan. Hann fékk þarna meiri reynslu af þjónustu heilbrigðiskerfisins og hjúkrunarfræðinga en flestir á hans aldri höfðu og nýtti þá reynslu í kennslu og við almenn stjórnunarstörf í deildinni til að byggja upp færa einstaklinga til starfa við hjúkrun sjúklinga.
Jón Ólafur hafði mikinn áhuga á að leiðbeina hjúkrunarfræðingum í rannsóknum þeirra og tengja viðfangsefni hjúkrunar lífeðlisfræðinni í gegnum rannsóknaverkefnin. Þar átti hann mikið verkefni óunnið en aðrir munu halda starfi hans áfram.
Jón Ólafur kenndi flestöllum nemendum á Heilbrigðisvísindasviði HÍ lífeðlisfræði. Hann var virtur og vel metinn kennari og það er mikill missir að slíkum samstarfsmanni. Við samstarfsfólk hans í hjúkrunarfræðideild sjáum á bak góðum félaga sem hafði mikinn metnað fyrir hönd hjúkrunar. Mestur er þó missir Hólmfríðar, Unu Bjarkar og Ásu Karenar og færi ég þeim innilegar samúðarkveðjur fyrir hönd hjúkrunarfræðideildar og heilbrigðisvísindasviðs.
Blessuð sé minning góðs manns.
Herdís Sveinsdóttir, deildarforseti Hjúkrunarfræðideildar HÍ.
Ég vissi fyrst af Jónsa í Hlíðaskóla á barnaskólaárunum og hann því verið innan minnar ratsjár í yfir hálfa öld. Leiðir okkar lágu samsíða á unglingsárunum og vinahóparnir tengdir. Þegar hann og mín nánasta vinkona Hófí rugluðu saman reytum urðu samskiptin enn nánari. Ég á margar hamingjuminningar frá þessari vegferð. Auk fjölskyldustunda áttum við Jónsi saman áhuga á stangveiði og fórum ótal ferðir í slíkum erindagjörðum. Til að byrja með með Skarphéðni föður Jónsa í Sogið en síðan víða um land í ár og fjallavötn. Ef það er eitthvað eitt sem ég tengi Jónsa sérlega við, þá er það sumarnóttin. Við vöktum gjarnan fram á morgun á þessum ferðum okkar, ekki vegna veiðidellu heldur vegna þess hvað íslenska sumarnóttin er dásamleg. Þá var ekki skrafað mikið, heldur bara notið kyrrðar, birtu og fugla.
Ég er þakklátur fyrir þær stundir sem Jónsi gaf mér og allan þann fróðleik sem hann miðlaði. Hann var jú doktor og prófessor í lífeðlisfræði og hafði af rannsóknum í þeim fræðum margar magnaðar sögur að segja. Þegar kom að því að meta lífsins spurningar hafði hann báða fætur á jörðinni, algerlega raunsær og gaf ekki mikið fyrir skýringar sem byggjast á annarra heima máttarvöldum. Nú þegar endi hefur verið bundinn á þessar samverustundir verður dýrmæti stundarinnar skýrt.
Við Jónsi eigum að hluta rætur í sjöunda áratugnum og þeir sem eru þaðan komnir eru gjarnan annaðhvort Bítla- eða Stones-menn. Jónsi var Stones-maður. Blús litaði þeirra verk og blús var Jónsa tónlist.
Það er því viðeigandi við ferðalok að fá að láni hluta kveðjuorða sameiginlegs félaga og blús geggjara, KK, úr ljóðinu „Englar himins grétu í dag“, sem ort er í minningu Jóns Barkar, sonar Jóns og Hólmfríðar:
Allt var kyrrt og allt varð hljótt
Miður dagur varð sem nótt
Sorgin bjó sig heiman að
Englar himins grétu í dag
Bergur Þórisson.