Halldór Benjamín Þorbergsson
Halldór Benjamín Þorbergsson
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Eftir Halldór Benjamín Þorbergsson og Unni Sverrisdóttur: "Um 22 þúsund einstaklingar eru atvinnulausir og um fjögur þúsund manns á hlutabótum. Ráðningarstyrkir geta skipt sköpum við fjölgun starfa."

Við stöndum frammi fyrir mikilli áskorun um að koma atvinnulífinu aftur af stað og skapa störf. Til þess þarf bæði hugrekki og þor. Lykilatriði er að draga hratt úr atvinnuleysi sem er nú í sögulegu hámarki. Tæplega 22 þúsund einstaklingar eru atvinnulausir og um 4 þúsund manns að auki á hlutabótum eða samanlagt 12,8% þjóðarinnar. Svokallaðir ráðningarstyrkir geta skipt sköpum við fjölgun starfa.

Ráðningarstyrkir hafa það markmið að auðvelda atvinnurekendum að fjölga störfum og ýta með því undir hagvöxt. Atvinnurekanda gefst tækifæri til að ráða starfsmann í starf sem hann hefði ellegar ekki haft ráð á og starfsmaðurinn er að sama skapi virkjaður og skapar verðmæti fyrir samfélagið. Ráðningarstyrkur er því skynsamlegt vinnumarkaðsúrræði sem gefur hæfileikaríku fólki atvinnutækifæri. Slíkt örvar svo atvinnulífið til hagvaxtar sem nauðsynlegur er svo unnt sé að standa undir samneyslunni. Samtök atvinnulífsins og Vinnumálastofnun hvetja fyrirtæki til að kynna sér ráðningarstyrk. Allra hagur ætti að standa til þess að úrræðið sé nýtt og að atvinnulífið taki að vaxa og dafna á ný.

Ráðningarstyrkur er fólginn í því að atvinnurekandi getur fengið grunnatvinnuleysisbætur auk 11,5% framlags í lífeyrissjóð í allt að sex mánuði greiddar með nýjum starfskrafti eða samtals rúmlega 342 þúsund krónur í styrk á mánuði. Atvinnurekandi greiðir starfsmanninum umsamin laun með hefðbundnum hætti sem verða að lágmarki að samrýmast taxta kjarasamnings. Hjá atvinnurekanda þarf að starfa að lágmarki einn starfsmaður. Úrræðið hefur verið einfaldað töluvert frá því sem áður var og geta atvinnurekendur nú nýtt ráðningarstyrk þótt þeir séu með starfsmann á hlutabótum.

Það er viðbúið að einhverjir munu stíga fram og gagnrýna fyrirtæki sem nýta sér úrræðið í umræðunni. Mikilvægt er í því samhengi að missa ekki sjónar á stóru myndinni. Sameiginlegt markmið okkar allra er að draga úr atvinnuleysi, skapa störf og koma hagkerfinu af stað á ný. Margt smátt gerir eitt stórt. Með samhentu átaki er hægt að ná kröftugri viðspyrnu öllum til hagsbóta. Reynslan sýnir að 80% þeirra sem ráðnir eru með ráðningarstyrk eru áfram á vinnumarkaði þegar styrktímabili lýkur. Úrræðið sem hefur verið við lýði frá því að Vinnumálastofnun var sett á laggirnar hefur margsannað sig.

Á heimasíðu Vinnumálastofnunar má nálgast frekari upplýsingar um ráðningarstyrk en atvinnuráðgjafar Vinnumálastofnunar hringinn um landið eru til þjónustu reiðubúnir. 24. febrúar nk. fer fram fjarfundur fyrir félagsmenn Samtaka atvinnulífsins um ráðningarstyrk sem haldinn er af sérfræðingum Samtaka atvinnulífsins og Vinnumálastofnunar. Þar verða veittar frekari upplýsingar og spurningum svarað. Skráning fer fram á heimasíðu Samtaka atvinnulífsins.

Halldór Benjamín er framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins. Unnur er forstjóri Vinnumálastofnunar.

Höf.: Halldór Benjamín Þorbergsson, Unni Sverrisdóttur