Ágúst Ingi Jónsson
aij@mbl.is
Loðna hefur veiðst víða fyrir sunnan land og austan á vertíðinni og er unnið á sólarhringsvöktum þar sem mest umsvif eru. Fyrir helgi fréttist af loðnu við Grímsey og um helgina voru fregnir af loðnu í grennd við Flatey á Skjálfanda. Rannsóknaskipið Bjarni Sæmundsson var í gær á leið á þessar slóðir til að kanna hversu mikið af loðnu er þarna á ferðinni.
Birkir Bárðarson, fiskifræðingur á Hafrannsóknastofnun, segir alltaf erfitt að meta hvort marktækt magn sé á ferðinni samkvæmt fréttum sem berist frá veiðiskipum. Fréttirnar frá Grímsey og úr Skjálfanda hafi hins vegar verið þess eðlis að ákveðið hafi verið að kanna það nánar. Því hafi verið ákveðið að gera hlé á leiðangri Bjarna Sæmundssonar, sem var við umhverfismælingar, og halda norður fyrir land. Það ætti því að skýrast á næstu dögum hversu mikið af loðnu er þarna á ferðinni.
Loðnan snemma á ferðinni
Eins og áður sagði hefur loðna veiðst víða undanfarið, norsk skip hafa verið fyrir austan land og aðrir hafa veitt með ágætum árangri í Skeiðarárdýpi, austan og vestan við Vestmannaeyjar og í Grindavíkurdýpi út af Reykjanesi. Birkir segir það ekki koma alveg á óvart miðað við mælingar vetrarins að loðnu sé víða að finna. Hann segir það hins vegar sérstakt núna hvað loðnan er snemma á ferðinni.
Eftir ágætan gang við veiðar síðustu daga eru menn farnir að huga að hrognavinnslu, sem gæti byrjað um eða eftir helgi. Áhersla er lögð á að hámarka verðmæti takmarkaðrar vertíðar, en kvóti íslenskra skipa er samtals tæplega 70 þúsund tonn og heildarkvótinn 127.300 tonn. Einhverjar útgerðir hafa hægt á veiðum meðan beðið er eftir hrognavinnslu, en það er misjafnt eftir kvótastöðu og vinnslumöguleikum.
Kemur til frádráttar
Á vef Norges sildesalgslag kemur fram að Landhelgisgæslan hafi tilkynnt tafarlausa stöðvun loðnuveiða norskra skipa klukkan 19.38 síðasta föstudagskvöld. Þar kemur fram að þá hafi skipin verið búin að veiða 42.373 tonn eða 565 tonn umfram heimildir upp á 41.808 tonn.
Samkvæmt upplýsingum Landhelgisgæslunnar hafði eitt norskt skip verið að veiðum þegar stöðvunin var tilkynnt. Tilkynntur afli úr sjó hafi þá verið alls 42.038 tonn og það sem sé umfram veiðiheimildir dragist af heildarkvóta næsta árs.