Kristinn Ágúst Guðjónsson klæðskerameistari fæddist á Hólmavík í Strandasýslu 13. september 1926. Hann andaðist 14. febrúar 2021.
Foreldrar hans voru Guðjón Jónsson, trésmiður á Hólmavík og víðar, f. 14.5. 1886, d. 16.12. 1939, og Kolfinna Snæbjörg Jónsdóttir, húsfreyja og saumakona á Hólmavík og í Reykjavík, f. 16.12. 1891, d. 17.1. 1985.
Eiginkona Kristins var Svava Brynjólfsdóttir, fædd á Broddadalsá 29.5. 1925. Hún lést 15. febrúar 2018. Foreldrar hennar voru Brynjólfur Jónsson, bóndi á Broddadalsá, f. 22.12. 1899, d. 23.11. 1992 og Guðbjörg Jónsdóttir, f. 22.12. 1901, d. 27.2. 1999.
Systkini Kristins voru Haraldur Hafsteinn, f. 11.3. 1913, Júlíana Ingibjörg, f. 15.1. 1915, Ólöf Ragnheiður, f. 16.12. 1918, Sigurbjörn, f. 22.8. 1922, Magnús Ellert, tvíburabróðir, f. 13.9. 1926 og Elín, f. 18.6. 1931. Systkinin eru nú öll látin.
Börn Svövu og Kristins eru: 1) Ómar viðskiptafræðingur, f. 2.10. 1947, kvæntur Kristínu Geirsdóttur, myndlistarmanni og kennara, f. 25.8. 1948. Börn þeirra eru Erna og Geir. 2) Hörður skrifstofumaður, f. 27.3. 1952, kvæntur Rut Maríu Jóhannesdóttur skrifstofumanni, f. 7.1. 1956. Börn þeirra eru Kristinn, Anna og Arnar. 3) Bryndís skrifstofumaður, f. 8.10. 1955, d. 13.3. 2004, sambýlismaður Reynir Holm sendibílstjóri, f. 28.3. 1948. Börn þeirra eru Bjarki, Svava Dís og Ásdís. 4) Pálmi verkfræðingur, f. 12.5. 1957, kvæntur Salome Tynes flugfreyju, f. 31.5. 1961. Börn þeirra eru Bjarni Þór, Ágúst Ottó og Birna Lind. Fyrir átti Pálmi Hjalta Þór og Elísabetu. 5) Svandís bankastarfsmaður, f. 17.8. 1966, gift Sveini H. Bragasyni skrifstofumanni, f. 14.3. 1966. Dætur þeirra eru Sólveig Huld og Silja Karen.
Kristinn ólst upp á Hólmavík uns faðir hans lést en þá fluttist móðir hans með yngri börnin til Reykjavíkur. Kristinn lærði klæðskeraiðn og vann m.a. hjá Fataversluninni Andrési, síðan hjá Gefjun, Iðunni og SÍS í Austurstræti. Lengst starfaði hann hjá Fataverksmiðjunni Gefjun sem yfirverkstjóri. Um tíma starfaði hann hjá fataverksmiðjunni Últíma og endaði svo starfsferilinn kominn á áttræðisaldur sem kennari í fatahönnun við Iðnskólann í Reykjavík.
Þau Svava giftust 1947 og bjuggu lengst af í Langagerði 28 í Reykjavík uns þau fluttu á hjúkrunarheimili Hrafnistu í Boðaþingi í Kópavogi þar sem þau létust bæði.
Útför Kristins fer fram frá Bústaðakirkju í Reykjavík í dag, 23. febrúar 2021, og hefst athöfnin klukkan 13.
Með þakklæti og söknuði kveðjum við elskulegan pabba og tengdapabba.
Ótal ljúfar minningar koma upp í hugann.
Allir pakkarnir og bréfin sem þú sendir mér í sveitina á Broddadalsá ylja mér um hjartarætur. Áhugi þinn og hvatning þegar ég bað um leyfi til að fara í siglinguna miklu með Hamrafellinu og traustið sem þú sýndir mér 14 ára gömlum.
Allar ferðir sem við fjölskyldan áttum með þér og mömmu um landið voru ógleymanlegar. Skemmtilegustu stundir sem við áttum með ykkur voru þó í Selinu bústaðnum ykkar á Þingvöllum. Þar vildir þú helst hafa sem flesta hjá ykkur, þó ekki væri plássið mikið var alltaf pláss fyrir alla. Síðasta ferðin sem við fórum með þér og mömmu að heimsækja æskuslóðir þínar norður til Hólmavíkur er ógleymanleg. Glampinn og glettnin sem kom upp í augun þegar rifjaðar voru upp gamlar minningar og sögur.
Nú ert þú elsku pabbi lagður upp í síðasta ferðalagið til sumarlandsins þar sem við vitum að mamma tekur vel á móti þér. Þar leiðist þið og styðjið hvort annað, eins og þið hafið gert á langri ævi ykkar. Þökkum öll árin sem við höfum átt saman hér í Boðaþingi sem nágrannar, hversu erfitt var að geta ekki átt með þér fleiri stundir á síðastliðnu ári, en vitandi að þér leið vel og vel var hugsað um þig gerði það bærilegra.
Elsku pabbi eigu þökk fyrir allt sem þú hefur gefið okkur, börnum okkar og barnabörnum.
Þín verður sárt saknað.
Húmar að kveldi, hljóðnar dagsins ys,
hnígur að Ægi gullið röðulblys.
Vanga minn strýkur blærinn blíðri
hönd,
og báran kveður vögguljóð við
fjarðarströnd.
Ég er þreyttur, ég er þreyttur,
og ég þrái svefnsins fró.
Kom, draumanótt, með fangið fullt
af friði og ró.
(Jón frá Ljárskógum)
Hörður og Rut
Pabbi var hlýr og góður maður sem öllum, sem hann þekktu, þótti vænt um. Hann var jafnan hress og glaðvær og ávallt reiðubúinn að hjálpa þeim sem á þurftu að halda. Hann var líka ráðagóður og óspar á að leiðbeina og segja öðrum til, ekki síst yngra fólki.
Pabbi var glæsilegur á velli og lagði mikið upp úr því að vera snyrtilegur til fara, enda vann hann við það sem klæðskeri alla starfsævina að hanna, sauma og selja karlmannsjakkaföt. Við bræðurnir fengum líka ungir að njóta, ég minnist þess að hafa verið í sparifötum í skólanum og úti að leika fram yfir fermingu þegar ég keypti mínar fyrstu gallabuxur.
Pabbi kom úr stórri fjölskyldu og var duglegur að rækta tengslin við systkini sín og frændfólk, bæði hér heima og í Noregi. Það sama átti við um fjölskyldu hans og afkomendur, hann var alltaf til staðar og allir elskuðu hann. Pabbi og Magnús bróðir hans voru eineggja tvíburar og næstum alveg eins. Þeir áttu meira að segja eins bíla á tímabili. Í barnæsku fannst mér að ég ætti tvo alveg eins pabba og montaði mig stundum af því við vini mína.
Pabbi og mamma áttu margar sælustundir í sumarbústaðnum við Þingvallavatn þar sem hann stundaði gróðursetningu af kappi. Fyrstu 30 árin í bústað sem þau byggðu árið 1968 og síðan í bústað okkar hjóna sem við byggðum árið 2003. Þar áttu þau sitt eigið hjónaherbergi og voru hluti af fjölskyldu okkar. Þingvallavatn og umhverfi þess átti sterkar rætur í pabba, hann var vanur að segja við förunauta sína „Sjáið dýrð Drottins“ þegar hann ók fram hjá Heiðarbæ og horfði inn í skógivaxna Svínahlíðina.
Pabbi starfaði í Bræðrafélagi Bústaðakirkju og tók ríkan þátt í fjáröflun og byggingu kirkjunnar á sínum tíma. Eins og mamma var hann mikill sóldýrkandi og strax kominn í stuttbuxurnar þegar sólin fór að skína á sumardögum í Langagerðinu, austur í Þingvallasveit eða í sundlaugunum í Laugardal sem hann sótti nær daglega í yfir 50 ár. Eftir miðjan aldur voru þau síðan dugleg að fara í frí til Spánar og Kanaríeyja þar sem þau dvöldu oft vikum saman með góðum vinum. Ógleymanlegar eru allar þær samverustundir sem við fjölskyldan áttum með pabba og mömmu í fríum okkar hér heima og erlendis.
Í dag eru afkomendur pabba og mömmu 37. Þau eru öll á lífi nema Bryndís systir mín sem andaðist 48 ára gömul árið 2004 og Bjarni Þór sonur minn sem lést árið 2018, aðeins 26 ára gamall.
Síðustu 4-6 árin bjó pabbi á Hjúkrunarheimilinu Hrafnistu í Boðaþingi í Kópavogi þar sem hann naut bestu umönnunar. Þar var hann ánægður og sáttur við Guð og menn og kvartaði aldrei. Ég vil þakka öllu starfsfólki í Boðaþingi fyrir mikla hlýju í hans garð síðustu árin.
Elsku pabbi, takk fyrir lífið. Hvíl þú í friði.
Þinn sonur,
Pálmi Kristinsson.
Kristinn var glæsilegur maður, ljúfur, hjartahlýr og réttsýnn. Hann tók öllu með jafnaðargeði og brosið hans blíða mun lifa í minningunni. Þó fór hann ekki áfallalaust í gegnum lífið frekar en flest okkar. Hann fékk sinn skerf af sorg, missti dóttur sína árið 2004 úr illvígum sjúkdómi og eiginkonu sína og barnabarn með stuttu millibili árið 2018. Auk þess horfði hann á eftir öllum systkinum sínum yfir móðuna miklu. En þannig er lífið, kynslóðir koma og kynslóðir fara.
Við sem eftir lifum verðum að varðveita minningarnar. Gleðistundirnar voru líka margar og eftirminnilegar. Ég geymi í hjarta mér góðar minningar af þeim hjónum Kristni og Svövu. Sólríkir dagar við Þingvallavatn, ættarmót á Ströndum, utanlandsferðir, jólaveislur í Langagerði, kökuveislur á 17. júní, meira að segja harðfiskmulningur Kristins við eldhúsborðið í Langó er mér minnisstæður. Hann hafði mikið dálæti á harðfiski og alltaf var passað upp á að það væri til harðfiskur í ísskápnum hans í Boðaþingi.
Samband okkar Kristins einkenndist alla tíð af mikilli væntumþykju og virðingu. Í hartnær 30 ár hefur hann verið mér yndislegur tengdafaðir. Megi minning þessa ljúfa manns lifa um ókomna tíð.
Salome Tynes.
Ung að árum kynntist ég elsta syni hans. Kristinn tók mér vel allt frá okkar fyrstu kynnum. Hann var mikill fjölskyldumaður og leið best í hópi afkomenda sinna og tengdabarna og vildi helst fá að vera með okkur um hverja helgi. Hann var með stóran og hlýjan faðm og tóku þau Svava alltaf vel á móti okkur heima og í sumarbústaðnum.
Kristinn var lærður klæðskeri og vann við þá iðn alla tíð, mikill fagmaður. Hann var glæsilegur og snyrtimenni mikið, var annt um útlit sitt og barnanna og umhverfi sitt. Þoldi illa druslugang, að klæðast gallabuxum á betri dögum eða aka um á óhreinum bíl fannst honum alls ekki við hæfi.
Það má segja að ég hafi kynnst Ómari óbeint í gegnum Kristin. Hann hafði saumað blazer-jakkaföt á soninn og vini hans. Það var nýjung í tískuheiminum á þeim tíma og má með sanni segja að einn blazer-gæinn hafi fangað hug minn allan.
Ferðin í Veiðivötn með tilvonandi tengdapabba að heimsækja kærastann er ógleymanleg minning. Ómar vann þar við byggingu á ferðafélagsskála sumarlangt. Frést hafði af geimförum þar á ferð, Armstrong og félögum að æfa sig fyrir fyrstu tunglferðina. Á leiðinni ræddum við Kristinn um heima og geima og komst ég að því hvað hann var fróður um margt, bókelskur, las ekki hvað síst ævisögur og alls konar fróðleik um andleg efni. Í þessari ferð kynntist ég honum vel.
Hann var alla tíð mjög heilsuhraustur og varð varla misdægurt þangað til hann fótbrotnaði illa í lok síðasta árs. Hann vildi fara sem fyrst heim í Boðaþing af spítalanum. Þar leið honum vel og á starfsfólk spóadeildar Hrafnistu þakkir skyldar fyrir góða umönnun.
Kristinn flíkaði ekki tilfinningum sínum þegar áföll dundu yfir. Bar sorg sína í hljóði. Hann missti bæði dóttur og sonarson í blóma lífsins. Hann missti Svövu sína fyrir þremur árum. Þau voru búin að vera gift í yfir 70 ár, voru samhent alla tíð og alltaf gott að koma til þeirra. Hann var húsbóndinn og hún bústýran.
Honum leið vel við að sýsla í garðinum, bæði heima í Langagerði þar sem hann ræktaði meðal annars jarðarber og rabarbara sem börnin mín voru sólgin í og í unaðsreitnum sínum í Svínahlíðinni við Þingvallavatn. Þar byggðu þau Svava sér sumarbústað sem þau áttu í yfir 30 ár. Þar naut hann sín í náttúrunni og kyrrðinni við trjárækt. Hann elskaði sólina og sagði að það væri alltaf gott veður í Svínahlíðinni. Börnin mín elskuðu að koma þangað til ömmu og afa, áttu þar bú og sín tré.
Það er komið að leiðarlokum og hugurinn fyllist lotningu og fallegum minningum við fráfall tengdaföður míns þar sem gagnkvæm virðing og ást ríkti alla tíð. Með honum er genginn síðasti ættleggur kynslóðar hans og okkar kynslóð tekin við. Blessuð sé minning hans.
Kristín Geirsdóttir.
Kristinn var mjög barngóður. Barnabörnin hændust mjög að honum og hann var alltaf tilbúinn að fara með þeim út að leika. Kristinn og eiginkona hans Svava byggðu sér hús í Langagerði á sjötta áratug síðustu aldar. Þar var alltaf gott að koma því Kristinn hafði sérstaklega góða nærveru og öllum leið vel í návist hans.
Segja má að þau hjónin hafi átt tvö heimili. Kristinn byggði sumarbústað á Þingvöllum í kringum 1970 og voru þau hjónin þar allar helgar á sumrin. Þar undi hann sér við garðyrkju frá morgni til kvölds. Þarna var gaman að koma enda bústaðurinn á besta stað við Þingvallavatn.
Kristinn var mikill sóldýrkandi. Þau hjónin fóru í fjölmargar ferðir til sólarlanda og voru þau oft hin síðari ár á Kanaríeyjum. Það var því við hæfi að rétt áður en hann kvaddi þennan heim lét sólin sjá sig í nokkrar mínútur eftir langvarandi rigningu.
Kristinn var alla tíð mjög heilsuhraustur og í góðu formi. Hann sýndi m.a. fimleika á lýðveldishátíðinni á Þingvöllum 1944 og hin síðari ár fóru þau hjónin alla morgna í Laugardalslaugina. Þar leið honum vel því þar hitti hann marga af sínum samferðamönnum.
Nú er komið að kveðjustund. Takk fyrir allt og allt elsku tengdapabbi og allt sem þú gerðir fyrir okkur fjölskylduna, minningarnar um þig munu hlýja mér og fjölskyldu minni um aldur og ævi.
Sveinn.
Þegar við vorum yngri áttum við sumarbústað við Þingvallavatn þar sem afi og amma voru oft með okkur á sumrin. Afa þótti fátt betra en að baða sig í sumarsólinni og var fyrstur allra til þess að henda sér í stuttbuxur og út á pall. Við eigum margar góðar minningar um afa sem við munum varðveita um ókomin ár.
Elsku afi. Góða ferð í sumarlandið, þar sem vel verður tekið á móti þér. Takk fyrir allt sem þú hefur gefið okkur.
Ágúst Ottó og Birna Lind.
Afi var ótrúlega góður í samskiptum og hann hafði alltaf mikinn áhuga á því sem fólkið í kringum hann var að gera, en okkur fannst það hafa verið hans allra besti kostur. Alveg fram á síðasta dag var hann stoltur af því sem við vorum að afreka í lífinu, sama hvort það voru afrek í fótbolta, námi eða fyrstu íbúðarkaupin. Á sínum fyrri árum var afi klæðskeri, hann var góður í því starfi og var alltaf snyrtilega klæddur. Tískan hefur svo sannarlega breyst með árunum og í hvert sinn sem við komum í heimsókn til hans í rifnum gallabuxum skildi hann ekkert í því hvers vegna mamma væri ekki búin að gera við buxurnar og spurði hvort við hefðum nokkuð dottið á leiðinni. Hann skildi ekki tilganginn með því að hafa göt á gallabuxum og áttaði sig ekki á því að þær hefðu verið keyptar þannig. Við minnumst þess þegar afi og amma voru að passa okkur í eitt skiptið og afi vildi hlusta á hádegisfréttirnar í útvarpinu. Við vissum lítið um útvarp, enda ekki af sömu kynslóð og hann og þurftum því að hringja í mömmu og spyrja um útvarpið vegna þess að afa fannst það ómissandi.
Allir sem þekktu afa geta verið sammála því að yndislegri mann var varla hægt að finna og hans verður sárt saknað. Afi var svo ótrúlega blíður og góður maður og hann skilur eftir sig margar frábærar minningar sem ylja manni um hjartarætur.
Elsku afi, takk fyrir allt sem þú gerðir fyrir okkur, við verðum þér ævinlega þakklátar fyrir það.
Þín barnabörn,
Sólveig Huld og Silja Karen.
Að koma í Langó eins og heimili ykkar ömmu var alltaf kallað var gott. Þú varst alltaf svo hlýr og barnelskur, þótt þú hefðir haft skoðanir á mörgu, sérstaklega klæðaburði og hári.
Langó var í minningunni stórt hús, eflaust vegna þess að þar var iðulega fullt af fólki. Við börnin máttum ekki hafa hátt á meðan fréttir voru í gangi en þá fundum við aðra staði eins og skúrinn sem var skemmtilegur, fallega garðinn ykkar eða háaloftið með öllum felustöðunum. Þið amma áttuð mörg börn og enn fleiri barnabörn. Langó var staður þar sem fólk hittist, sérstaklega á sunnudögum.
Við börnin fengum að njóta hlýju frá þér og þú sýndir okkur mikinn áhuga, ekki breyttist það þegar langafabörnin komu, þú og amma voruð alltaf mætt fljótt eftir að börnin fæddust og eftir að þú fluttir í Boðaþing gladdist þú mikið þegar börn komu með í heimsókn.
Minningar um bústaðinn á Þingvöllum eru margar, til dæmis af þér í fótbolta með okkur krökkunum og að kenna okkur að standa á höndum. Þú alveg elskaðir að vera úti í náttúrunni, hugsa um kartöflugarðinn með börn að væflast í kringum þig. Grenitrén sem voru vökvuð með lífrænum vökva með aðstoð drengja í fjölskyldunni uxu vel í fallega landinu þínu.
Þegar árin færðust yfir sýndir þú enn þessa miklu hlýju sem þú bjóst yfir, varst svo góður við ömmu og gladdist yfir heimsóknum sem þið fenguð.
Elsku afi, nú ertu kominn til ömmu, þið eruð væntanlega að leiðast á fallegri strönd í hita og sól eins og þið elskuðuð.
Hvíl í friði
Kristinn Harðarson, Anna Harðardóttir og Arnar Harðarson.