Landsliðið Hjörtur Hermannsson lék fjóra landsleiki í haust og var í byrjunarliðinu í báðum leikjum Íslands og Englands í Þjóðadeildinni.
Landsliðið Hjörtur Hermannsson lék fjóra landsleiki í haust og var í byrjunarliðinu í báðum leikjum Íslands og Englands í Þjóðadeildinni. — Morgunblaðið/Eggert
Danmörk Bjarni Helgason bjarnih@mbl.is Knattspyrnumaðurinn Hjörtur Hermannsson hefur ekki átt fast sæti í liði danska úrvalsdeildarfélagsins Bröndby á leiktíðinni.

Danmörk

Bjarni Helgason

bjarnih@mbl.is

Knattspyrnumaðurinn Hjörtur Hermannsson hefur ekki átt fast sæti í liði danska úrvalsdeildarfélagsins Bröndby á leiktíðinni.

Varnarmaðurinn, sem er 26 ára gamall, gekk til liðs við danska félagið frá PSV í Hollandi sumarið 2016 og er því á sínu fimmta tímabili í Danmörku.

Hjörtur hefur komið við sögu í tólf af sautján leikjum Bröndby á tímabilinu en aðeins byrjað sex þeirra, þá hefur hann verið í byrjunarliðinu í síðustu tveimur leikjum liðsins, en samningur hans við danska félagið rennur út í sumar.

„Þetta tímabil er búið að vera upp og ofan hjá mér persónulega,“ sagði Hjörtur í samtali við Morgunblaðið.

„Liðinu hefur gengið gríðarlega vel og eins og gefur að skilja þá er samkeppnin mjög hörð hjá klúbbi eins og Bröndby. Ég væri að ljúga ef ég myndi ekki segja að ég hefði verið til í að vera búinn að spila mun meira en ég hef gert á tímabilinu, sérstaklega fyrir jól. Hvort það spili eitthvað inn í að ég sé að verða samningslaus skal látið ósagt en ég hef allavega reynt að sinna minni vinnu eins vel og kostur er, bæði í leikjum og á æfingasvæðinu.

Sú vinna hefur skilað sér, allavega eins og staðan er í dag, því ég hef verið í byrjunarliðinu í undanförnum leikjum. Á sama tíma hef ég komið við sögu í flestum leikjum á tímabilinu þótt það hafi kannski ekki alveg verið mínúturnar sem ég hefði viljað því auðvitað vill maður byrja alla leiki,“ sagði Hjörtur sem er uppalinn hjá Fylki í Árbænum.

Líður vel í Danmörku

Hjörtur hefur verið orðaður við brottför frá Bröndby í dönskum fjölmiðlum en það gæti vel farið svo að leikmaðurinn verði áfram í herbúðum félagsins á næstu leiktíð.

„Sem knattspyrnuáhugamaður þá fylgist maður vel með íþróttafréttum og það er oft meira sem býr að baki en það sem er skrifað um í fjölmiðlum. Ég hef rætt stöðu mína hjá félaginu við forráðamenn Bröndby og það á ekki að fara í fjölmiðla sem okkur fer á milli. Núna er ég fyrst og fremst að hugsa um að standa mig eins vel og mögulegt er fyrir félagið og við tökum svo bara stöðuna að tímabili loknu.

Ég er búinn að vera hérna í fimm ár og kannski er kominn tími til þess að reyna fyrir sér annars staðar og prófa eitthvað nýtt. Þá er ég sjálfur í góðri stöðu persónulega, að vera að renna út á samningi, en mér hefur liðið virkilega vel í Danmörku. Ég framlengdi samning minn við félagið sumarið 2018 því ég var ánægður hérna en það hefur aðeins verið mín saga hjá félaginu að ég hef verið að spila vel og svo hefur það komið upp í umræðuna að þeir vilji breyta til og prófa eitthvað nýtt.“

Mikill uppgangur hjá félaginu

Miðvörðurinn varð bikarmeistari með Bröndby árið 2018 og þá hefur hann leikið í þremur bikarúrslitaleikjum með liðinu á tíma sínum í Danmörku.

„Ég hef þurft að sanna mig nokkrum sinnum hérna og verið í hálfgerðum eltingarleik um sæti í liðinu sem hefur alveg tekið á líka. Það hefur verið mikill uppgangur innan félagsins síðan ég kom 2016 og liðið hefur verið á meðal bestu liða Danmerkur undanfarin ár. Ég er að nálgast 150 leiki fyrir félagið og ég hef reynt að skila mínu eins vel og kostur er fyrir félagið og það er með þetta eins og allt annað, maður vill vera metinn að verðleikum sem hefur kannski ekki alltaf verið raunin.

Af þeim leikmönnum sem eru í hópnum í dag hef ég verið lengst hjá félaginu og það hefur verið sérstakt að sjá marga góða leikmenn hverfa á braut, sérstaklega síðasta árið. Það bjuggust margir við því að félagið myndi fara í eitthvert uppbyggingarstarf á tímabilinu og vera í miðjumoði en það hefur ekki verið raunin. Í gegnum tíðina hafa forráðamenn félagsins vonast eftir árangri í Evrópukeppnum sem hefur ekki verið raunin og spurningin núna hvort þeir vilja yngja upp leikmannahópinn hjá sér.“

Bjartir tímar fram undan

Hjörtur á að baki 18 A-landsleiki þar sem hann hefur skorað eitt mark en hann var í lokahópi íslenska landsliðsins sem fór á EM í Frakklandi 2016.

„Landsliðið er alltaf ofarlega í huga manns en maður þarf fyrst og fremst að standa sig vel með félagsliði sínu til þess að spila fyrir landsliðið. Það var frábært að fá þessa leiki sem ég fékk með landsliðinu í undankeppni EM 2020 og svo kom Gulli [Guðlaugur Victor Pálsson] inn í þetta og stóð sig frábærlega. Þannig á þetta að vera og ég hef ekkert nema gott að segja um heilbrigða samkeppni innan landsliðsins. Ég hef rætt við Arnar [Þór Viðarsson, nýráðinn landsliðsþjálfara] um þá stöðu sem ég er í og það er gott að vita til þess að þeir séu meðvitaðir um það hvað ég er að hugsa. Eins er gott að fá að heyra þeirra skoðun á því hvernig málin standa.

Arnar og Eiður [Smári Guðjohnsen] gerðu frábæra hluti með U21-árs landsliðið og þeir eru með mjög spennandi hugmyndir fyrir A-landsliðið. Ég fékk aðeins að kynnast Arnari þegar hann kom inn í þetta gegn Belgum í Þjóðadeildinni í október 2020 þegar allt þjálfarateymið var í sóttkví. Maður hefur fylgst lengi með Eiði, það var frábært að vera í kringum hann á EM 2016 þegar hann var í hópnum, og næstu ár gætu orðið mjög spennandi hjá landsliðinu,“ bætti Hjörtur við í samtali við Morgunblaðið.