Ómar Friðriksson
omfr@mbl.is
Dreifbýlisverslanir eiga mjög erfitt uppdráttar í litlum byggðarlögum víðsvegar um landið en þær gegna viðamiklu hlutverki í að viðhalda byggð. Meðal aðgerða sem nauðsynlegar eru til að efla rekstur dreifbýlisverslana og snúa vörn í sókn er að koma á samstarfi dreifbýlisverslana við verslunarkeðjur til að lækka vöruverð. Einnig þyrfti að koma á fót opinberum fjárstuðningi með styrkveitingum í samræmi við veltu og að þær geti fengið niðurgreiddan hluta flutningskostnaðar. Þá mætti heimila dreifbýlisverslunum að hafa milligöngu um sölu og afhendingu á áfengi í gegnum net- og póstverslun og Samkeppniseftirlitið þarf að fylgja eftir rannsókn á mismunandi viðskiptakjörum birgja til verslana eftir stærð þeirra.
Þetta er meðal þess sem fram kemur í rannsóknaskýrslu Emils B. Karlssonar, fyrrverandi forstöðumanns Rannsóknaseturs verslunarinnar, um vanda verslana í litlum byggðarlögum og hvaða aðgerðir eru skilvirkastar svo þær haldi velli. Skýrslan er birt á vef Byggðastofnunar
Samkvæmt talningu Emils voru í lok síðasta árs um 40 verslanir sem selja dagvöru í byggðarlögum með færri en 700 íbúa víðsvegar um landið. Emil heimsótti 22 dreifbýlisverslanir og fékk ítarlegar upplýsingar og frásagnir um verslunarreksturinn. „Flestar snerust þær um þrautagöngu og þrautseigju við að halda rekstrinum gangandi. Á flestum stöðum hafði reksturinn farið í þrot minnst einu sinni og ýmsar leiðir farnar til að halda versluninni gangandi. Í sumum tilvikum hefur endurreisn verslunar verið með aðkomu íbúanna sjálfra og hugsjónastarfi
þeirra sem taka að sér reksturinn, frekar en í hagnaðarskyni,“ segir í skýrslunni.
Emil aflaði víða fanga við gerð skýrslunnar og fékk m.a. upplýsingar um fyrirkomulag dreifbýlisverslunar í öðrum norrænum löndum.
Meðalverðið 48% hærra
Við athugun á verðlagi og álagningu fékk Emil upplýsingar frá verðlagseftirliti ASÍ og kemur í ljós að meðalverð á vörukörfunni, sem innihélt 104 vörutegundir, var 48% hærra í dreifbýlisverslununum en í lágvöruverðsverslunum. Minnstur verðmunur var á mjólkurvörum, eða 24%, og mestur er munurinn á hreinlætisvörum, eða 80%.
Aðspurður segir Emil að rekstur verslana í fámennum byggðum sé nánast borin von án einhvers konar stuðnings og geti verið vítahringur þar sem reksturinn stendur ekki undir sér vegna fámennis en fámenni eykst ef ekki er verslun á staðnum. „Aðalvandinn hjá þessum verslunum er að mínu mati verðlagið. Þær sitja ekki að sömu kjörum og stóru lágvöruverðsverslanirnar, þær geta ekki nýtt sér stærðarhagkvæmnina og hafa ekki sama kaupmátt og fá ekki sömu afsláttarkjör og stóru keðjurnar. Það er einkennandi að margar þessara verslana kaupa vörur úr lágvöruverðsverslununum og þá er varan búin að fara frá framleiðendum til heildsala og þaðan til lágvöruverðsverslana og svo aftur í endursölu í þessum litlu verslunum þar sem fasti rekstrarkostnaðurinn er miklu meiri en hjá þessum stóru. Það gerir að verkum að menn verða að leggja ennþá meira á vöruna,“ segir hann við Morgunblaðið.