Ómar Friðriksson omfr@mbl.is Vandi dreifbýlisverslana um allt land stafar m.a. af óhagkvæmum innkaupum, samkeppni við lágvöruverðsverslanir og háum flutningskostnaði.

Ómar Friðriksson

omfr@mbl.is

Vandi dreifbýlisverslana um allt land stafar m.a. af óhagkvæmum innkaupum, samkeppni við lágvöruverðsverslanir og háum flutningskostnaði. Honum verður ekki mætt nema með skilvirkum stuðningsaðgerðum stjórnvalda og að fleiri stoðum verði skotið undir reksturinn. Þetta kemur fram í nýrri rannsóknarskýrslu Emils B. Karlssonar, sem hefur kortlagt vanda dreifbýlisverslunar um allt land og lagt fram sjö tillögur að úrbótum.

Um 40 dagvöruverslanir voru í byggðarlögum með færri en 700 íbúa um seinustu áramót og hefur meirihluti þeirra farið í þrot einu sinni eða oftar. Þessar verslanir lenda oft í vítahring, þar sem reksturinn stendur ekki undir sér vegna fámennis og íbúum fækkar ef ekki er til verslun á staðnum. Verðsamanburður sýnir að vöruverð í dreifbýlisverslununum var að jafnaði 48% hærra en í lágvöruverðsverslunum. Greining á minnstu verslununum leiðir í ljós að þær þyrftu að hafa 66% álagningu til að vera sjálfbærar.

Emil bendir á að litlu verslanirnar í dreifbýli kaupi oft inn úr lágvöruverðsverslunum og njóti ekki afsláttarkjara. Leggur hann til að komið verði á samstarfi við stóru verslunarkeðjurnar þannig að heimamenn sem reka verslanir í litlum byggðum hafi aðgang að innkaupum á svipuðu verði og lágvöruverðsverslanir til að lækka vöruverð. Komið verði á fót markvissum styrkveitingum og vöruúrvalið breikkað þar sem verslanir á landsbyggðinni fái að annast milligöngu um afhendingu áfengis. Fram kemur að til skoðunar er hjá ÁTVR að heimila dreifbýlisverslunum geymslu og afhendingu á áfengi, gegn fastri greiðslu.