Pétur Júlíus Blöndal fæddist 16. nóvember. Hann lést 19. janúar 2021. Útför Péturs fór fram 2. febrúar 2021.
Það er komið að ferðalokum hjá elsku afa Pétri. Fyrst og fremst er það þakklæti sem kemur upp í hugann þegar maður lítur yfir árin 95 sem Pétur dvaldi á jörðinni. Ekki bara þakklæti fyrir að hann hafi veitt okkur tilveruréttinn, afkomendum hans. Heldur þakklæti fyrir mann sem lifði lífi sínu samkvæmt lífsreglum sem hann sjálfur setti sér og skráði á blað varla orðinn 10 ára, án þess að skrika nokkurn tímann fótur á þeirri vegferð. Þakklæti fyrir mann sem setti velferð og öryggi fjölskyldu sinnar, samstarfsfólks og starfsmanna ávallt í fyrsta sæti. Það þótti ekki sjálfsagt mál um það það leyti sem afi okkar fæðist, 1925, að koma öllum sínum afkomendum á legg. Veit ég að afi var einkar stoltur af sínum afkomendum og þeirra glæsilegu afrekum í leik og starfi.
Afi var farsæll atvinnurekandi í yfir 50 ár þar sem hann átti og rak vélsmiðjuna Stál á Seyðisfirði með Ástvaldi bróður sínum og síðar einnig með Theodór syni sínum. Þeir ráku sitt fyrirtæki á miklum umbóta- og framfaratímum en líka á erfiðum tímum. Þegar skórinn kreppti kom ekki til mála að fækka starfsfólki heldur voru bara búin til ný verkefni og þannig haldið dampi þangað til birti á ný.
Það er einmitt úr Stál sem margar minningar af afa skjóta upp kollinum. Minningar af því að heimsækja afa í vinnuna, skoða sig um í þessum framandi heimi sem vélsmiðja er og fá svo far með honum heim í hádeginu á gula Scout-jeppanum, borða svo síld á brauð og skyr með rjóma áður en hlustað var á fréttirnar og svo kría áður en aftur var haldið til vinnu.
Okkur systkinunum er alltaf minnisstætt þegar afi dró jólatréð fram á gólf, settist við píanóið og lék jólalög fyrir okkur börnin á meðan við dönsuðum í kringum tréð. Afi var mikill listamaður og skipti ekki máli hvort það var tónlist, myndlist, trélist eða annað; afi kunni það og gerði það vel. Sumarbústað byggði hann fjölskyldu sinni í Fögruvík við Lagarfljót á Héraði árið 1967 og hófust hann og amma Magga strax handa við að rækta upp landið. Þar má nú finna mörg tré sem gefa hæstu trjám landsins ekkert eftir og hvergi þykir betra að vera á fallegum sumardegi, með útsýni að Snæfelli. Þegar barnabörnunum tók að fjölga byggði afi sumarhús í barnastærð fyrir okkur, þar var rúm, lítið eldhús og tvöföld hurð þannig að hægt var að afgreiða drullukökur út um lúgu. Þar leika barnabarnabörnin sér enn þann dag í dag við ekkert minni gleði en við upplifðum áratugum áður.
Núna eru afi og amma sameinuð á ný. Minning um mann hvers fótspor voru svo stór að fáum öðrum er fært að standa í þeim. Ég held að það sé óhætt að segja að afi og amma hafi átt einstaklega gott líf. Fyrir það erum við þakklát. Elsku afi, góða ferð og biðjum að heilsa ömmu. Við elskum ykkur að eilífu.
Gylfi, Birna og Elsa.