Reykjanes Á næsta ári má reikna með hrognum úr styrjunum.
Reykjanes Á næsta ári má reikna með hrognum úr styrjunum. — Ljósmynd/Sigurður Helgi Ólafsson
Ágúst Ingi Jónsson aij@mbl.is Samdráttur varð í framleiðslu Stolt Sea Farm á senegalflúru á Reykjanesi á síðasta ári. Flutt voru út um 300 tonn af heilli og ferskri flúru með flugi til Bandaríkjanna og Evrópu og er það um 100 tonnum minna en áætlað var.

Ágúst Ingi Jónsson

aij@mbl.is

Samdráttur varð í framleiðslu Stolt Sea Farm á senegalflúru á Reykjanesi á síðasta ári. Flutt voru út um 300 tonn af heilli og ferskri flúru með flugi til Bandaríkjanna og Evrópu og er það um 100 tonnum minna en áætlað var.

Sigurður Helgi Ólafsson, framkvæmdastjóri fyrirtækisins á Íslandi, segir að vandamál hafi komið upp í framleiðslunni, sem búið sé að ná tökum á. Einnig hafi kórónuveirufaraldurinn sett strik í reikninginn í fyrra og fiskur hafi um tíma safnast upp í kvíum fyrirtækisins. Loks megi nefna að í desember hafi Stolt Sea Farm opnað nýja eldisstöð með senegalflúru á Spáni og hafi framleiðsla þaðan komið til á sama tíma og markaðir voru erfiðir.

Alls starfa 19 manns hjá Stolt Sea Farm á Reykjanesi og fyrst var slátrað þar 2015. Fyrirtækið er norskt að uppruna og er með landeldi á sandhverfu og flúru í 14 stöðvum á Spáni, Portúgal, Noregi og Íslandi.

Í kvíunum á Reykjanesi hefur síðustu ár verið í gangi tilraunaeldi á um 200 styrjum, sem hefur gengið vel að sögn Sigurðar. Þær verða væntanlega komnar að hrygningu eftir 12-18 mánuði, en styrjuhrogn þykja lostæti og eru verðmæt.

Margar rúmlega metri að lengd

Sigurður segir að styrjurnar séu nú á bilinu 25-60 kíló og margar þeirra á annan metra að lengd. Styrjuhópurinn hafi verið metinn og talinn á síðustu vikum og þá hafi komið í ljós að nokkurt bráðlæti hafi verið í fyrri upplýsingum um stærð þeirra og þyngd.

Styrjurnar á Reykjanesi eru af tegundinni Transmontanus. Fullorðnar í náttúrunni geta þær orðið allt að tveir metrar á lengd og 150 kíló að þyngd. Þær geta lifað í um 20 ár.