Víðir Sigurðsson
vs@mbl.is
Erna Sóley Gunnarsdóttir úr ÍR náði langbesta árangri íslenskrar konu í kúluvarpi frá upphafi á sunnudaginn þegar hún vann yfirburðasigur í greininni á háskólamóti innanhúss í Birmingham í Alabama-ríki í Bandaríkjunum.
Erna kastaði kúlunni 16,95 metra, rúmum tveimur metrum lengra en næsti keppandi, og bætti eigið Íslandsmet innanhúss um hvorki meira en 76 sentimetra. Fyrra metið sem hún setti í Houston í Texas í janúar 2020 var 16,19 metrar.
Þá er kast Ernu 42 sentimetrum lengra en Íslandsmetið utanhúss í greininni en það setti Ásdís Hjálmsdóttir haustið 2019 þegar hún kastaði 16,53 metra í Gautaborg.
Erna er aðeins tvítug að aldri og hennar besti árangur utanhúss er 16,13 metrar en því kasti náði hún í Houston fyrir tæpum tveimur árum og setti þá stúlknamet, U19 ára, í greininni. Það er þriðji besti árangur Íslendings utanhúss en auk Ásdísar hefur Guðbjörg Hanna Gylfadóttir kastað lengra en Erna utanhúss, 16,33 metra árið 1992.
Erna, sem keppir fyrir Rice-háskólann í Texas, er nú með níunda besta árangur tímabilsins í bandarísku háskólunum í vetur og á því góða möguleika á að fá keppnisrétt á meistaramóti háskólanna, NCAA, í vor. Þá er þetta 29. lengsta kast í Evrópu á þessu ári en hún hefur þegar náð lágmarki fyrir Evrópumótið utanhúss fyrir 23 ára og yngri sem fram fer í Bergen í Noregi í sumar.