„Auðvitað eru þetta gríðarleg von-brigði fyrir alla aðila að það sé ekki búið að uppræta þetta enn þá. Sannarlega vonum við að nú séum við komin á betri stað, því í sjálfu sér sjáum við þetta í færri og færri sýnum og magnið er alltaf minna.

„Auðvitað eru þetta gríðarleg von-brigði fyrir alla aðila að það sé ekki búið að uppræta þetta enn þá. Sannarlega vonum við að nú séum við komin á betri stað, því í sjálfu sér sjáum við þetta í færri og færri sýnum og magnið er alltaf minna. Við vitum að við erum á réttri leið,“ segir Helgi Grímsson, sviðsstjóri skóla- og frístundasviðs hjá Reykjavíkurborg.

Greining Náttúrufræðistofnunar Íslands á sýnum sem tekin voru í Fossvogsskóla sýndi að enn finnst mygla í skólanum þrátt fyrir miklar endurbætur á húsnæði hans. Sýnin sem leiddu þetta í ljós voru tekin 16. desember 2020.

Helgi segist skilja óánægju foreldra með skólann og magn myglugróa í skólanum sé óviðunandi. „Niðurstöður mælinga sýna að á nokkrum stöðum er of mikið af myglugróum. Við athugun verkfræðistofu kemur í ljós að það er óviðunandi frágangur á rakasperru í þaki hússins,“ segir Helgi.

Hann segir mikilvægt að líta til þess að ekki hafi fundist mygluvöxtur í húsinu heldur einungis myglugró. Til útskýringar segir hann muninn vera þann sama og á fræi og blómi. Myglugró geti þó ert þá sem hafa þróað með sér ofnæmi.