Stefán Bogi Sveinsson skrifaði á Boðnarmjöð um helgina: „Lilja frænka mín í Merki á Jökuldal hefur undanfarin ár, ásamt fleirum, staðið fyrir nokkuð reglulegum gönguferðum um helgar. Fyrst var arkað milli bæja á Jökuldal en þegar hann þraut var farið að ganga um nágrannasveitir.
Ég ákvað að skjótast með fyrir skemmstu en vantaði far frá Egilsstöðum á upphafsstað göngu úti í Jökulsárhlíð. Philip Vogler á fagurrauðan Ford og bauð mér farið en sagði að ég þyrfti að borga með vísu. Ég lét það bíða þar til daginn eftir og hafði þær því tvær, með dráttarvöxtum“:
Létt um hauður lítið trauð
Lilja sauði hvetur.
Fagra-Rauð sinn Philip bauð
ferjað kauða getur.
Úti í Hlíð er unaðstíð
ekki stríðir vetur.
Sólin blíð og sýnin víð
svo mér líður betur.
Guðmundur Stefánsson yrkir um vegagerð í Ölfusi:
Minnkar heilmikið halli
og hæðarmunur þar
sem ekið er Ingólfsfjalli
ofan í mýrarnar.
Hólmfríður á Sandi yrkir í tilefni af opnum börum:
Nú mun ekki sorg og sút
setjast að í geði.
Drekkum út úr einum kút
og yrkjum svo um gleði.
Af því gleðin alltaf vex
í ölvímu, ég þori.
að yrkja um vín og öl og sex
eins og fugl að vori.
Enn yrkir Hólmfríður, – og „ekki um stjórnmál“:
Þeir ferðuðust aldrei með frúna.
Á fyllirí skruppu þeir núna.
Kapparnir féllu
í kúaskítsdellu.
„Svín,“ sagði svínið við kúna.
Þá er limra eftir Kristján H. Theódórsson:
Sá ég hann Vernharð frá Vöglum,
á vélfáki þeysandi á nöglum.
Þá svifrykið lengi,
svífur um engi,
Sama hvað mikið við möglum.
Kári Erik Halldórsson yrkir um valdafíkn:
Valdasjúkur Pútín plottar,
pískar þegna hlýðni til.
Auðinn stöðugt til sín tottar,
tæpast býður nokkur grið.
Halldór Blöndal
halldorblondal@simnet.is