Karítas Ríkharðsdóttir
karitas@mbl.is
„Við erum bara að vonast til að geta haldið Þjóðhátíð í ágúst,“ svarar Hörður Orri Grettisson, framkvæmdastjóri ÍBV, spurður út í hver staðan sé á skipulagi Þjóðhátíðar í Eyjum fyrir sumarið 2021.
Hann segir skipulag Þjóðhátíðar 2021 fara fram með ákveðnum fyrirvörum. „Við vorum búin að teikna upp margar mismunandi sviðsmyndir í fyrra og búum að því [...] en að skipuleggja eitthvað sem þú veist ekkert um – það getur verið erfitt,“ segir Hörður.
Hann segir skipulag hafið en það sé svipað á milli ára. „Skipulagið er til, það er búið að halda Þjóðhátíð í svo mörg skipti og við erum því ekki að finna upp hjólið á hverju ári.“
Höfundur þjóðhátíðarlags fundinn
Hörður Orri segir að þegar hafi verið samið við höfund um að semja þjóðhátíðarlag. Þjóðhátíð í Eyjum var ekki haldin í fyrra sökum samkomutakmarkana. Þó var búið að teikna upp áætlun þar sem stuðst var við sóttvarnahólf. Aðspurður hvort raunhæft sé að halda Þjóðhátíð með slíku fyrirkomulagi segir Hörður erfitt að meta það en ÍBV hafi löngum verið þekkt fyrir að halda uppi öflugri og sýnilegri öryggisgæslu á Þjóðhátíð. Hörður segist bjartsýnn á að samkomutakmarkanir verði með þeim hætti í sumar að hægt verði að halda upp á Þjóðhátíð, miðað við hvernig sóttvarnalæknir talaði á síðasta upplýsingafundi almannavarna.
Fiskidagurinn annaðhvort af eða á
Stjórn Fiskidagsins mikla mun funda í næstu viku og ræða stöðuna. Fiskideginum var aflýst með nokkrum fyrirvara í fyrra.
„Við munum ekki stökkva af stað ef það er einhver áhætta í gangi. Við bara bíðum,“ segir Júlíus Júlíusson, framkvæmdastjóri hátíðarinnar. Hann segir að skipulag Fiskidagsins væri í venjulegu árferði komið töluvert af stað á þessum tíma árs og endanleg ákvörðum þarf að liggja fyrir með nokkrum fyrirvara. Hann segist ekki sjá fyrir sér neina smækkaða útfærslu: „Þetta er bara af eða á.“
Reiknað með Bíladögum
Bílaklúbbur Akureyrar stendur fyrir Bíladögum á Akureyri ár hvert í kringum 17. júní. Þeim var þó sleppt alfarið í fyrra. Í samtali við Morgunblaðið segir Einar Gunnlaugsson, formaður klúbbsins, að vel mætti halda helstu dagskrárliði Bíladaga undir um þúsund manna samkomutakmörkunum.