„Þetta eru ekki tískustjórnir. Það er gríðarlega mikilvægt að stjórnarmenn búi yfir nægri þekkingu og reynslu,“ segir Þórunn Reynisdóttir, forstjóri ferðaskrifstofunnar Úrvals-Útsýnar, í samtali við Morgunblaðið. Hún er í framboði til stjórnar flugfélagsins Icelandair. Þórunn hlaut þó ekki náð fyrir augum tilnefningarnefndar sem horfði þess í stað til annarra aðila. Lagði nefndin til að stjórnin yrði áfram óbreytt, en þrátt fyrir það hafa borist tvö önnur framboð. Auk Þórunnar hefur Steinn Logi Björnsson, fyrrverandi stjórnarformaður Bláfugls, einnig boðið fram krafta sína.
Aðspurð segist Þórunn hafa mikla reynslu sem muni nýtast flugfélaginu mjög vel. Hún hafi af þeim sökum ákveðið að láta slag standa og bjóða sig fram. „Ég tel mig eiga fullt erindi inn í stjórn félagsins. Landslagið er breytt núna og ég þekki hvernig taka þarf á kostnaði,“ segir Þórunn og bætir við að hún hafi undrast mjög vinnubrögð tilnefningarnefndar. Þannig hafi ákvörðun um hverjum stilla ætti upp í stjórn verið tekin áður en vitað var hverjir ætluðu í framboð. „Þeir voru búnir að senda þetta út áður en þeir sáu hverjir ætluðu að bjóða sig fram.“
Hún kveðst nú vera að kynna sín stefnumál fyrir hluthöfum. Segist hún leggja mikla áherslu á reynslu sína erlendis, en auk þess að starfa hjá Icelandair starfaði Þórunn m.a. í Bandaríkjunum um nokkurra ára skeið. „Nú er ég að vinna í þessu og reyna að afla mér nægilega margra atkvæða.“