*Al-Arabi tapaði 3:2 gegn toppliðinu í efstu deild í knattspyrnunni í Katar, Al-Sadd, í gær. Freyr Alexandersson stýrði Al Arabi í fjarveru Heimis Hallgrímssonar sem er með kórónuveiruna eins og fram hefur komið.

*Al-Arabi tapaði 3:2 gegn toppliðinu í efstu deild í knattspyrnunni í Katar, Al-Sadd, í gær. Freyr Alexandersson stýrði Al Arabi í fjarveru Heimis Hallgrímssonar sem er með kórónuveiruna eins og fram hefur komið. Til stóð að Aron Einar Gunnarsson myndi byrja inn á en lék svo ekki með þegar til kastanna kom. Mun hann hafa orðið fyrir meiðslum í upphitun. Al-Arabi komst tvívegis yfir í leiknum en sú staða breyttist í uppbótartíma þegar toppliðið skoraði tvö og vann 3:2.

*Cristiano Ronaldo er orðinn markahæsti leikmaður ítölsku A-deildarinnar í knattspyrnu á þessu tímabili eftir að hafa skorað tvívegis fyrir Juventus í 3:0-sigri á Crotone. Ronaldo hefur þar með gert 18 mörk í deildinni í vetur, einu meira en hinn belgíski Romelu Lukaku hjá Inter Mílanó.

*Kvennalið ÍBV hefur fengið liðsauka frá Trínidad og Tóbagó fyrir komandi keppnistímabil í fótboltanum. Liana Hinds , landsliðskona karabíska eyríkisins, er gengin til liðs við ÍBV. Hinds hefur leikið með landsliði Trínidad og Tóbagó frá árinu 2014.

*Belginn Christian Benteke tryggði Crystal Palace 2:1-útisigur á Brighton í ensku úrvalsdeildinni með marki á fimmtu mínútu í uppbótartíma.