Síðasta sólarhring fór tala látinna af völdum kórónuveirunnar í Bandaríkjunum upp fyrir hálfa milljón frá því kórónufaraldurinn blossaði upp fyrir rösku ári. Vaxandi vonir eru um að bólusetning sé að verða almennari og afkastameiri víða um heim.
Þar sem bólusetningar eru komnar á skrið í Bandaríkjunum eru vonir bundnar við að úr tíðni dauðsfalla dragi fljótt. Þá hefur nýsmiti fækkað síðustu daga. Joe Biden forseti segir manninn með ljáinn við störf og varaði hann við því að allt að 600.000 manns gætu látist áður en kórónuveiran yrði kveðin í kútinn. „Þetta er hræðilegt og sögulegt. Við höfum ekki séð neitt í líkingu við þetta í yfir hundrað ár, eða frá faraldrinum 1918. Það fær á mann að horfa á þessar tölur, nær ótrúlegar en samt sannar,“ sagði Anthony Fauci, aðalráðgjafi Bidens varðandi kórónuveiruna, við NBC-stöðina í gær.
Í gærmorgun stóð tala látinna í 498.897 manns, að sögn Johns Hopkins-háskólans sem haldið hefur saman gögnum um útbreiðslu kórónuveirunnar. Er heildardauði á heimsvísu að nálgast 2,5 milljónir manns.
Að sögn sóttvarna Bandaríkjanna (CDC) hefur rúmlega 61 milljón manna fengið fyrri skammt bóluefnis gegn kórónuveirunni í Bandaríkjunum. Eiga 18 milljónir eftir að fá seinni skammtinn. Hefur Biden forseti haft það í forgangi að ná því að bólusetja 100 milljónir manna fyrstu 100 dagana sem húsbóndi í Hvíta húsinu.
Boris Johnson, forsætisráðherra Bretlands, gerði breska þinginu í gær grein fyrir áætlun um afnám aðgerða gegn kórónuveirunni í áföngum sem gætu þýtt að Bretar komist undan oki veirunnar í sumarlok. Til afar strangra aðgerða var gripið í byrjun janúar er upp kom í Bretlandi afbrigði af kórónuveirunni sem þótt hefur illskeyttara og dreifa sér hraðar en frumgerð veirunnar.