Guðni Einarsson
gudni@mbl.is
Sjúkratryggingar Íslands (SÍ) hafa auglýst eftir viðræðum við rekstraraðila, einn eða fleiri, á höfuðborgarsvæðinu sem getur eða geta tekið að sér rekstur hjúkrunarrýma til allt að fjögurra ára. Óskað er eftir 100 rýmum að hámarki. Forsenda samnings er að rekstraraðili eða -aðilar leggi til húsnæði undir starfsemina. Stefnt er að því að verkefnið hefjist 1. júní næstkomandi.
Um er að ræða allt að 100 hjúkrunarrými á höfuðborgarsvæðinu til viðbótar við þau rými sem þegar eru í rekstri, að sögn Maríu Heimisdóttur, forstjóra SÍ.
„Um er að ræða tímabundið úrræði til að brúa bilið á meðan unnið er að uppbyggingu hjúkrunarheimila á svæðinu samkvæmt framkvæmdaáætlun til 2024. Eins og fram kemur í auglýsingunni er reiknað með að rekstraraðili útvegi húsnæði, hvort sem hann hefur sjálfur húsnæði til ráðstöfunar eða semur við annan um að útvega það. Þar sem þjónustan á að hefjast innan skamms tíma er miðað við að nýtt verði húsnæði sem þegar er til staðar en ekki verði ráðist í byggingu nýs húsnæðis,“ sagði í skriflegu svari Maríu til Morgunblaðsins.
Hún var spurð hvort með þessu væri verið að skapa grundvöll til að semja við aðila sem hafa boðist til að setja upp hjúkrunarheimili undanfarið og kváðust geta útvegað húsnæði undir starfsemina? „Vel má vera að einhver þeirra aðila sem undanfarið hafa boðið t.d. hótelrými fyrir rekstur hjúkrunarrýma verði meðal þeirra sem svara auglýsingu SÍ,“ sagði í svari Maríu.
Vísað í gildandi samninga
Í tilkynningu SÍ kemur fram að um sé að ræða „almenn hjúkrunarrými sem lúta lögum og reglum um færni- og heilsumat og greitt er fyrir með daggjöldum í samræmi við núgildandi samninga um rekstur hjúkrunarrýma“.SÍ vísa í þessu sambandi í frétt stofnunarinnar um öldrunarþjónustu. Þar kemur m.a. fram að sett hafi verið gjaldskrá vegna þjónustu hjúkrunarheimila sem tók gildi 1. janúar 2020. Einnig að Sjúkratryggingar Íslands, Samtök fyrirtækja í velferðarþjónustu og Samband íslenskra sveitarfélaga hafi skrifað undir samninga um þjónustu hjúkrunarheimila sem gilda frá 1. janúar 2020 til 31. desember 2021. Samið var við hvert hjúkrunarheimili um sig og voru samningarnir við þau samhljóða.