Borgarleikhúsið býður annað kvöld, miðvikudagskvöld, klukkan 20 áhugasömum á leiklestur á nýju leikverki sem er í vinnslu. Verkið nefnist Göngutúrinn. Ókeypis er á leiklesturinn en áhugasamir þurfa að panta miða á vefnum borgarleikhus.is.
Leiklesturinn er fyrsti viðburðurinn í nýrri röð sviðsettra leiklestra undir hatti Umbúðalaust, þar sem nýir sviðshöfundar fá tækifæri til að þróa hugmyndir sínar og verk í vinnslu.
Göngutúrinn er gamansamt leikrit eftir Ragnar Ísleif Bragason í leikstjórn Jörundar Ragnarssonar. Verkið fjallar um hjón sem skella sér á hótel úti á landi til að lífga upp á sambandið og nýta gjafabréf áður en það rennur út. Á hótelinu koma óvæntir hlutir upp á yfirborðið þegar hjónin kynnast kokkinum og móttökustúlkunni á staðnum.