Einar Falur Ingólfsson
efi@mbl.is
Draumar og brothætt hjörtu er yfirskrift tónleika í Tíbrár-röð Salarins í Kópavogi í kvöld, þriðjudag, klukkan 19.30. Fram koma söngkonurnar Þóra Einarsdóttir sópran og Hanna Dóra Sturludóttir mezzósópran ásamt píanóleikaranum Peter Máté. Fluttir verða bæði einsöngvar og dúettar eftir Johannes Brahms, Robert Schumann og Clöru Schumann, Hugo Alfvén, Jórunni Viðar, Tryggva M. Baldvinsson, Edvard Grieg, Jean Sibelius, Strauss og fleiri.
Hanna Dóra varð fyrir svörum þegar listamennirnir, sem allir eru í fremstu röð hér á landi, voru truflaðir á æfingu í Salnum. Hún segir að upphaflega hafi staðið til að vera með aðra efnisskrá og lengri en nú á tímum fjöldatakmarkana megi tónleikarnir ekki vera nema ein klukkustund og þess vegna hafi þau æft upp aðra efnisskrá. „Við röðuðum saman lögum sem okkur öllum þykja mjög falleg. Og við syngjum einmitt um drauma og brothætt hjörtu,“ segir Hanna Dóra og vísar þar til yfirskriftar tónleikanna.
„Við syngjum til að mynda draumaljóð Griegs og Sibeliusar og líka um ýmsar langanir og þrár. Svo syngjum við um vorið. Það á vel við núna.“
– Eruð þið þannig bæði að hugga fólk og brýna í heimsfaraldrinum?
„Nákvæmlega. Þetta er mjög ljúf dagskrá og við endurnærumst með þessari tónlist. Það er svo gefandi að fá að syngja opinberlega.“
Gaman að músisera
Hanna Dóra upplýsir að þetta sé í fyrsta skipti sem hún komi fram með þeim Þóru og Peter á ljóðatónleikum en þær Þóra hafa þó vitaskuld oft komið saman fram í óperum. Þær bæði byrja og enda dagskrána á dúettum, eftir Brahms og Schumann, en flytja einsöngslög þar á milli.„Það er rosalega gaman að músisera með Þóru og Peter. Við vinnum öll í Listaháskólanum og erum með góð tengsl.“
– Voru þá lögð drög að efnisskránni í frímínútum?
„Það liggur við!“ svarar hún. „Á milli tölvupósta og funda veltum við á milli okkar hugmyndum að lögum að syngja, nefndum óskalög og það sem okkur þótti passa.
Þá syngjum við líka íslensk lög, sem er ómissandi á tónleikum, og völdum falleg lög eftir Jórunni og Tryggva sem standa alltaf fyrir sínu.“
Á þessum tímum Covid snýst allt um sveigjanleika, hann er númer eitt, tvö og þrjú.“
Þegar spurt er hvort faraldurinn hafi ekki valdið mikilli röskun á lífi og ferli tónlistarmannanna, fólks sem er vant því að koma reglulega fram, segir Hanna Dóra að vissulega hafi þetta verið skrýtinn tími.
Sameiginleg upplifun
„En í þessum bransa er mikilvægt að vera sveigjanlegur því það getur alltaf eitthvað komið upp á. Ég hef til dæmis upplifað að leikstjóri hættir við og uppfærslu er þess vegna frestað, hljómsveitir hafa farið í verkfall, ýmislegt getur komið upp á. En þetta hefur verið óvenjulangur tími og ég hef bæði æft fyrir verkefni sem hafa ekki orðið að veruleika eða hefur verið frestað. Mér finnst ég hafa verið að vinna jafn mikið fyrir tónleika og áður, því það hefur verið stefnt að þeim, en þar sem minna hefur verið um tækifæri til að koma fram og syngja hef ég notið þess þeim mun betur þegar tækifæri hafa gefist. Eins og til að mynda við að syngja við útfarir, að ná þá til fólks og geta fengið þessa sameiginlegu upplifun í tónlistinni. Það hefur verið ómetanlegt í hvert skipti þegar það hefur komið upp á.En við erum ótrúlega heppin með stöðu mála hér á Íslandi núna, og við þrjú að geta fyrir vikið verið með þessa tónleika. Við vonum líka að sem flestir komi til að njóta og upplifa þetta með okkur í Salnum.“