Haukur Svansson
Haukur Svansson
Eftir Hauk Svavarsson: "Þetta er til dæmis mjög áberandi í fréttalestri á RÚV. Svo mjög, að mann fer að gruna að um hana hafi verið tekin einhver stefnubreytandi ákvörðun einhvern tíma fyrir ekki svo löngu."

– Margir fara af landi brott áður en þeir fá...

– Það eru margir sem verða eins og Tom Cruise þegar þau heyra...

Hvort tveggja eru þetta fyrirsagnir valdar af handahófi af vefmiðlum.

Í íslenskri tungu vill svo til að öll fallorð (orð, sem fallbeygjast) hafa málfræðilegt kyn; eru karlkyns-, kvenkyns- eða hvorugkynsorð. Maður er hann og menn eru þeir; kona er hún og konur eru þær; barn er það og börn eru þau. Ég gef mér að um þetta séu menn sammála. Eða hvað? Á allra síðustu árum virðist vera einhver, trúlegast óskipuleg hreyfing, sem vinnur að því að breyta þessu einfalda og rótgróna kerfi. Þetta er til dæmis mjög áberandi í fréttalestri á RÚV. Svo mjög, að mann fer að gruna að um hana hafi verið tekin einhver stefnubreytandi ákvörðun einhvern tíma fyrir ekki svo löngu.

Fyrirsagnadæmin hér að framan sýna í hverju hún er fólgin. Margir, fleirtala af margur, er málfræðilega karlkynsorð. Þess vegna ætti, samkvæmt hefðinni, að nota þeir þegar um marga er að ræða. Þeir eru margir.

Nú er augljóst að þar sem margir koma saman er ekki sjálfgefið að einstaklingarnir séu allir af sama kyni. Og í því virðist þessi meinta breyting liggja. Svo er að sjá að uppi sé krafa um að þegar talað er um hóp skuli líffræðilegt kyn þeirra sem hópinn mynda ráða för en ekki málfræðilegt. Gott og vel.

– Hópur fólks kom saman á Austurvelli. Þau létu dólgslega.

– Fólkið talaði um nýja stjórnarskrá. Þau vilja breytingar.

Allt sem mér var kennt í skólum á sínum tíma segir þessa notkun fornafna ranga (þótt deila megi um notkun hugtakanna rétt og rangt í þessu samhengi).

Hópur er karlkynsorð í eintölu. Hann (hópurinn) getur því látið dólgslega, ekki þeir. (Ekki nema um marga hópa sé að ræða.)

Fólk er hvorugkynsorð í eintölu. Þess vegna vill það (fólkið) breytingar, ekki þau.

Ég skil mætavel hugsunina á bak við þessa breytingu. Hópur, margir og fólk innihalda oftar en ekki einstaklinga af ólíkum kynjum, en mér hugnast lítt að láta líffræðilegt kyn ýta málfræðilegu kyni til hliðar. Slíkt þykir mér fulllangt gengið.

Allt beygingakerfi íslensku snýst um þessa kynjun orða, sem oft stangast á við líffræðilegt kyn þeirra sem um er rætt. Ofangreind breyting kann því að virðast þörf og skynsamleg því ekki vill Guðrún láta kalla sig hann eða það. En ef við ætlum að fallast á þessa breytingu þá opnum við ormagryfju svo djúpa að upp úr henni verður vart komist nema kollvarpa fallbeygingakerfinu í heild sinni. Dæmi:

– Í viðtali sagði dómsmálaráðherra að hún... Já, allir vita að dómsmálaráðherra er kona. – Einn þingmaður sagði að hann... Hér kemur ekki fram hver umræddur þingmaður er og líffræðilegt kyn hans er því óþekkt. – Karlalandsliðið í blaki segir leikinn hafa verið góðan. Þeir voru allir sammála um... Hér leikur enginn vafi á kyni tilvitnaðra. – Keppendur á Íslandsmótinu í samkvæmisdönsum sögðu að þeir/þau væru... Hér er okkur vandi á höndum. Téðir keppendur eru eðli málsins samkvæmt af fleiri en einu kyni. – Svo ekki sé talað um félagsmenn Samtakanna 78. Hafa þeir/þær/þau skoðun á málinu? – Og hvað með börnin í skólunum? Hvort eru það þau börnin eða þeir krakkarnir, eða þau krakkarnir? Svo ekki sé talað um kennarana. Hvort starfa þar þeir, þær eða þau?

Ekki er þetta einfalt mál. Hingað til hef ég einungis talað um manneskjur og hópa þeirra þar sem allir hlutaðeigandi hafa líffræðilegt kyn sem stangast gjarna á við hið málfræðilega. Hvað gerist ef við færum okkur yfir í dauða hluti?

– Ég fór á bílasölu til að svipast um. Ég sá alls konar bíla. Þau voru í öllum regnbogans litum. Bíddu nú við, reikna ég með að einhver segi. Þau bílarnir? Já, þarna var Mazda (hún), Ford (hann) og svo framvegis. Líkt og með hóp manna verð ég að gera ráð fyrir fleiri en einu kyni.

– Gjaldmiðla allra landa ætti að sameina. Það er óhentugt að þau (gjaldmiðlarnir) séu svona ólík. Þau gjaldmiðlarnir? Já, hann dollarinn, hún evran, það jenið. Vissulega hafa peningar ekki líffræðilegt kyn, en hér er búið að steypa saman öllum málfræðilegum kynjum undir einn hatt og hvort á þá að ráða kyn hvers og eins eða kyn nafnorðsins sem þeir falla allir undir (gjaldmiðill)?

Nú segja eflaust einhverjir að þetta sé ekki sambærilegt þar sem hvorki bílar né peningar hafi líffræðilegt kyn. Sem er satt og rétt, en hvers vegna eru bílarnir þá þeir (sem og gjaldmiðlarnir)? Vegna þess að orðin bíll og gjaldmiðill eru karlkynsorð. Svo hér skal málfræðikynið ráða för.

Ef til vill getum við fallist á þá málamiðlun að líffræðilegt kyn skuli ráða þegar um það er að ræða en málfræðilegt kyn ella. Þá verðum við að vísu að setja allar tegundir dýra í hvorugkyn þegar þau eru orðin mörg saman, rétt eins og mannfólkið. Hundarnir voru snarvitlausir. Þau geltu allan daginn. Samþykkt?

Lykilspurningin í mínum huga er þessi: Er þorri málnotenda sáttur við þessa meintu breytingu? Sé svo er fátt fleira um þetta að segja. Málvísindamenn framtíðarinnar hafa þá eitthvað til að rannsaka og skrifa um; hvenær og hvernig kyngreining nafnorða í íslensku leið undir lok.

Höfundur er kennari. haukursv@simnet.is

Höf.: Hauk Svavarsson