Guðni Einarsson
gudni@mbl.is
Búast má við hertum sóttvarnaaðgerðum vegna fuglaflensu um miðjan mars, nema eitthvað gerist sem kallar á að aðgerðir verði hertar fyrr, að sögn Brigitte Brugger, sérgreinadýralæknis alifugla hjá Matvælastofnun (MAST).
Faghópur fylgist með stöðunni og þróun mála. Í honum eru auk Brigitte Gunnar Þór Hallgrímsson, fuglafræðingur og prófessor í dýrafræði við Háskóla Íslands, Vilhjálmur Svansson, dýralæknir og veirufræðingur á Tilraunastöð HÍ í meinafræði að Keldum, og Auður Lilja Arnþórsdóttir, sóttvarnadýralæknir hjá MAST.
„Farfuglar eru farnir að koma en að öllum líkindum verður tillaga um aukið viðbúnaðarstig send til ráðuneytisins um miðjan mars þegar þungi farflugsins nálgast,“ sagði Brigitte. Hún sagði að þetta geti breyst ef fuglaflensusmit greinist hér á næstu dögum eða vikum. Ekki stendur til á þessu stigi að fanga heilbrigða farfugla til að kanna hvort þeir eru smitaðir. Brigitte segir að það sé ekki góð leið til að vakta fuglaflensu í villtum fuglum og litlar líkur á að finna eitthvað þannig. „Ef eitthvað kemur upp á, til dæmis á tilteknum svæðum, þurfum við að meta hvað við gerum,“ sagði Brigitte.
MAST hefur óskað eftir því að fólk tilkynni um dauða fugla sem gætu hafa drepist vegna sjúkdóms. Ekki þarf að tilkynna um fugla sem augljóslega hafa drepist vegna slysa eins og að verða fyrir bíl eða eftir að hafa flogið á rúður. Brigitte sagði að tekin hefðu verið nokkur sýni úr dauðum fuglum undanfarið en þau voru ekki jákvæð gagnvart fuglaflensu.
Fuglaflensa af stofni H5N8 hefur greinst í nokkrum starfsmönnum alifuglabús í Suður-Rússlandi. Einkenni sjúkdómsins hjá þeim voru ekki alvarleg.
„Farfuglarnir okkar koma ekki frá Rússlandi heldur frá sýktum svæðum í Vestur- og Norður-Evrópu. Þar hafa ekki fundist neinar vísbendingar um að fuglaflensuveiran hafi smitast í menn,“ sagði Brigitte.