Sveinn Jóhann Sveinsson bifreiðastjóri fæddist 15. maí 1947 í Reykjavík. Hann varð bráðkvaddur á heimili sínu 6. febrúar 2021.

Foreldrar hans voru hjónin Sveinn Snæbjörn Sveinsson, f. 10. okt. 1903, d. 16. feb. 1993, og Ingibjörg Theódórsdóttir f. 7. júní 1918, d. 1. sept. 1993.

Systkini Sveins eru: Bjarni, f. 1947, Helgi Theodór, f. 1948, d. 1992, Rúnar Loftur, f. 1949, Elías Rúnar, f. 1952, Guðmundur Aðalsteinn, f. 1955, d. 2007, og Marta María, f. 1962.

Eftirlifandi eiginkona hans er Lilja I. Sveinsdóttir, sem hann giftist 4. des. 1971. Börn þeirra eru: 1) Margrét Þóra, maki Sævar Már Kjartansson, börn þeirra: Jóel Örn, María Rós og Símon Valur. 2) Sigurður Ingi, maki Signý Leifsdóttir, börn þeirra: Smári, Frosti og Hulda Sól. 3) Logi Arnar.

Sveinn Jóhann starfaði við sjómennsku á yngri árum en gerði síðar út vöru- og sendibíla frá Sendibílastöðinni Þresti, Vörubílastöðinni Þrótti og Sendibílastöðinni hf.

Útförin fer fram 23. febrúar kl. 13 frá Neskirkju við Hagatorg.

Streymt verður frá útför: https://youtu.be/APLU66H1lb4

Virkan hlekk á streymi má finna á:

https://www.mbl.is/andlat

Elsku pabbi minn er skyndilega farinn úr þessum heimi, varð bráðkvaddur á heimili sínu. Endalaust af góðum minningum kemur upp í hugann og það huggar á svona stundu. Ég hef alltaf verið pabbastelpa og pabbi hélt alltaf með mér. Hann var stoltur af stelpunni sinni, hvort sem það var að byrja að læra að hjóla, fá bílpróf eða verða hjúkrunarfræðingur. Pabbi var samkvæmur sjálfum sér og svo ekta í gegn. Hann hafði mikla þolinmæði í að leika við barnabörnin sín.

Bílar hafa verið hans ær og kýr alla tíð. Hann hugsaði alltaf vel um bílana sína, það fór ekki fram hjá neinum. Vinnusemi, heiðarleiki og hjálpsemi einkenndi hann. Hann hefur alltaf verið bifreiðarstjóri, allt mitt líf alla vega, og hafði verið i vinnunni daginn áður en hann kvaddi þennan heim svo skyndilega sem það varð.

Hann varð „hundraðshöfðingi“ hjá Blóðgjafafélaginu og rúmlega það með öllum þeim skiptum, alls 172 skipti, sem hann mætti af fúsum og frjálsum vilja i Blóðbankann og gaf blóð reglulega fjórum sinnum á ári stærstan hluta ævi sinnar. Hann hefur með blóð-gjafmildi sinni gefið mörgum sjúklingum betra líf og jafnvel bjargað lífi margra þeirra.

Í lokin vil ég benda á að þeir sem vilja minnast hans geta lagt Blóðbankanum lið við kaup á nýjum Blóðbankabíl.

Elsku besti pabbi, nú er komið að kveðjustund. Við munum ylja okkur við fallegar minningar um þig. Guð blessi þig. Ég elska þig.

Þín dóttir,

Margrét Þóra.

Kæri tvíburabróðir. Margs er að minnast eftir 73 ára lífsgöngu okkar saman. Eitt sem einkenndi þig var dugnaður og ósérhlífni, alltaf tilbúinn til að aðstoða t.d. eins og mig sem stóð í flutningum fyrir skömmu. Þá var mér kunnugt um gjafmildi þína sem þú vildir helst aldrei tala um. Eitt gott dæmi um slíkt er þegar þú upp á þitt eindæmi árið 1965 bauðst allri stórfjölskyldu Helgu Bjarnadóttur, móðurömmu okkar, í 75 ára afmælið hennar í Tjarnarbúð. Bifreiðaakstur varð þitt aðalstarf í lífinu. Byrjaðir með lítinn sendibíl á sendibílastöðinni Þresti 1974. Síðan var keyptur stærri bíll sem var meðal annars notaður sem kaffihús í ferð okkar með krakkaskarann á skíði í skíðaskálann í Hveradölum eina helgina. Það virðist hafa verið meiri snjór þar að vetri til á þessum árum. Eftir að þú hættir á Þresti keyptirðu vörubíl og byrjaðir á sendibílastöðinni Þrótti. Þar vannst þú í mörg ár, fyrst með bíl til malarflutninga, síðan öflugan kranabíl. Þá rifjast upp þegar þú varst á Þresti með stærri sendibílinn 1978-79. Ákváðuð þið hjónin að byggja ykkur sumarbústað í Borgarfirði eystri sem þú fluttir í einingum í nokkrum ferðum austur. Þá hjálpaði Kiddi frændi þér að koma honum upp ásamt fleirum. Þar í Borgarfirði áttir þú trilluna Tindfell sem þú rerir á sumrin til handfæraveiða. Bústaðurinn varð síðan að heilsárshúsi og stendur held ég enn. Ég, Lára og krakkarnir heimsóttum ykkur þangað og fór ég með þér í róður einn daginn. Þar var sami dugnaðurinn út í gegn. Þá er ljúft að minnast allra veiðiferðanna sem við fórum í saman. Þar var sami dugnaðurinn og þótti þér ekki verra þótt blési hressilega; „bara betra“ sagðir þú. Þá verð ég að minnast á góðan veiðifélaga þinn, Sveinbjörn Björnsson, sem vann með þér á Þrótti, sem þú hvattir ósjaldan til að koma með þér eða okkur í veiði. Sveinbjörn kvaddi þetta jarðlíf fyrir stuttu, blessuð sé minning hans. Ég ætla rétt að vona að þegar þið farið að veiða saman í Sumarlandinu sé leyfður makríll og spúnn!

Gott er að eiga góðar minningar og hugsa til þess að aldrei bar skugga á okkar vegferð.

Mínar innilegustu samúðarkveðjur til Lilju og barna ykkar, barnabarna, tengdadóttur og tengdasonar.

Bjarni bróðir.