Handboltinn
Kristján Jónsson
kris@mbl.is
Leikirnir í Olís-deild karla í handknattleik eru ef til vill ekki eins fyrirsjáanlegir og einhverjir héldu. Nýliðarnir í Gróttu halda áfram að koma á óvart og sóttu tvö stig á Selfoss í gær en þá voru þrír leikir á dagskrá í deildinni. Grótta er nú með níu stig eftir ellefu leiki og er aðeins tveimur stigum á eftir ÍBV og Selfossi sem hafa leikið tíu leiki.
Grótta tapaði nýliðaslag gegn Þór á Akureyri á dögunum en Seltirningar voru ekki lengi að sleikja sárin. Síðan þá hafa þeir náð í fjögur stig með sigrum á móti Fram og Selfossi. Eftir leikinn gegn Þór var Grótta stigi fyrir ofan fallsæti en er nú fimm stigum fyrir ofan fallsæti en Þór er með fjögur stig.
„Gróttumenn léku mjög vel allan leikinn. Vörnin var hreyfanleg og þétt og í sókninni voru menn óhræddir við að skjóta. Þar bar mest á Birgi Steini Jónssyni sem skoraði nokkur glæsileg mörk í fyrri hálfleik og sömuleiðis var Daníel Örn Griffin óhræddur við að ráðast á Selfossvörnina.
Selfyssingum gekk hins vegar illa að ráða við 5-1-vörn Gróttu. Sóknarleikurinn var staður og hægur og þeir vínrauðu virtust alls ekki í vígahug. Guðmundur Hólmar var öflugur í sókninni hjá Selfyssingum í fyrri hálfleik en Ragnar Jóhannsson var í stífri gæslu og komst ekki á blað. Staðan var 11:14 í hálfleik og Gróttumenn héldu sínu striki í seinni hálfleik á meðan Selfyssingar fundu aldrei taktinn. Birgir Steinn fékk aldrei flugbrautina sem hann þurfti í seinni hálfleik en Daníel Örn hélt áfram árásum sínum og sömuleiðis opnaðist fyrir Gunnar Dan á línunni,“ skrifaði Guðmundur Karl meðal annars í umfjöllun sinni um leikinn á mbl.is í gær.
Halldór Jóhann Sigfússon , þjálfari Selfyssinga, leyndi ekki vonbrigðum sínum í samtali við Guðmund Karl þegar niðurstaðan lá fyrir og sagði ekki óvarlegt að tala um einhvers konar krísu hjá liðinu en Selfoss hefur tapað þremur leikjum í röð. „„Það má alveg kalla þetta smá krísu. Mér finnst það vera. Að tapa svona illa fyrir Gróttu á heimavelli með svona dapurri spilamennsku, það finnst mér ekki gott. Það er stutt á milli næstu leikja og við þurfum fyrst og fremst að kúpla okkur aðeins frá þessu og að hver og einn líti í eigin barm. Þetta snýst um sjálfstraust. Það geislaði ekki af okkur í kvöld og þetta var með því daprasta sem ég hef séð, og við höfum gert síðan ég kom á Selfoss,“ sagði Halldór Jóhann.
Haukar aftur á toppinn
Annar leikur sem var ekki eftir bókinni margumtöluðu fór fram í Austurberginu í Breiðholti. Haukar náðu þá aftur toppsætinu í deildinni og fóru upp fyrir FH. Eru Haukar með 17 stig en FH 16.ÍR er án stiga í botnsæti deildarinnar og því bjuggust eflaust flestir við ójöfnum leik á milli ÍR og Hauka. Svo fór ekki en Haukar lönduðu þó sigri 29:26 en máttu hafa verulega fyrir hlutunum. Að loknum fyrri hálfleik var staðan 13:13 og Haukarnir náðu að komast yfir á lokamínútunum og landa sigri.
Darri Aronsson og Orri Freyr Þorkelsson skoruðu mest fyrir Hauka, sex mörk hvor. Sveinn Brynjar Agnarsson átti stórleik fyrir ÍR í hægra horninu og skoraði 10 mörk.
Skoraði 10 í fyrri hálfleik
Eftir misjafna leiki náðu Valsmenn sér á strik í gær og unnu öruggan sigur, 30:21, á vængbrotnu liði Aftureldingar á Hlíðarenda. Óhætt er að segja að grunnurinn að sigrinum hafi verið lagður í fyrri hálfleik því þá skoraði Valur 21 mark og hafði komið sér upp ellefu marka forskoti fyrir síðari hálfleikinn. Skoraði Anton Rúnarsson 10 mörk í fyrri hálfleik.„Staðan 21:10 í hálfleik þar sem Anton var sem áður segir með tæplega helming marka Valsmanna. Þá var Martin Nagy í marki þeirra drjúgur og varði sjö skot í fyrri hálfleiknum. Að sama skapi voru Mosfellingar algjörlega heillum horfnir og áttu engin svör við sterkum sóknarleik Valsmanna, auk þess sem markvarsla gestanna var lítil sem engin. Síðari hálfleikurinn var öllu rólegri enda má með sanni segja að skaðinn væri þegar skeður fyrir Mosfellinga. Anton bætti nokkrum mörkum við úr vítaköstum og Nagy hélt áfram að verja eins og berserkur, endaði hann með 16 varin skot og 50 prósent markvörslu. Anton endaði markahæstur í leiknum með 13 mörk og gaf sömuleiðis fjórar stoðsendingar. Markahæstur í liði Aftureldingar var Blær Hinriksson með fimm mörk og fjórar stoðsendingar að auki,“ skrifaði Gunnar Egill Daníelsson meðal annars í umfjöllun sinni um leikinn á mbl.is.
• Á mbl.is/sport/handbolti er að finna ýmsa umfjöllun um leikina og viðtöl.