Eins og greint var frá í Morgunblaðinu um síðustu helgi hefur Póst- og fjarskiptastofnun (PFS) úrskurðað Íslandspósti (ÍSP) 509 milljónir króna í framlag vegna alþjónustubyrði ársins 2020, en framlagið nemur hreinum kostnaði alþjónustu ÍSP.
Ólafur Stephensen, framkvæmdastjóri Félags atvinnurekenda, segir í samtali við Morgunblaðið að inni í þeirri tölu séu m.a. 126 milljónir króna vegna taps fyrirtækisins sökum undirverðlagningar á pakkagjaldskrá Póstsins, sem hefur verið í gildi frá ársbyrjun 2020 og 181 milljón króna vegna þjónustu á „óvirkum“ markaðssvæðum þar sem engu að síður ríkir samkeppni, eins og Ólafur orðar það. „Við erum mjög hissa á framgöngu Póst- og fjarskiptastofnunar í þessu máli öllu. Í febrúar í fyrra þegar við bentum á að gjaldskrá Íslandspóst yfir pakka væri ólögmæt og fæli í sér undirverðlagningu og stangaðist á við ákvæði póstlaganna um að gjaldskrá alþjónustu yrði að miðast við raunkostnað að viðbættri eðlilegri álagningu, þá sýndi Póst- og fjarskiptastofnun nokkurn myndugleik og krafðist þess af Íslandspósti að sýnt yrði fram á að gjaldskráin stæðist þennan áskilnað laganna. Núna tekst stofnuninni að skrifa fjörutíu blaðsíðna ákvörðun þar sem lagaákvæðið um að gjaldskrá alþjónustu skuli taka mið af raunkostnaði er hvergi nefnt, eins og það sé ekki til í lögunum. Og okkur finnst þetta í hæsta máta óeðlilegt og ófaglegt, og berum brigður á þessa ákvörðun,“ segir Ólafur.