Meistaradeildin
Víðir Sigurðsson
vs@mbl.is Chelsea og Bayern München eru í afar góðri stöðu til að komast í átta liða úrslit Meistaradeildarinnar í fótbolta eftir góða útisigra í sextán liða úrslitunum í gærkvöld.
Olivier Giroud skoraði glæsilegt mark með hjólhestaspyrnu á 70. mínútu gegn Atlético og það reyndist sigurmark Chelsea, 1:0. Sanngjarn sigur enska liðsins en leikið var í Búkarest þar sem ensk lið mega ekki koma til Spánar. Giroud hefur nú skorað sex mörk fyrir Chelsea í Meistaradeildinni og liðið er taplaust í sjö leikjum þar í vetur.
Aðeins Norðmaðurinn Erling Haaland hefur skorað fleiri mörk en Giroud í keppninni í vetur, átta talsins fyrir Dortmund.
Bayern fór létt með Lazio í Róm og vann 4:1 eftir að staðan var 4:0 eftir 50 mínútna leik. Robert Lewandowski, Jamal Musiala og Leroy Sané skoruðu fyrir hlé og Lazio hóf seinni hálfleik á sjálfsmarki. Joaquín Correa svaraði strax fyrir Lazio en þar við sat.
*Lewandowski er með markinu orðinn þriðji markahæstur í sögu meistaradeildarinnar með 72 mörk, á eftir Cristiano Ronaldo (134) og Lionel Messi (119). Lewandowski fór fram úr spænska markaskoraranum Raúl sem gerði 71 mark í keppninni á sínum tíma.
*Jamal Musiala varð yngsti Englendingurinn til að skora í Meistaradeildinni, 17 ára og 363 daga gamall, og er jafnframt næstyngsti leikmaðurinn til að skora í útsláttarkeppni deildarinnar. Bojan Krkic á metið en hann skoraði 17 ára og 217 daga gamall fyrir Barcelona.
Seinni leikirnir í báðum einvígjum fara fram 17. mars.
Fyrri leikjum sextán liða úrslitanna lýkur í kvöld. Þá tekur þýska liðið Borussia Mönchengladbach á móti enska toppliðinu Manchester City, í Búdapest, og Atalanta fær Spánarmeistara Real Madrid í heimsókn til Bergamo á Ítalíu. Seinni leikir 16-liða úrslitanna fara síðan fram á bilinu 9. til 17. mars.