Tilþrif Olivier Giroud skorar sigurmark Chelsea gegn Atlético með stórbrotinni hjólhestaspyrnu. Markið var dæmt af en síðan úrskurðað löglegt.
Tilþrif Olivier Giroud skorar sigurmark Chelsea gegn Atlético með stórbrotinni hjólhestaspyrnu. Markið var dæmt af en síðan úrskurðað löglegt. — AFP
Meistaradeildin Víðir Sigurðsson vs@mbl.is Chelsea og Bayern München eru í afar góðri stöðu til að komast í átta liða úrslit Meistaradeildarinnar í fótbolta eftir góða útisigra í sextán liða úrslitunum í gærkvöld.

Meistaradeildin

Víðir Sigurðsson

vs@mbl.is Chelsea og Bayern München eru í afar góðri stöðu til að komast í átta liða úrslit Meistaradeildarinnar í fótbolta eftir góða útisigra í sextán liða úrslitunum í gærkvöld.

Olivier Giroud skoraði glæsilegt mark með hjólhestaspyrnu á 70. mínútu gegn Atlético og það reyndist sigurmark Chelsea, 1:0. Sanngjarn sigur enska liðsins en leikið var í Búkarest þar sem ensk lið mega ekki koma til Spánar. Giroud hefur nú skorað sex mörk fyrir Chelsea í Meistaradeildinni og liðið er taplaust í sjö leikjum þar í vetur.

Aðeins Norðmaðurinn Erling Haaland hefur skorað fleiri mörk en Giroud í keppninni í vetur, átta talsins fyrir Dortmund.

Bayern fór létt með Lazio í Róm og vann 4:1 eftir að staðan var 4:0 eftir 50 mínútna leik. Robert Lewandowski, Jamal Musiala og Leroy Sané skoruðu fyrir hlé og Lazio hóf seinni hálfleik á sjálfsmarki. Joaquín Correa svaraði strax fyrir Lazio en þar við sat.

*Lewandowski er með markinu orðinn þriðji markahæstur í sögu meistaradeildarinnar með 72 mörk, á eftir Cristiano Ronaldo (134) og Lionel Messi (119). Lewandowski fór fram úr spænska markaskoraranum Raúl sem gerði 71 mark í keppninni á sínum tíma.

*Jamal Musiala varð yngsti Englendingurinn til að skora í Meistaradeildinni, 17 ára og 363 daga gamall, og er jafnframt næstyngsti leikmaðurinn til að skora í útsláttarkeppni deildarinnar. Bojan Krkic á metið en hann skoraði 17 ára og 217 daga gamall fyrir Barcelona.

Seinni leikirnir í báðum einvígjum fara fram 17. mars.

Fyrri leikjum sextán liða úrslitanna lýkur í kvöld. Þá tekur þýska liðið Borussia Mönchengladbach á móti enska toppliðinu Manchester City, í Búdapest, og Atalanta fær Spánarmeistara Real Madrid í heimsókn til Bergamo á Ítalíu. Seinni leikir 16-liða úrslitanna fara síðan fram á bilinu 9. til 17. mars.