Samskipti Sjúkraþjálfarar eru á meðal þeirra stétta sem hafa staðið í stappi við Sjúkratryggingar Íslands. Sama er að segja um talmeinafræðinga og fjögur sveitarfélög en þau hafa gefist upp á rekstri hjúkrunarheimila.
Samskipti Sjúkraþjálfarar eru á meðal þeirra stétta sem hafa staðið í stappi við Sjúkratryggingar Íslands. Sama er að segja um talmeinafræðinga og fjögur sveitarfélög en þau hafa gefist upp á rekstri hjúkrunarheimila. — Morgunblaðið/Árni Sæberg
Guðni Einarsson gudni@mbl.is Sveitarfélög og félög sérfræðinga hafa kvartað til Sjúkratrygginga Íslands (SÍ) og heilbrigðisráðuneytisins vegna óánægju með samskiptin við SÍ.

Guðni Einarsson

gudni@mbl.is

Sveitarfélög og félög sérfræðinga hafa kvartað til Sjúkratrygginga Íslands (SÍ) og heilbrigðisráðuneytisins vegna óánægju með samskiptin við SÍ.

Það vakti mikla athygli þegar fjögur sveitarfélög; Akureyri, Vestmannaeyjabær, Höfn og Fjarðabyggð, sögðu upp samningum við ríkið um rekstur hjúkrunarheimila. Ástæðan var viðvarandi halli á rekstrinum og að sveitarfélögunum þótti daufheyrst við ákalli þeirra um úrbætur og hærri greiðslur.

Ásthildur Sturludóttir, bæjarstjóri á Akureyri, gagnrýndi vinnubrögð SÍ harðlega við umræðu um rekstur hjúkrunarheimila í bæjarstjórn Akureyrar eins og fréttavefurinn akureyri.net greindi frá 17. febrúar. Hún sagði að sveitarfélög sem sögðu upp samningum um rekstur hjúkrunarheimilanna hefðu haft samráð sín á milli og upplýst Samband íslenskra sveitarfélaga um gang viðræðna.

„Í desember [innsk. 2020] var orðið ljóst að trúnaðarbrestur hafði orðið á milli SÍ og sveitarfélaganna sem um ræðir,“ sagði Ásthildur og bætti við: „Það hlýtur að teljast mjög alvarlegt þegar opinber stofnun verður uppvís að slíkum vinnubrögðum og það voru mér og starfsfólki mínu mikil vonbrigði þegar kom í ljós hvers kyns var. Ég taldi að viðræðurnar við SÍ færu fram af fullum heilindum en annað kom á daginn þegar sveitarfélögin báru saman bækur sínar og ljóst var að forstjóri SÍ bar ólíkar upplýsingar á milli aðila.“ Akureyrarbær hefur ráðið lögmann til að gæta hagsmuna sinna gagnvart SÍ.

Kvartað við ráðherra

Umrædd fjögur sveitarfélög skrifuðu Svandísi Svavarsdóttur heilbrigðisráðherra þann 17. desember 2020 vegna samninganna um rekstur hjúkrunarheimilanna sem þau höfðu sagt upp. Í bréfinu sagði m.a. að algjör trúnaðarbrestur væri kominn upp af hálfu sveitarfélaganna gagnvart forstjóra SÍ og sögðu þau hann hafa orðið uppvísan að ósannsögli í viðræðum aðila. Sveitarfélögin óskuðu eftir fundi með ráðherra um málið.

Samtök fyrirtækja í velferðarþjónustu (SVF) og Samband íslenskra sveitarfélaga (sambandið) sendu bréf 8. febrúar sl. til að vekja athygli forstjóra SÍ og heilbrigðisráðuneytisins „á þeim seinagangi og samskiptaleysi sem virðist einkenna afgreiðslu mikilvægra mála sem upp hafa komið í tengslum við þjónustusamninga SÍ við hjúkrunarheimili landsins“.

Þar kemur fram að SFV og sambandið hafi lagt fram bókun á fundi samstarfsnefndar SÍ, SFV og sambandsins þann 18. desember 2020. Þar gerðu SFV og sambandið alvarlegar athugasemdir við hve langan tíma hafði tekið að láta hjúkrunarheimilin fá viðbótarfjárveitingu vegna kostnaðar út af kórónuveirufaraldrinum. Einnig voru vinnubrögð SÍ við gagnaöflun gagnrýnd. Þegar þrýst sé á um málið vísi SÍ og heilbrigðisráðuneytið ábyrgðinni hvort á annað. Einnig hafa fulltrúar SFV og sambandið gert athugasemdir vegna seinagangs í afgreiðslu annarra mála varðandi hjúkrunarheimilin.

Sjúkraþjálfarar óánægðir

Heilbrigðisráðuneytinu var send ábending þann 10. ágúst 2020 vegna „framferðis og ummæla forstjóra Sjúkratrygginga Íslands í garð sjúkraþjálfara og Félags sjúkraþjálfara“. Ábendinguna sendi lögmaður fyrir hönd Félags sjúkraþjálfara (FS) og vakti þar með athygli „á ósæmilegu og ólögmætu framferði forstjóra Sjúkratrygginga Íslands (SÍ) í opinberri umfjöllun um sjúkraþjálfara og FS í árslok 2019“ eins og segir í bréfinu.

Meint háttsemi SÍ var dregin saman í þrjú atriði. Það fyrsta voru aðdróttanir um að FS hefði brotið samkeppnislög. Í öðru lagi hótanir um að sjúkraþjálfarar sem ekki færu eftir „löglausum kröfum SÍ“ yrðu dregnir til ábyrgðar. Í þriðja lagi aðdróttanir um að sjúkraþjálfarar væru að misnota stöðu sína og brjóta gegn skyldum sínum með því að „beita fyrir sig sjúklingum“.

Heilbrigðisráðuneytið svaraði bréfi FS 7. desember 2020 og fór yfir atriði málsins. Í lok bréfsins sagði ráðuneytið að það teldi ekki tilefni til að „beita yfirstjórnunar- og eftirlitsheimilum ráðherra vegna framangreindra atriða er viðkoma háttsemi forstjóra SÍ“.

Viðbótarskilyrðum mótmælt

FS sendi heilbrigðisráðherra annað bréf 1. febrúar sl. og mótmælti nýjum viðbótarskilyrðum í reglugerð um endurgreiðslu kostnaðar vegna sjálfstætt starfandi sjúkraþjálfara. Breytingin felur í sér það skilyrði að sjúkraþjálfarinn hafi starfað í a.m.k. tvö ár sem sjúkraþjálfari í a.m.k. 80% starfshlutfalli eftir löggildingu. FS segir þessa breytingu vera í andstöðu við lög og stjórnarskrá. Þá kom fram í bréfinu að FS hefði á undanförnum tveimur árum reynt að eiga samstarf og samtal með SÍ og ráðuneytinu. „Því miður hefur slíkum óskum oftast verið tekið fálega.“

Heilbrigðisráðuneytið svaraði 17. febrúar sl. og kvaðst telja að með skilyrðinu um tveggja ára starfsreynslu væri ekki verið að skerða atvinnufrelsi. Með reglugerðinni hefði verið sett skilyrði fyrir greiðsluþátttöku ríkisins.

Talmeinafræðingar kvarta

Félag talmeinafræðinga á Íslandi (FTÍ) hefur einnig staðið í stappi við SÍ. Það er vegna ákvæða í rammasamningi sem félagið vill fella út. Kristín Theódóra Þórarinsdóttir, formaður FTÍ, sagði að þeim hefði þótt vinnubrögð SÍ í þeim viðræðum hafa verið fremur ófagleg. Þannig hefðu t.d. ekki verið haldnar fundargerðir.

Hún sagði að FTÍ hefði kvartað við SÍ vegna samskiptanna. FTÍ hefði hugleitt að senda Umboðsmanni Alþingis erindi um erfið samskipti sín við SÍ.

Þungur rekstur
» Sjúkratryggingar Íslands (SÍ) hafa óskað eftir viðræðum við aðila sem vilja taka við rekstri fjögurra heimila sem sveitarfélög hafa rekið.
» Þau eru Hraunbúðir í Vestmannaeyjum, Hulduhlíð á Eskifirði, Uppsalir á Fáskrúðsfirði og Öldrunarheimili Akureyrar sem rekur Hlíð og Lögmannshlíð.
» Á þessum heimilum eru samtals 244 hjúkrunarrými, 12 dvalarrými og 46 dagdvalarrými.
» Samtök fyrirtækja í velferðarþjónustu hafa sagt að sveitarfélögin treysti sér ekki til að reka þessi hjúkrunarheimili áfram vegna viðvarandi hallareksturs.
» Beðið er eftir niðurstöðu starfshóps sem var skipaður til að greina raungögn um rekstur og rekstrarkostnað hjúkrunarheimila.