Ninna Dóróthea Leifsdóttir fæddist í Vestmannaeyjum 15. maí 1940. Hún lést á Landspítalanum 24. janúar 2021.

Foreldrar hennar voru Leifur Sigfússon tannlæknir, f. 4. nóvember 1892, d. 25. febrúar 1947, og Ingrid Sigfússon (f. Steengaard) tannsmiður, f. 30. september 1909 í Danmörku, d. 29. desember 1987.

Börn Ninnu eru :

1) Lis Sveinbjörnsdóttir, f. 6. nóvember 1958. Maki Anna Lange, f. 18. ágúst 1950.

2) Leifur Lúther Garðarsson, f. 9 apríl 1963. Sambýliskona Ása Viðarsdóttir, f. 18. júní 1963.

3) Jóhanna Vilhelmína Jóhannesdóttir, f. 12. desember 1979.

Útförin fór fram 18. febrúar 2021 að viðstöddum nánustu ættingjum og vinum.

Þá er komið að kveðjustund, elsku Ninna mín. Það er langt síðan við kynntumst, um það bil 60 ár.

Þá vorum við ungar námsmeyjar í Danmörku að læra snyrtifræði.

Með okkar tókst vinátta sem entist alla ævi þína og mína það sem komið er af henni. Það var dásamlegt að vera vinkona Ninnu Leifsdóttur.

Móðir Ninnu var dönsk og hafði Ninna oft á sínum uppvaxtarárum dvalið langtímum saman í Danmörku. Ninna talaði því dönsku jafnvel og íslensku, sem kom sér oft vel. Við útskrifuðumst saman og fluttum þá til Íslands þar sem störf blöstu við og tímarnir breyttust. En vináttan hélst óbreytt.

Fullorðinsárin gengu í garð og við eignuðumst fjölskyldur. Ninna eignaðist þrjú börn, Lís, Leif og Jóhönnu, og ég eignaðist tvö, Guðlaugu og Ólaf.

Við unnum báðar ætíð störf, þar sem við nýttum þá kunnáttu sem nám okkar í Danmörku veitti. Og svo vildi til að leiðir okkar lágu saman þegar við unnum hlið við hlið um nokkurra ára skeið á Hrafnistu í Reykjavík.

Þegar húmar og hallar að degi

heimur hverfur og eilífðin rís.

Sjáumst aftur á sólfögrum ströndum

þar sem sælan er ástvinum vís.

(Guðrún Halldórsdóttir)

Elsku Ninna mín, þakka þér fyrir alla vinátta þína og samveru.

Sendi samúðarkveðju til fjölskyldunnar.

þín vinkona,

Guðbjörg Guðmundsdóttir (Gauja).