Dragon Dim Sum býður upp á kínverskan mat. Þar á meðal eru hveitibollur.
Dragon Dim Sum býður upp á kínverskan mat. Þar á meðal eru hveitibollur.
Aron Þórður Albertsson aronthordur@mbl.is Dragon Dim Sum var opnaður í miðbænum síðasta haust. Hann hefur notið gríðarlegra vinsælda.

„Við höfðum þetta rými til afnota í tvo mánuði frá september í fyrra og ákváðum að prófa að opna svona „pop-up“-stað. Vinsældirnar voru síðan framar vonum og við tókum ákvörðum um að halda áfram með þetta,“ segir Hrafnkell Sigurðsson, eigandi Mat Bars, sem ásamt eigendum Makake stendur að baki opnun veitingastaðarins Dragon Dim Sum í Bergstaðastræti í Reykjavík. Staðurinn var opnaður líkt og fyrr segir í septembermánuði í fyrra en frá þeim tíma hefur verið brjálað að gera. Dragon Dim Sum sérhæfir sig í matreiðslu á kínverskum hveitibollum, svokölluðum „dumplings“.

Aðspurður segir Hrafnkell að lítið hafi farið fyrir neyslu hveitibolla hér á landi. Þær séu hins vegar mjög vinsælar í Asíu, sérstaklega í Kína.

Skemmtileg viðbót við flóruna

„Í grunninn er þetta bara skyndibiti og eykur við fjölbreytnina á þeim markaði hér heima. Þegar ég bjó sjálfur í London fannst mér alltaf skemmtilegt að fara í kínverska hverfið til að fá mér „dumplings“. Eftir að hafa rætt saman ákváðum við að láta slag standa og prófa að opna svona stað hér,“ segir hann og bætir við staðurinn sé fullur af fólki nær alla daga. „Þetta er eitthvað nýtt og þess vegna vill fólk prófa þetta. Skammturinn er síðan frekar ódýr.“

Spurður hversu margar hveitibollur hafi verið seldar frá opnun staðarins segir Hrafnkell þær hlaupi á tugum þúsunda. „Það kæmi mér ekki á óvart ef þetta væri farið að nálgast um 100 þúsund stykki.“