— AFP
Ásgeir Ingvarsson skrifar frá Mexíkóborg ai@mbl.is Í gegnum Rush Limbaugh tókst að koma sjónarmiðum hægrisins að í bandarískri samfélagsumræðu.

Mér finnst það einkenna forystufólk vinstrisins að þau hafa mörg fengið langtum meiri fegurð og kynþokka í vöggugjöf en leiðtogar hægrisins. Dæmin eru óteljandi bæði í íslenskri, bandarískri og evrópskri pólitík: því lengra sem farið er til vinstri því blíðara verður brosið og því meiri verða persónutöfrarnir. Vinstrið hefur spengileg kyntákn sem myndavélarnar elska, eins og Justin Trudeau, Alexandríu Ocasio-Cortez, Emmanuel Macron og Barack Obama. Á meðan situr hægrið uppi með frekar lúin og hjassaleg eintök eins og Boris Johnson og Donald Trump.

Er freistandi að útskýra þetta fyrirbæri með því að boðskapur vinstrisins höfði til hjartans frekar en til heilans; að það sé hægt að ná til kjósenda hægra megin með rökum en vinstrið verði að krækja í atkvæðin með fallegum umbúðum. Eða máski að laglegt fólk sé hreinlega líklegra til að verða vinstrimenn því yfirleitt fylgir það fegurðinni að fá allt upp í hendurnar og hafa þess vegna takmarkaðan skilning á alvöru lífsins.

Sagan af réttarhöldunum yfir Frýne kemur upp í hugann en hún starfaði sem gleðikona af fínni gerðinni í Aþenu á fjórðu öld fyrir Krist. Var Frýne einstaklega lagleg kona og segja sérfræðingarnir að megi sjá vaxtarlag hennar á flestum styttum Forn-Grikkja af ástargyðjunni Afródítu.

Eitt skiptið komst Frýne í kast við lögin og var sökuð um að vanvirða launhelgarnar í Elvesis svo að hún átti á hættu að vera líflátin. Margir virtustu hugsuðir og broddborgarar Aþenu héldu uppi vörnum fyrir Frýne, enda flestir bálskotnir í henni, en þegar leit út fyrir að málið væri að taka ranga stefnu segir sagan að ræðusnillingurinn Hýpereides hafi gripið til þess ráðs að afklæða Frýne í réttarhöldunum miðjum, því hvernig gætu öldungarnir dæmt til dauða aðra eins fegurðardís?

Bragð Hýpereidesar virkaði: Frýne hlyti að vera í sérstöku uppáhaldi hjá guðunum fyrst þeir gáfu henni aðra eins fegurð. Maður kemst upp með margt ef maður hefur útlitið með sér.

Geta lesendur rétt ímyndað sér hversu langt Rush Limbaugh gat fleytt sér á útlitinu einu saman, enda hvorki spengilegur né hárprúður eða sérstaklega svipfríður. Grínistinn Al Franken var ekkert að skafa utan af hlutunum þegar hann gaf árið 1996 út bók með titilinn Rush Limbaugh Is a Big Fat Idiot . Vissulega var það rétt hjá Franken að Limbaugh var bæði stór og feitur, en hann var hins vegar alls enginn vitleysingur. Þegar kom að hæfileikum hans sem útvarpsþáttastjórnandi voru guðirnir ekki rausnarlegri við nokkurn mann.

Limbaugh lést fyrir viku af völdum lungnakrabbameins og lauk þar með merkilegum kafla í sögu hægristjórnmála í Bandaríkjunum.

Fimmtán milljón hlustendur

Til að skilja framlag Rush Limbaughs þarf að rifja upp hversu fátæklegt fjölmiðlaumhverfi Bandaríkjanna var þegar honum skaut upp á stjörnuhimininn. Helstu dagblöð, útvarps- og sjónvarpsstöðvar hölluðust til vinstri og frá árinu 1949 þurftu bandarískir fjölmiðlar að beygja sig undir reglur fjarskiptaráðs Bandaríkjanna (FCC) um að leyfa ólíkum sjónarmiðum að heyrast þegar fjallað væri um álitamál. Í reynd urðu reglurnar til þess að skoðanir frá hægri vængnum fengu sjaldan að komast að.

Eftir nokkuð skrautlegan feril var Limbaugh fenginn til að fylla í skarðið á útvarpsstöð í Sacramento einmitt um það leyti sem Ronald Reagan ógilti reglur FCC svo að bandarískir fjölmiðlar fengu loksins fullt frelsi til að haga þáttagerð sinni í takt við óskir markaðarins. Limbaugh var á réttum stað á réttum tíma og reyndist einstaklega lagið að greina málefni líðandi stundar frá sjónarhorni hægrisins. Hlustendur höfðu gaman af því hvað hann talaði hispurslaust og hvernig hann gerði stólpagrín að vinstrinu. Í ljós kom að markaðinn þyrsti í einmitt svona efni og fyrr en varði var útvarpsþátturinn orðinn sá vinsælasti í Bandaríkjunum. Þegar Limbaugh féll frá var þáttur hans sendur út hjá nærri 600 stöðvum og hlustendurnir um 15 milljón talsins.

Eins og oft er raunin með fallegt fólk þá hafði bandaríska vinstrið ekki gaman af að láta gera grín að sér og reyndi hvað það gat að klína alls konar óþverra á útvarpsmanninn: hann væri karlrembusvín og óbermi með fordóma fyrir öllum helstu minnihlutahópum. Vitaskuld talaði Limbaugh af sér oftar en einu sinni – hann var jú í loftinu þrjá tíma á dag í rösklega þrjá áratugi, gerði í því að stríða fólki og húmorinn oft groddalegur – en heilt á litið hafði Limbaugh á réttu að standa og komst að kjarna málsins með þeim hætti að hinn almenni hlustandi gat áttað sig betur á mönnum og málefnum.

Sjálfur komst ég ekki upp á lagið með að hlusta á Limbaugh. Ég er hrifnari af lágstemmdari álitsgjöfum sem fara beint að kjarna málsins og kafa djúpt. En það hefur verið gaman að heyra hvernig mínir uppáhaldsálitsgjafar hafa minnst Limbaughs með hlýhug og bent á að þeir sem halda uppi vörnum fyrir málstað hægrisins í dag byggja á þeim grunni sem Limbaugh lagði. Má fullyrða að útvarpsþáttur hans breytti landslagi fjölmiðlamarkaðarins vestanhafs og ruddi t.d. brautina fyrir fréttastöð Fox og ótal hlaðvarpsþætti ungra hægri- og frjálshyggjumanna á borð við Dave Rubin, Steven Crowder og Ben Shapiro sem í dag virkja netið til að koma boðskap sínum á framfæri við hlustendur um allan heim. Þegar saga hægristjórnmála og frjálshyggju á 20. og 21. öld verður skrifuð verður Limbaughs minnst sem mannsins sem lagði hornsteininn.

Vinstri-heiftin á sínum stað

Limbaughs verður líka minnst fyrir það hvernig hann fékk vinstrið til að sýna sínar verstu hliðar. Þegar frægðarstjarna hans reis hvað hæst brugðust bandarískir vinstrimenn við eins og þeir gera í dag, og reyndu að svipta hann lífsviðurværinu með því að ráðast á auglýsendur hans. Í stað þess að svara Limbaugh með vönduðum rökum og umræðu reyndu andstæðingar hans að bola honum í burtu – en mistókst hrapallega.

Árásirnar héldu meira að segja áfram að Limbaugh látnum. Ætti það að vera vinstrimönnum umhugsunarefni hvernig fólk úr þeirra eigin röðum bregst við þegar einhver úr „hinu liðinu“ fellur frá, því heiftin og rætnin er fyrir neðan allar hellur. Á Twitter náðu myllumerki eins og #RotInHell og #RestInPiss mikilli útbreiðslu þegar fréttist af andláti Limbaughs og vinstrimenn á netinu kepptust við að níða þennan vinsæla útvarpsmann. Er áhugavert að bera tíst góða fólksins á vinstri vængnum saman við viðbrögð hægrimanna þegar hetjur vinstrisins falla frá.

Viðbrögðin við andláti Limbaughs sýna líka hvernig verstu hliðar vinstrisins eflast jafnt og þétt og hvernig svigrúmið fyrir heilbrigðan skoðanaágreining og upplýsta umræðu minnkar dag frá degi. Er eins gott fyrir okkur hægra megin sem höfum gaman af að atast í fólkinu á vinstri vængnum að vera dugleg að mæta í ræktina, því við þurfum að vera jafn ómótstæðileg og Frýne ef við eigum að eiga einhvern séns á að lenda ekki í hakkavélinni einn góðan veðurdag.