Nýtt hverfi Við Krossmýrartorg á að rísa hjarta nýs hverfis á Ártúnshöfða.
Nýtt hverfi Við Krossmýrartorg á að rísa hjarta nýs hverfis á Ártúnshöfða. — Ljósmynd/Reykjavíkurborg
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Oddur Þórðarson oddurth@mbl.is Fyrirhugað íbúðahverfi á Ártúnshöfða og Vogabyggð verður álíka fjölmennt og Grafarvogur en sjöfalt minna. Frumdrög að uppbyggingu á þessum svæðum gera ráð fyrir að um 20 þúsund íbúar rúmist á um 120 hektara svæði.

Oddur Þórðarson

oddurth@mbl.is

Fyrirhugað íbúðahverfi á Ártúnshöfða og Vogabyggð verður álíka fjölmennt og Grafarvogur en sjöfalt minna. Frumdrög að uppbyggingu á þessum svæðum gera ráð fyrir að um 20 þúsund íbúar rúmist á um 120 hektara svæði. Í Grafarvogi búa um 18 þúsund manns á tæplega 800 hektara svæði. Svokölluð forkynning deiliskipulagstillagna verður haldin á morgun, fimmtudag, en einnig má nálgast frekari upplýsingar á kynningarvef Reykjavíkurborgar, skipulag.reykjavik.is.

Ámóta þétt og aðrir reitir

Pawel Bartoszek, forseti borgarstjórnar og formaður skipulags- og samgönguráðs Reykjavíkurborgar, segir í samtali við Morgunblaðið að svæðið sé ámóta þétt og aðrir þéttingarreitir í borginni þar sem uppbygging íbúðarhúsnæðis sé þegar hafin eða lokið.

„Vissulega, við erum að byggja þéttar en þegar við vorum að byggja Staðahverfið í Grafarvogi á sínum tíma, eða þá þessi hverfi sem byggðust upp um aldamótin,“ segir Pawel og bætir við að mjög mikið af fólki vilji búa í höfuðborginni, og því sé þörf á fleiri íbúðum til að gera það auðveldara.

Pawel segir að við uppbyggingu nýs hverfis sé gert ráð fyrir þremur skólum, einum safnskóla og sundlaug. Þetta verði því hið bærilegasta hverfi. Á myndum sem Reykjavíkurborg hefur látið gera má sjá sérrými borgarlínu og græn svæði innan um þétta byggð, verslun og þjónustu. Segir Pawel að þegar áfangar 1-7 verði kláraðir sé um 8.000 íbúðir að ræða, sem aftur þýði um 20.000 manna byggð. Þá verði hluti hverfisins byggður á landfyllingu.

Einkabílnum ekki úthýst

Pawel segir að í nýju hverfi verði ákjósanlegt fyrir íbúa sem lifa bíllausum lífsstíl að búa, en gert er ráð fyrir að ferðatími frá hverfinu og niður á Hlemm með borgarlínu verði um 10 mínútur og skal borgarlína ekki ganga sjaldnar en á sjö mínútna fresti.

„Tengingin á að vera góð, þannig að þeir sem búa þarna, hvort sem það er fólk sem vinnur niðri í bæ, fólk sem vinnur á Landspítalanum eða fólk sem stundar nám við háskólann, geti þá allavega farið sinna daglegu reglulegu ferða öðruvísi en á bíl.“

Pawel segir að þrátt fyrir það verði einkabílnum ekki úthýst, enda sé stutt í bæði Gullinbrú og Ártúnsbrekku, sem og aðrar helstu stofnæðar höfuðborgarsvæðisins.

Lengri útgáfa af viðtalinu verður birt á mbl.is.