*Næstsigursælasti kylfingur sögunnar, Tiger Woods , var fluttur á sjúkrahús í gær eftir bílveltu í Kaliforníu. Fór hann beint í aðgerð vegna ýmissa áverka á fótum samkvæmt Golf Digest sem hafði það eftir umboðsmanni Woods. Frekari fréttir lágu ekki fyrir þegar blaðið fór í prentun en í gærkvöldi var slysið fyrsta frétt hjá helstu miðlum í Bandaríkjunum. Engin önnur bifreið kom við sögu í slysinu og mun Woods hafa verið einn í bílnum.
*Knattspyrnusamband Evrópu, UEFA, hefur aflýst Evrópumótum U19 ára karla og kvenna sem átti að ljúka á þessu ári. Undankeppni átti að fara fram í mars og apríl þar sem til stóð að íslensku piltarnir myndu spila í Noregi en stúlkurnar í Búlgaríu.
* Haukur Helgi Pálsson , landsliðsmaður í körfuknattleik, er klár í slaginn á ný með Andorra eftir að hafa verið frá keppni undanfarnar sex vikur vegna meiðsla. Haukur tognaði á ökkla í leik með liðinu í janúar og hefur því misst af leikjum liðsins í spænsku A-deildinni og í Evrópubikarnum þar sem liðið er í riðlakeppni 16-liða úrslitanna.
* Jón Dagur Þorsteinsson , fyrirliði 21-árs landsliðsins í knattspyrnu, er í úrvalsliði 17. umferðar dönsku úrvalsdeildarinnar, bæði hjá deildinni sjálfri og hjá Tipsbladet. Jón Dagur átti mjög góðan leik með AGF um helgina þegar liðið sigraði SönderjyskE, 2:0.
*Meiðsli sem Aron Einar Gunnarsson landsliðsfyrirliði í knattspyrnu varð fyrir í upphitun fyrir leik Al-Arabi og Al-Sadd í katörsku úrvalsdeildinni reyndust ekki alvarleg. Aron stífnaði í hálsi og gat ekki hreyft sig eðlilega, að sögn Freys Alexanderssonar aðstoðarþjálfara Al-Arabi sem sagði við mbl.is að þessi meiðsli myndu engin áhrif hafa á þátttöku Arons í landsleikjunum í næsta mánuði og reiknað væri með honum í næsta leik liðsins.