Þórir S. Gröndal
Þórir S. Gröndal
Eftir Þóri S. Gröndal: "Ekkjur og fráskildar kvensur eru hér í miklum meirihluta. Nokkrar konur eru enn með lifandi eiginmenn en einhleypir karlar eru örfáir."

Allt hefir farið úr skorðum á þessum tímum heimsfarsóttarinnar sem kennd er við kórónuveiruna. Jafnvel mitt auma elliáralíf hefir snúist á hvolf. Öldrunarsetrið er lokað og engin leikfimi eða önnur starfsemi fyrir okkur gamlingjana. Heilsubótargöngur hér í hverfinu eru því það eina sem hægt er að gera fyrir líkamann. Hér eru 144 húseiningar og flestir íbúanna eru eftirlaunafólk sem er sparlega að eyða gullnu árunum. Ekkjur og fráskildar kvensur eru hér í miklum meirihluta. Nokkrar konur eru enn með lifandi eiginmenn en einhleypir karlar eru örfáir.

Hverfið okkar er mjög aðlaðandi; mikill gróður og grasbalar og þrjár tjarnir. Það er því ánægjulegt að labba um og margir íbúanna nota sér það. Svo má ekki gleyma að stór hluti kvennanna á kjölturakka sem þurfa að komast út nokkrum sinnum á dag. Sérstök svæði eru ætluð hvuttunum þar sem þeir geta gengið örna sinna, en strangt er gengið eftir því að eigendurnir þrífi eftir þá. Einnota plastpokar eru til staðar og ruslatunnur víða. Það er sérstök kúnst að venda plastpokanum við og hafa rétt handtök til að góma úrgang dýranna. Væri ég hundur myndi ég hafa áhyggjur af því hvað myndi gerast þegar aldraður eigandi minn getur ekki lengur beygt sig niður og þrifið eftir mig.

Að ganga tvo hringi í hverfinu tekur hálfa klukkustund og geri ég það tvisvar á dag. Fáir eru á ferli í morgunsárið en um eftirmiðdaginn er oft margt um manninn og hundinn. Hálftíma gangan getur dregist á langinn því stoppa þarf af og til og spjalla. Þá er áríðandi að muna hvað konurnar heita og líka hundarnir þeirra. Þegar svalt er í veðri eru ferfætlingarnir oft klæddir í kápur og peysur. Ein kona sagði mér að sinn hundur ætti svo margar flíkur að hann hefði sinn eigin klæðaskáp.

Sem eðlilegt er beinist talið oft að veirumálum. Tvær fjölskyldur hafa veikst hér í hverfinu og einn níræður maður dó um daginn. Margir eru búnir að fá fyrri bólusetninguna og sumar konurnar eru uggandi yfir því að sú seinni geti orðið erfið. Svo er líka slegið á léttari strengi og er þá stundum stutt í kjaftasögurnar. Karlar eru sjaldséðir á sprangi hér en í fyrradag rakst ég þó á einn sem ég hafði ekki séð lengi. Færði ég í tal að hann hefði ekki sést í margar vikur. Sagði hann þá að ástæðan væri að skrokkurinn á sér hefði verið mjög latur að undanförnu. Fannst mér maðurinn taka skringilega til orða að skella skuldinni á skrokkinn.

Þótt Georgía sé í suðurríkjunum fáum við frost og stundum snjó nokkra daga á vetri hverjum. Þá verður að búa sig vel í morgungönguna. Stundum segi ég við nágrannana að engin veður séu slæm, bara klæðnaðurinn. Ég er svo lánsamur að eiga íslenskar ullarnærbuxur. Þær eru fínar og mjúkar en samt verð ég að viðurkenna að þegar ég klæðist þeim á fyrsta frostdegi er ekki laust við smá kláða í löppunum en svo hverfur hann fljótt. Buxurnar eru sérstakar að því leyti að þær ná langt upp fyrir mittið. Ekki alveg upp í handarkrikann en örugglega upp að bringspölum.

Stórlega efast ég um það að okkar ástkæra þjóð hefði lifað af á eyjunni hvítu í þau 1100 ár sem hún hefir dregið þar fram lífið ef ekki hefði komið til ullin af okkar hjartkæru sauðkind. Hvernig hefði fólkið lifað af þessa hörðu vetur og köldu vor ef það hefði ekki átt ullarnærföt, vaðmálsflíkur, lopapeysur, ullarsokka og vettlinga? En nú er öldin önnur og blessuð sauðkindin á í vök að verjast. En það er nú annað mál.

Það er ekki alveg á hreinu hvernig ég eignaðist ullarnærbuxurnar. Ég held endilega að mamma hafi gefið mér þær. Drengurinn hennar var að flytja til Ameríku og hún vildi vera viss um að honum myndi ekki verða þar kalt. Þið vitið hvernig mæður hugsa. Það skipti ekki máli þótt drengurinn væri orðinn þrítugur og væri þar að auki með eiginkonu og barn. Þetta er mín kenning og ég held mig við hana, sér í lagi þar sem flestir sem myndu vita um málið eru nú fallnir frá.

Við bjuggum í Pennsylvaníu í mörg ár þar sem ég vann við fisksölu en Sambandið sáluga var þar með fiskvinnslustöð. Þarna voru vetur kaldir, jafnvel kaldari en í Reykjavík, og snjókoma algeng. Ég prísaði mig sælan að eiga þessar forláta ullarnærbuxur og klæddist þeim oft. En svo fluttum við til Flórída og þá hurfu nærbuxurnar mér úr minni í mörg ár. Af og til rakst ég á þær í nærfataskúffunni og sagði þá við konuna að hún skyldi bara láta þær hverfa því ég myndi ekki hafa nein not fyrir þær í Flórídasólskininu. En hún neitaði því algerlega og sagðist ekki farga þessum flottu ullarnærbuxum. Maður veit aldrei hvað framtíðin ber í skauti sínu, sagði hún.

Og vitanlega hafði hún rétt fyrir sér. Án buxnanna hefði mér oftsinnis orðið kalt á lærum og löppum hér í Georgíu. Í gærmorgun var sjö stiga frost og strekkingsvindur. Ég dreif mig í nærbrækurnar góðu fyrir morgungönguna. Enginn var á ferli og hundar hafa orðið að halda í sér. Ég hugsaði með þakklæti til Erlu heitinnar, konu minnar, fyrir að hún skyldi ekki hafa hlustað á mig og látið buxurnar hverfa í ruslið í Flórída.

Höfundur er fyrrverandi fisksali og ræðismaður í Ameríku. floice9@aol.com

Höf.: Þóri S. Gröndal