Barcelona Bretar eru tíðir gestir í sólarlöndum og vonast eftir betri tíð.
Barcelona Bretar eru tíðir gestir í sólarlöndum og vonast eftir betri tíð. — AFP
Bretar hafa sleppt fram af sér beislinu og pantað ferðir í allar áttir í framhaldi af ræðu Boris Johnsons í þinginu í fyrradag þar sem hann birti ítarleg áform um afnám þvingana í þágu smitvarna og lét svo ummælt að færi flest á besta veg gætu Bretar...

Bretar hafa sleppt fram af sér beislinu og pantað ferðir í allar áttir í framhaldi af ræðu Boris Johnsons í þinginu í fyrradag þar sem hann birti ítarleg áform um afnám þvingana í þágu smitvarna og lét svo ummælt að færi flest á besta veg gætu Bretar verið komnir yfir kórónuveirufaraldurinn síðsumars.

Þrátt fyrir að enn sé mörgum spurningum ósvarað um hvenær hægt verði að hefja millilandaflug til og frá Bretlandi á ný jukust bókanir í ferðir Tui, stærstu ferðaskrifstofu Bretlands, um 500% í gær. Voru það mest ferðir til sólríkra landa eins og Grikklands, Spánar og Tyrklands frá og með júlí.

Þá sagðist eigandi ferðamiðlarans Hoseasons Cottages hafa selt 10.000 gistipakka innanlands sem væri algjört met. Flugfélög nutu góðs af bjartsýninni en þannig jukust bókanir í ferðir með EasyJet í gær um 337% miðað við sama dag vikunni fyrr. Við þetta snarhækkuðu hlutabréf í félaginu, samkvæmt tilkynningu. Hið sama er að segja um flesta keppinauta EasyJet.

Ferðaskrifstofan Thomas Cook sagði að heimsóknum á netsíðu hennar hefði fjölgað um rúmlega 100% í gær. „Bókunum rignir yfir okkur til áfangastaða í Grikklandi, Kýpur, Mexíkó og Dóminíkanska lýðveldinu,“ sagði á síðunni.