[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Pétur Hrafn Sigurðsson fæddist 24. febrúar 1961 í Reykjavík og ólst upp í Hlíðunum að stærstum hluta, en átti heima í Vestmannaeyjum tveggja til sex ára. Pétur gekk í Hlíðaskóla en tók 10. bekk í Ármúlaskóla þar sem 10.

Pétur Hrafn Sigurðsson fæddist 24. febrúar 1961 í Reykjavík og ólst upp í Hlíðunum að stærstum hluta, en átti heima í Vestmannaeyjum tveggja til sex ára.

Pétur gekk í Hlíðaskóla en tók 10. bekk í Ármúlaskóla þar sem 10. bekkur var ekki í Hlíðaskóla á þessum tíma. Hann fór svo í Menntaskólann við Hamrahlíð og lauk síðan BA-prófi í sálfræði við Háskóla Íslands.

„Ég var fimm sumur í sveit í Efri-Lækjardal í Engihlíðarhreppi í Austur-Húnavatnssýslu hjá ömmubróður mínum Friðgeiri Kemp og konu hans Elísabetu Geirlaugsdóttur Kemp. Það var frábær tími þar sem ég lærði til verka, allt frá girðingavinnu og heyskap yfir í smalamennsku á haustin. Eftir menntaskóla tók ég mér frí og fór á sjóinn og var m.a. á Ingólfi Arnarsyni sem var mikil og góð reynsla.“

Pétur stundaði íþróttir með Val, aðallega knattspyrnu upp alla yngri flokka en hætti eftir 2. flokk. „Ég var aðeins í körfubolta og í marki í handbolta þar til leikmenn fóru að skjóta svo fast að ég dofnaði upp í höndunum þegar ég varð fyrir boltanum. Á þessum tíma voru ekki margar æfingar í viku í hverri grein eins og nú er og því var hægt að prófa ýmislegt og ég prófaði sund hjá Ármanni og frjálsar hjá ÍR þar sem ég fór á æfingar með Þórdísi Gísladóttur hástökkvara. Hún hélt áfram og varð ein besta íþróttakona landsins, en mínir hæfileikar lágu ekki í frjálsum og stoppaði ég stutt við. Ég náði þó að mæta á nokkrar æfingar hjá Guðmundi frjálsíþróttaþjálfara í ÍR-húsinu á Túngötu.“

Pétur varð framkvæmdastjóri Körfuknattleikssambands Íslands 1987 og starfaði þar í 17 ár. „Það var afar skemmtilegur tími. Mikil sprenging varð í íþróttinni þegar Michael Jordan kom fram í bandaríska körfuboltanum. Við hjá KKÍ lögðum ofurkapp á að vinna að útbreiðslu íþróttarinnar og fjölga félögum sem höfðu körfubolta innan sinna vébanda og fjölga iðkendum sem tókst mjög vel. Starfið var oft og tíðum mjög krefjandi sér í lagi að afla fjármagns til reksturs sambandsins og landsliðanna. Í þá daga var síminn aðalsamskiptatækið og hringt hvenær sólarhringsins sem var. Fyrstu árin var skemmtilegt að hitta forsvarsmenn félaga af landsbyggðinni sem ég hafði aldrei séð, en talað við í síma í heilan vetur. Þá þekkti maður þá af röddinni. Þegar ég hætti hjá KKÍ fannst mér ég allt í einu ekki eiga neina vini þar sem síminn hætti að hringja!“

Árið 1994 varð Pétur alþjóðlegur eftirlitsmaður í körfubolta og var þá sá yngsti í Evrópu. „Þegar ég mætti til Madríd sem eftirlitsdómari hjá Real Madrid spurðu forviða Madrídingar hvort nú tíðkaðist að senda „baby commissioner“. Ég sat í unglinganefnd FIBA í átta ár. Fyrra kjörtímabilið var ég langyngstur en síðara kjörtímabilið kom inn yngra fólk sem gerði töluvert miklar breytingar á mótafyrirkomulagi yngri landsliða.

Eftir að Pétur hætti hjá KKÍ tók hann að sér sjálfboðaliðastörf eins og að vera formaður dómaranefndar KKÍ í nokkur ár. Hann var síðan formaður körfuknattleiksdeildar Breiðabliks í þrjú ár. Hann er silfurbliki og fékk félagsmálabikar Breiðabliks 2009. Pétur hefur fengið gullmerki bæði frá KKÍ og ÍSÍ sem viðurkenningu fyrir störf hans innan íþróttahreyfingarinnar.

Pétur gerðist deildarstjóri hjá Íslenskri getspá 2004 og starfar þar enn. „Má segja að þá hafi ég flust hinum megin við borðið því Íslensk getspá leggur íþróttahreyfingunni til töluvert fjármagn í reksturinn og er Getspá mikilvægasti stuðningsaðili íþróttastarfsemi á landinu í dag. Árið 2014 steig ég svo inn á vettvang stjórnmálanna þar sem reynslan úr íþróttahreyfingunni nýttist vel.“ Pétur hefur verið oddviti Samfylkingarinnar í Kópavogi síðastliðin sex ár og er nú jafnframt formaður sveitarstjórnarráðs Samfylkingarinnar og situr í stjórn flokksins.

Helstu áhugamál Péturs eru íþróttir, útivist og ferðalög innanlands sem utan í góðum hópi vina.

Fjölskylda

Eiginkona Péturs er Sigrún Jónsdóttir, f. 22.8. 1960, framkvæmdastýra hjá Tryggingastofnun ríkisins. Þau eru búsett í Fögrubrekku í Kópavogi. Foreldrar Sigrúnar voru Jón Andrésson, f. 4.12. 1921, d. 13.7. 2003, sjómaður og sundlaugavörður í Kópavogi, og Jóna S. Sigurðardóttir, f. 30.5. 1925, d. 16.7. 1979, verkakona í Kópavogi, þau skildu.

Börn Péturs og Sigrúnar eru: 1) Sigurður Hrafn, f. 11.10. 1988, tölvunarfræðingur, þróunarstjóri útgáfulausna hjá Valitor, kvæntur Svanhvíti Sigurðardóttur, f. 21.3. 1988, þroskaþjálfa hjá Ás styrktarfélagi. Börn þeirra eru Arnar Logi og Einar Hrafn, f. 2014, og Viktoría Mjöll, f. 2019; 2) Arnar, f. 12.3. 1991, maraþonhlaupari; 3) Jóna Þórey, f. 8.6. 1995, laganemi og fv. forseti Stúdentaráðs HÍ.

Bróðir Péturs er Guðmundur Ragnar Sigurðsson Kemp, f. 20.3. 1965, trésmiður og stjórnarformaður Stíganda, búsettur á Blönduósi.

Foreldrar Péturs: Sigurður Kristinsson, f. 6.3. 1938, d. 18.1. 2020, fulltrúi í Reykjavík, og Þórey S. Kemp Guðmundsdóttir, f. 24.11. 1934, íþróttakennari og fyrrverandi lektor við Kennaraháskóla Íslands, búsett í Reykjavík. Þau skildu.