Sigurður Bogi Sævarsson
sbs@mbl.is
„Sterkar konur sem heyja grimma lífsbaráttu og standa í stríði á öllum vígstöðvum eru áberandi sögupersónur í Ísfólkinu,“ segir Sigurgyða Þrastardóttir. „Ævintýraheimurinn er sterkur en hefur á marga lund samsvörun í nútímanum. Þessar sögur hafa alltaf höfðað sterkt til mín, meira að segja svo að af sumum bókunum á ég jafnvel nokkur eintök. Því er tímabært af mörgum ástæðum að grisja safnið og selja eitthvað af bókunum og miðað við þau viðbrögð sem ég hefi fengið eiga þessar bækur sér marga aðdáendur enn í dag.“
Bókaflokkurinn Sagan um Ísfólkið naut fádæma vinsælda Íslendinga. Algengt var að hver bók seldist í sjö til níu þúsund eintökum, en alls er þetta 47 binda ritröð. Höfundur bókanna, hin norska Margit Sandemo, sótti efnivið til miðalda; rakti ættarsögu Ísfólksins sem bölvun hvíldi yfir alla tíð; allt frá 16. öld til nútímans. Þar kemur til að ættfaðirinn Þengill seldi sál sína djöflinum svo úr varð bölvun sem birist í rafgulum augum og ofurkröftum. Hver kynslóðin á fætur annarri var lengi í vanda af þessum sökum, en sterkar konur, þær Silja, Sunna og Villimey, kunnu ráð við mörgum vanda.
Barátta kröftugra kvenna
Árið 1982 kom fyrsta bókin af Ísfólkinu út í íslenskri þýðingu og hét Álagafjötrar . Síðan rak hver bókin aðra – sjálfstæðar sögur en allar af sama meiði. Árið 1989 kom út síðasta bókin; Er einhver þarna úti? „Jú, þarna eru nornir, draugar, djöflar og galdrar á hverri síðu. Sandemo hafði einstakt innsæi þegar hún skrifaði þessar sögur og spann skemmtilegan söguþráð. Þegar ég var í fæðingarorlofi árið 1994 og með fyrsta barnið mitt á brjósti greip ég Ísfólksbók með mér af bókasafninu, sem þá var í Þingholtsstræti, og heillaðist, svo ekki varð aftur snúið. Ég keypti allar bækurnar eins og ég náði til þeirra, bæði fyrstu útgáfuna og svo þær sem síðar komu með ýmsum breytingum. Grunnstefið er samt alltaf eins; barátta kröftugra kvenna við plágur og stríð um aldir alda,“ segir Sigurgyða og heldur áfram lýsingum:
„Ég man að stundum voru bækurnar um Ísfólkið líka kallaðar húsmæðraklám. Sumar lýsingar á ástalífi þóttu í djarfara lagi. Í ljósi þess hve frásagnir hafa breyst mikið síðan þessar bækur komu út fyrir 35 árum eða svo eru þær afar settlegar. Annars eru Ísfólksbækurnar vel stílfærðar og vinsældir þeirra skiljanlegar. Lýsa líka vel harðri lífsbaráttu sem svo margir þurfa að heyja, enda þótt ytri aðstæður breytist.“
Fyrir nokkru flutti Sigurgyða erindi á vef Eflingar – stéttarfélags þar sem hún sagði sögu sína sem verkakona sem hefði marga fjöruna sopið í fjölbreyttum störfum. „Ég er ófaglærð Eflingardrusla en finnst ég hafa margt til málanna að leggja,“ sagði Sigurgyða sem kveðst hokin af reynslu, meðal annars úr starfi sínu sem dagmamma. Viti allt um vaxtarkippi, exem, ofnæmi, óþol og sé sérfræðingur í að skipta um kúkableyjur á börnum – rétt eins og hún veit allt um Ísfólkið, bækurnar sem hún selur á 500 krónur stykkið.